31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mörg orð hafa fallið og skal ég aðeins koma að fáeinum atriðum. Ég sé reyndar að hv. 1. þm. Vestf: er ekki í salnum, og ætlaði ég þó að svara örfáum atriðum sem hann var með í sinni ræðu, en ég get látið það bíða ef hann skyldi birtast.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði, að ríkisstj. ræður að hluta ferðinni í þessu máli. Það er rétt, að vitanlega getur svo farið og er æskilegast að samstaða náist án þess að afskipti þurfi af að verða. Svo var ekki í þetta skipti. Og hvaða kostir voru þá fyrir hendi?

Ég sagði áðan að ég hafnaði þeirri hugmynd, að oddamaður úrskurðaði, og taldi það vera hættulegt stöðunni. Hver hefði sá úrskurður orðið? Hann hefði, hygg ég, tvímælalaust orðið óbreytt fiskverð. Segja má að það hefði verið nokkurn veginn á milli deiluaðila, óbreytt fiskverð. Með óbreyttu fiskverði hefði útgerðin haft 0.6% minna í sinn hlut heldur en þó með því sem nú er ákveðið.

Ég hafnaði sem sagt þeirri leið. Hvað annað kom til greina sem unnt hefði verið að ná nægilegri samstöðu um? Að hækka fiskverð um 6.67% og halda olíugjaldi óbreyttu? Það lá á borðinu, að þá hefðu bæði sjómenn og útgerðarmenn greitt því atkvæði. Þá hefðu útgjöld fiskvinnslunnar hækkað um 2.5–3% meira en það sem nú verður og það hefði orðið að bæta. Og ég segi það einu sinni enn, að það hefði orðið að bæta með gengissigi. Um annað var ekki að ræða. Hér sagði hv. 1. þm. Vestf. áðan að ríkisstj. kynti undir verðbólgu. Það hefði líka kynt undir verðbólgu. Hér er vitanlega verið að reyna að forðast að kynda undir verðbólgu, en finna þó leið sem aðilar geti búið við.

Menn hafa sagt það hér, að um brigðmæli væri að ræða. Ég mótmæli því. Eins og ég sagði áðan, var um samning fjögurra aðila að ræða og þeim samningi var sagt upp. Lög Alþingis voru eingöngu til að staðfesta þann samning, og þegar samningurinn er fallinn, þá halda lög Alþingis honum ekki í gildi, þá er a.m.k. komin forsenda til þess að þeim megi breyta. Þessi lög Alþingis voru til eins árs, sem þýðir það að fulltrúi útgerðarinnar hefði ætíð getað haft neitunarvald gagnvart nokkurri breytingu á olíugjaldi, t.d. við meiri háttar ákvarðanir um fiskverð á miðju ári o.s.frv. Á að skilja þetta svo, að hann hefði með neitunarvaldi sínu getað komið í veg fyrir að þeim lögum yrði breytt? Ég held að þetta sé á misskilningi byggt. Ég hef borið þetta undir lögfróða menn, hvort þeir teldu að samningur stæðist þá að hluta, ef tveir af fjórum segja honum upp. Enginn hefur léð máls á því, að sá samningur stæði eftir, — ekki nokkur. Ég vísa því á bug að um brigðmæli sé að ræða.

Menn hafa rætt um það, sem ég sagði áðan, að útgerðarmenn sögðu ekki upp samningi og mætti þá meta það svo að þeir hefðu talið við hann búandi. Ég er ekki með því að segja að þar með eigi að knébeygja útgerðarmenn, eins og einhver sagði áðan, — alls ekki. En ég held að það hljóti að mega meta þessa afstöðu þeirra sem merki um skoðun þeirra á málinu.

Ég vakti athygli á því áðan, áður en sumir þm. komu inn, að hefði oddamaður úrskurðað, þá hefði tvímælalaust verið úrskurðað óbreytt fiskverð, sem hefði þýtt 0.6% lakari afkomu útgerðarinnar en hún fær með því sem hér er um að ræða. Mér finnst því að þann hlut megi einnig skoða.

Hér hafa menn verið að gefa í skyn undir rós að einhverjir menn í Verðlagsráði kunni af annarlegum ástæðum að hafa tekið þá ákvörðun sem þeir hafa tekið. Ég vísa því á bug. Ég er sannfærður um að allir menn í Verðlagsráði, hvort sem þeir fylgja þessari stjórn eða eru á móti henni, tóku afstöðu af sannfæringu sinni. Er furðulegt að hlusta á ábyrga menn bera slíkt á borð hér og þeim ekki sæmandi.

Hv. 1. þm. Vestf. spurði um gasolíuverð og innkaupajöfnunarreikning. Það er staðreynd, sem fram kemur í grg. með frv., að viðmiðunarverð gasolíunnar er lægra nú en þegar fiskverð var ákveðið í janúar. Það er staðreynd. Um innkaupajöfnunarreikning gasolíunnar hef ég því miður ekki upplýsingar, en hygg ekki fyrirsjáanleg vandræði með hann. Það er innkaupajöfnunarreikningur bensíns sem stendur illa. Allt bendir til þess — ef svo heldur fram sem nú horfir með gasolíuna, og nú er að koma vor og ekki fyrirsjáanlegur kaldur vetur það sem eftir er í Evrópu, sem ræður miklu þar um — að gasolíuverð muni fremur fara lækkandi. Þeir menn, sem fróðastir eru um það, telja þetta líklegasta þróun nú á næstunni. Ég get ekki sagt um það, hve hröð hún verður eða hvað innkaupajöfnunarreikningurinn jafnar sig fljótt, ef ég má kalla það svo.

Þá spurði hv. þm. hvort 0.6% væri nægilegt fyrir fiskiskipaflotann. Ég hef að nokkru leyti svarað því, en vil bæta því við, að það er ekki nægilegt. Ég er sannfærður um það, að útgerðin þyrfti að hafa meira, en ég hygg að afkoman sé þó viðunandi, eins og kemur fram í þeirri töflu, sem fylgir frv., en ég segi þó ekki nægjanleg, vegna þess að æskilegt er að fyrirtæki standi sterkt og geti þannig tekið á sig skelli eða byrðar sem á kunna að falla hverju sinni. Væntanlega tekst það, en ég óttast að seint takist að skapa slíkan grundvöll á meðan við búum við þá verðbólgu sem er hér nú. Vitanlega er hún bölvaldurinn í þessu öllu saman.

Hér var nefnt af fleiri en einum, að þau atriði, sem ég taldi upp áðan, vægju ekki mikið í því sem hér er um að ræða. Ég get út af fyrir sig tekið undir það að sumu leyti. Hv. 1. þm. Vestf. spurði hvort niðurfelling sölugjalds þýddi nýja skattlagningu. Nei, þar er ekki um stóra tölu að ræða, u.þ.b. 250–300 millj. kr. á ársgrundvelli og líklega 200–250 það sem eftir er ársins. Ég lagði hins vegar jafnframt til að stimpilgjöld yrðu lækkuð aftur. Þau voru hækkuð 1978, í tíð hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar sem sjútvrh., hækkuð úr 0.48% í 1.2%. Ég hef lagt til að þau yrðu lækkuð í það sem þau voru áður. Stimpilgjöld eru að mínu mati of há og eru tekin þannig að þau valda verulegum álögum fyrir t.d. fiskvinnsluna og aðra sem afurðalán þurfa að taka. Mér er jafnframt tjáð að þegar þetta var gert 1978 hafi verið yfirlýst af þáv. fjmrh., að hækkun ætti ekki að koma fram á afurðalánum, en svo hefur þó orðið. Þetta mundi kosta ríkissjóð um 300 millj. á ári og var talið nauðsynlegt að skoða það mál betur en unnt var á þessum tíma m.a. með tilliti til stöðu ríkissjóðs. Um það er því fullt samkomulag að athugað verði hvort ekki megi breyta þessu fyrir gerð nýrra fjárlaga á næsta ári.

Hv. þm. taldi að ekki væri mikið fyrir skuldbreytinguna gefandi. Ég held að það sé töluvert fyrir það gefandi að lækka vexti fyrirtækja úr 55%, sem eru refsivextir nú á ári, niður í skilavexti, sem geta verið, eftir því hvernig lánið er, frá 34% upp í kannske 40%. Ég held að það sé dálítið fyrir það gefandi. A.m.k. hefur mér heyrst það á þeim fyrirtækjum sem þurfa að greiða 55% refsivexti.

Ég hef því miður ekki séð það fjármagn, sem unnt er að grípa til til að létta þessum vanskilum af, á annan máta en að breyta þeim í skil.

Hv. þm. spurði um eiginfjárstöðu Fiskveiðasjóðs. Ég er ekki með þær tölur með mér, en hún batnaði verulega á síðasta ári í fyrsta sinn um langan tíma, er þó of veik, en ætti að gera Fiskveiðasjóði kleift að taka eitthvað á þessu máli um breytingu vanskila í föst lán. Og það er einmitt einn sá þáttur sem þarna verður skoðaður.

Langsamlega erfiðasta málið í þessu sambandi eru vanskil við Útvegsbankann. Það held ég að þm. hljóti að vera ljóst. Þau eru ákaflega mikil, því miður, hjá útgerðinni á mörgum erfiðum svæðum landsins, og Útvegsbankinn er ekki í stöðu til að breyta þeim án aðstoðar frá Seðlabanka eða öðrum aðilum.

Ég vil aðeins segja það út af þeim lokaorðum hv. 1. þm. Vestf., að menn væru að kalla þetta sigur, að ég kalla þetta ekki sigur í málinu, því fer svo víðs fjarri. Ég kalla þetta nánast neyðarúrræði. Ekki náðist víðtæk samstaða, eins og búið var að leita að vikum saman, og ég vona að hv. þm. geri sér grein fyrir því, hvað hér er um viðkvæmt mál að ræða. Sjómenn hafa réttilega kvartað mjög undan því að hafa ekkert fiskverð í 31 dag, eins og hér hefur verið sagt, og sannarlega kominn tími til að ákveða fiskverð. Engin lausn var sjáanleg önnur en þá sú að samþykkja 6.67% hækkun, sem hefði leitt til þess, að orðið hefði að bæta fiskvinnslunni það upp með 2.5 –3% viðbótargengisbreytingu. Menn eru að tala hér um gengisbreytingu. Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína, að gengið hlýtur að breytast á meðan við búum við verðbólguþróun eins og verið hefur. Hins vegar mótmæli ég því, sem ég sá að hafði komið hér fram í umr. utan dagskrár, að ég hefði sagt að gengið ætti að breytast um 15%, og var vísað til viðtals í Dagblaðinu 10. mars. Ég sagði þar, að fiskvinnslan teldi að það þyrfti að breytast um 15%, en ég sagðist vonast til þess að svo yrði ekki, því að með ýmsum aðgerðum mætti draga úr því. Hv. þm. getur farið fram og lesið blaðið. Það gerði ég líka áðan.

Ég held að langtum hollara sé fyrir menn að gera sér grein fyrir því, að í þessari verðbólguþróun hættir ekki hringrásin þegar að útflutningsafurðum okkar kemur. Það verður að hækka til að standa undir hækkun útgjalda. Það er óhjákvæmilegt. Eitthvað næst niður með framleiðniaukningu á nokkrum tíma, því meira því betra, en án slíks og án hækkunar á erlendum mörkuðum stöðvast ekki þessi verðbólgudans við gengið. Það er alveg ljóst.

Ég verð að segja það, að satt að segja er kominn tími til að menn geri sér grein fyrir því, að launahækkun, sem krafist er og menn eiga rétt á, er ekki endilega auður í vasa fenginn. Hún er æðifljótt úr honum tekin með slíkum staðreyndum sem við okkur blasa.

Fram kom hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni að þessar lagfæringar vægju ekki gegn margra milljóna viðbótarútgjöldum. Þetta er alveg rétt. Það kom fram í viðtali við einn af nefndarmönnum Verðlagsráðs í útvarpi í dag, að þetta þýddi 8% gengisbreytingu. Ég skal ekkert um það segja, hvort það er rétt, en hann metur það svo. Og sú gengisbreyting, sem varð í dag, eða hratt gengissig eða hvað menn vilja kalla það, er vitanlega liður í því að rétta aðstöðu fiskvinnslunnar. Ég held að öllum hljóti að vera það ljóst. Og það eru fyrirheit um að þetta verði athugað af Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun í framtíðinni, eins og verið hefur undanfarin ár. Það hefur alltaf verið gert og reynt að meta það, hvernig gengið þarf að skrá til þess að rekstrarstaða sé þar fyrir hendi. Vitanlega er það alveg ljóst, að 3% gengisbreyting, eins og var í dag, þýðir 1% hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar. Og 3% gengisfelling til viðbótar, sem hefði verið nauðsynleg, leyfi ég mér að fullyrða, ef fiskverð yrði hækkað um 6.67%, hefði þýtt 1% í vísitölu til viðbótar. Það er þetta sem menn eru að stríða við. Ég veit ekki betur en allar ríkisstj. hafi verið að stríða við það. Setustjórnin, sem var hér á milli, tók af bændum til að reyna að draga úr því sem færi þar í vísitöluhækkun.

Menn hafa sagt það hér, að menn séu að gera mikið úr eða ég sé að gera mikið úr og sjái ofsjónum yfir tekjum sjómanna. því fer víðs fjarri. Ég vísa því á bug. Ég vil láta það koma skýrt fram, að ég tel sjómenn alls ekki bera of mikið úr býtum, því fer víðs fjarri. Þeir vinna mikið, eins og hér hefur verið sagt, mjög þýðingarmikið starf fyrir okkar þjóðarbú. Þeir eru ekkert oflaunaðir. Hitt er þó staðreynd, sem er ómótmælt og hefur komið fram í allri viðleitni til að ná samstöðu um fiskverð, að ráðstöfunartekjur sjómanna frá 1974 hafa hækkað um 22 – 25°/ meira en iðnaðarmanna og verkamanna.

Vitanlega er það rétt, sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni m.a., að þessi hækkun ráðstöfunartekna stafar ekki síst af mjög mikilli vinnu sjómanna. En það er einnig viðurkennt, að orðið hefur mjög veruleg framleiðniaukning í útgerðinni. Það hefur aukið aflann verulega. Sjómenn hafa einnig notið þess, það er staðreynd og því hefur ekki heldur verið mótmælt. Ég hygg því að þegar launahækkun sjómanna er ákveðin sé ekki óréttmætt að líta einnig á þá hlið málsins. Og það er í raun og veru það sem gert var í janúar, þegar samkomulag náðist, og gert er nú.

Menn hafa lýst undrun sinni á því, að fulltrúi sjómanna í Verðlagsráði situr hjá. Fulltrúi sjómanna situr hjá vegna þess að hann metur mikils þá lækkun, sem verður á olíugjaldi, og undirstrikar, eins og ég sagði áðan, að olíugjaldið hefur verið ófriðarefni á milli sjómanna og útgerðarmanna. Ég er ekki frá því, að það sé útgerðarmönnum fyrir bestu — þrátt fyrir þessi lög sem áttu að gilda til eins árs — að horfið sé sem fyrst frá þessu olíugjaldi og eitthvað annað fundið í staðinn. Ég hef lýst því hér áður, hvað ég teldi eðlitegra í staðinn.

Hér hefur verið sagt að þetta mál ætti að knýja fram með einhverju offorsi. Því vil ég vísa frá. Mér láðist að gera till. um nefnd. Ég geri till. um hv. sjútvn. Vitanlega mun sjútvn. skoða málið eins og hún telur nauðsynlegt. Ef hún treystir sér til að komast að öðru samkomulagi um fiskverð, þá skal henni hælt fyrir það og ekki standa á mér. En ég vil bara vekja athygli á því, að búið er að vinna að þessu máli gífurlega mikið. Þetta mál er ákaflega viðkvæmt og öll töf á svona máli getur orðið til þess, að það sem náðst hefur rennur út í sandinn, eins og mér heyrðist hálfpartinn koma fram hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni áðan. Hann sagði að sjómenn kynnu að sigla í land o.s.frv. og mótmæla þessu. Ég veit að hann vonar eflaust að svo verði ekki. Ég ætla honum ekki annað. En ég vil þó segja að veruleg töf mun auka á þann óróa, sem þegar er orðinn mikill, vegna þess dráttar sem orðinn er á ákvörðun fiskverðs. Ég veit að svo reyndur maður sem hv. 1. þm. Vestf., sem hefur staðið í því að ná samkomulagi um fiskverð, gerir sér grein fyrir því, hve mikilvægt er að frá málunum sé gengið þegar þó þessi áfangi hefur náðst, sem ég tek enn fram að er enginn sigur, heldur nánast nauðvörn í þeirri erfiðu stöðu sem við erum í.