09.04.1980
Efri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

142. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu, kemur — eða 1. gr. þess — að nokkuð miklu leyti inn á breytingar heilsugæslunnar og heilbrigðisþjónustunnar í Norðurl. e. Og það er eins og hefur komið fram hjá hv. 3. og 4. þm. kjördæmisins, sem hér hafa talað á undan, að nokkur umr. hefur þegar verið um þessi mál heima fyrir og þarf að ræða þau mál allmiklu betur. Frv., sem hér er lagt fyrir, kemur nokkuð snöggt til umr. og við höfum lítinn tíma haft til þess að athuga það og ákvæði þess, og þess vegna þarf að athuga þetta mál mjög ítarlega. Vafalaust eru hér vissir þættir til bóta. Þarna er talað um að auka þjónustu á Þórshöfn. Það er einmitt það sem hefur líka verið mikið til umr. í kjördæminu. En þá er einnig dregið úr þjónustunni á Raufarhöfn, sem hlýtur að þýða að þarna stangast á hagsmunir.

Hæstv. heilbrmrh. bendir á það, að þm. verði að leita leiða og reyna að finna lausnir á þessum málum. Vissulega er það rétt, að við verðum að stuðla að því að þarna náist fram það besta sem hægt er. En við viljum líka minna á það, að heilbrigðisráðið hlýtur að þurfa að fjalla ítarlega um þetta og vera til stuðnings, halds og trausts og ætti að hafa veruleg áhrif á það, hvernig þessum málum er endanlega skipað. Nú er ég því miður ekki nógu vel kunnugur lögum um heilbrigðisráð, en ég held að það hljóti að vera eitt af þeirra meginverkefnum að fjalla einmitt um það, hvernig skipuleggja eigi og byggja upp heilbrigðis- og heilsugæsluþjónustuna.

Varðandi 5. gr. þessa frv., þar sem talað er um viðhaldskostnað fasteigna og tækja, þá vil ég taka undir þær umr. sem hér hafa orðið hjá hæstv. ráðh. og hv. 3. þm. Norðurl. e., að daggjaldakerfið, eins og það hefur verið upp byggt, hefur því miður alls ekki verið til aðhalds í rekstri sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, eins og það þyrfti að vera, og þess vegna þarf einnig að athuga þetta ákvæði, þ. e. 5. gr. þessa frv., mjög ítarlega eins og aðrar greinar þess.