09.04.1980
Neðri deild: 57. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

135. mál, orkujöfnunargjald

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Hér hafa verið haldnar brennandi ræður og síðast af hv. 3. þm. Vestf., sem hefur verið boðberi skattalækkana og allra þeirra aðgerða sem bættu kjör verkafólks og sér í lagi lækkunar allra þeirra skatta sem ýmist er verið að hækka eða hafa verið hækkaðir að undanförnu. Það vill nú svo skoplega til, að þegar þetta frv. var til umr. í hv. fjh.- og viðskn. Nd. var spurning hvort ekki ætti að taka til meðferðar samhliða frv. staðfestingu á brbl. Alþfl., sem voru framlenging á lögum vinstri stjórnarinnar og kemur í hlut núv. ríkisstj. að samþykkja, — brbl. flutt af hæstv. fyrrv. fjmrh., um að hækka söluskatt úr 20 í 22%. Nú langar mig til að spyrja, þegar þessi hv. þm. talar af heilagri vandlætingu um skatta vinstri stjórnarinnar og brigslar hæstv. ráðh. um að þeir hafi svikist um að afnema þá, og það mátti heyra á máli hv. þm. hversu hann var andvígur þeim: Skattar vinstri stjórnarinnar, góðir og slæmir, runnu hér í gegn með atkvæði 3. þm. Vestf., en hver neyddi hann? Hvenær kom þessi heilagi andi yfir hann á móti skattahækkunum? Hér þarf samtímis þessu frv. að staðfesta brbl. sem hann gaf út um hækkun á söluskatti og hefði kannske verið við hæfi að taka það mál til afgreiðslu um leið.

Hitt er svo annað mál, að margt af því, sem hv. þm. sagði, var að ýmsu leyti satt og rétt þó að hann yfirkeyrði á ýmsum sviðum. (Gripið fram í: Ertu kominn í „gáfumannafélagið“?) Nei.

Það er spurt hvað hafi valdið því, að hér séu skattahækkanir sem þm. eins og t. d. sá sem nú talar samþykki. Hluti af því er vegna þess að þegar fram fóru stjórnarmyndunarviðræður gerði verulegur hluti af Alþfl. með hv. 3. þm. Vestf. í fararbroddi, þá kröfu að vísitölubætur hjá láglaunafólki, sem hann ber nú ótakmarkaða umhyggju fyrir jafnt sem öðrum, yrðu skertar. Að vísu — til að hafa rétt eftir — lagði hann til að þar yrði eitthvað mýkra tekið á málum, en vísitala þessa fólks yrði skert. Sumpart tókst ekki stjórnarsamvinna milli þessara flokka einmitt vegna afstöðu Alþfl. og hv. 3. þm. Vestf., sem gat ekki hugsað sér að stjórna þessu landi, — ég vil biðja hv. uppbótarþm. Karvel Pálmason að átta sig á því, að það sitja fleiri þarna megin í salnum en hann, — en hann gat ekki hugsað sér að stjórna þessu landi án þess að einhver kjaraskerðing færi þarna fram. Og e. t. v. er hluti ógæfunnar fólginn í því, að þessi hv. þm. var aldrei á neinu stigi reiðubúinn til að taka upp afdráttarlausa launamanna- og neytendapólitík þar sem tryggt yrði að almennt verkafólk yrði ekki fyrir áföllum. Á því stóð.

Hitt er rétt og hverju orði sannara, og núv. ríkisstj. mætti skrifa það vel hjá sér, að skattahækkanir eru ekki leið í baráttu gegn verðbólgunni. Skattahækkanir eru ekki leið til bættra lífskjara. Og vissulega verður núv. ríkisstj. að athuga vel sinn gang. Hún hefur ekki þingmeirihluta fyrir áframhaldandi skattahækkunum. Ógæfan er kannske fólgin í því, og verður að taka tillit til þess, að þessi fjárlög voru samþykkt undir sérstökum kringumstæðum og á stuttum tíma.

Það er satt hjá hv. þm., að miklu hefði verið gæfulegra að sjá verulega meira tekið til hendinni á fjárlögum upp á fjórða hundrað milljarða en gert er í fjárlögunum sem nú er nýbúið að afgreiða. Og víst er það satt og rétt, að slíkar skattahækkanir leiða ekki til góðra hluta og framkalla verri hluti. Hins vegar held ég að það liggi fyrir, að í þeirri baráttu er kannske mjög erfitt að snúa sér við vegna þess að það er ekki hægt að treysta Alþfl.

Hv. þm. býður mér á vinnustaði. Við skulum athuga þá göngu. En ég áskil mér þá rétt til að láta uppi þær kröfur sem Alþfl. var með í stjórnarmyndunarviðræðunum. Þær báru ekki vott djúpri umhyggju eða ást fyrir því launafólki sem Sjálfstfl. og Alþfl., sem að vísu Alþfl. getur sagt með mun meiri rétti, segjast bera umhyggju fyrir. Eftir kosningar var boðað að það væri gjörsamlega óhjákvæmilegt að draga úr lífskjörum og kaupmætti. En ég skal viðurkenna að þarna stóð Alþfl. ekki óskiptur. Og ég skal líka viðurkenna að það var tekið fram, m. a. af þm. Sighvati Björgvinssyni, að taka yrði sérstakt tillit til láglaunafólks.

Ég ætlaði ekki að fara að halda hér eldmessu í klukkutíma. Ég vildi aðeins taka fram, að ég hefði talið mun hyggilegra að þessi ríkisstj. hefði haldið þannig á fjármálum að þessi skattlagning væri óþörf og það væri hægt að komast hjá henni. Það er rétt, sem hv. 3. þm. Vestf. segir að hún á eftir að skapa erfiðleika. En vegna þess að ég treysti hvorki hv. þm. né flokki hans til að taka við stjórn öðruvísi en gera mun verri hluti, mun ég að þessu sinni fylgja þessari tillögu, en jafnframt láta hæstv. ríkisstj. vita að það eru til aðrir hlutir til lausnar á vanda en nýjir skattar. — Það er út af fyrir sig gott að lesið sé yfir þeim af og til.