09.04.1980
Efri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

135. mál, orkujöfnunargjald

En mig langar til að spyrja hv. þm.:

Hvenær gerðist það að fjmrh. starfsstjórnar Alþfl. kynnti fjárlagafrv. sitt fyrir aðilum vinnumarkaðarins. Hvenær gerðist það? Hvaða dag? Og hvaða svör fékk hann? (EG: Það verður ráðh. að spyrja hann um.) Ég tel að hv. þm. beri ekkert síður ábyrgð á því en þm. Sighvatur Björgvinsson ef þarna var um lögbrot að ræða, sem ég býst við að hljóti að vera eftir þessum skilningi þm.

Og ég vil spyrja í öðru lagi: Hvenær var samráðsfundur, sem hann telur að lögum samkv. hljóti að hafa átt sér stað, milli hæstv. fyrrv. iðnrh., Braga Sigurjónssonar, og aðila vinnumarkaðarins áður en hann lagði fram sitt orkuskattsmál? Það skyldi þó ekki vera að sá fundur hafi líka farist fyrir og að þar hafi verið um stórkostlegt lögbrot að ræða að áliti þm.

Auðvitað er þetta ekkert annað en hjal út í bláinn. Við vitum að það stendur oft þannig á með undirbúning mála fyrir þingið að ekki er ráðrúm til að leggja mál fyrir fjöldamarga aðila utan þingsins. Það þarf að hraða þingstörfum til að þjóðlífið geti gengið með eðlilegum hætti. Þannig stóð á bæði varðandi framlagningu fjárlaga og varðandi framlagningu þessa máls. Jafnvel þótt vilji hefði verið fyrir hendi var tæknilega útilokað að fara að standa fyrir samráðsfundum um efni þessa máls áður en það var lagt fram. Og ég dreg satt að segja í efa að það sé nokkurt ákvæði í lögum sem beri að skilja á þann veg að ríkisstj. megi ekki bera fram frv. í þinginu án þess að halda fundi um efni þeirra fyrir fram utan þingsins. Ég held að fyrst og fremst verði að skilja þessi ákvæði á þann veg, að eftir að frv. hafa verið lögð fram sé óhjákvæmilegt að efni þeirra sé rætt við viðkomandi samtök og þeim gefinn kostur á að segja álit sitt á þeim. Það var gert í þessu tilviki, sem við erum að ræða um, varðandi orkujöfnunargjaldið. Það komu fulltrúar frá þessum samtökum á fundi fjh.- og viðskn. og fengu tækifæri til að segja álit sitt á þessari skattlagningu. Það hafa þeir gert, eins og hér hefur verið rakið.

Ég tel sem sagt að síbyljusöngur þeirra Alþfl.-manna um að lögbrot hafi verið framin í sambandi við undirbúning þessa máls eða annarra mála hér í þinginu hljóti fyrst og fremst að hitta þá sjálfa. Þessi lög voru í fullu gildi þegar þeir voru í ríkisstj., og mér er ekki kunnugt, og sjálfsagt ekki neinum öðrum, að slíkir samráðsfundir hafi verið haldnir þegar þeir lögðu fram nákvæmlega hliðstæð mál. Það tekur að sjálfsögðu enginn mark á áróðri af þessu tagi.

Ég vil svo fá að leiðrétta það sem kom fram hjá hv. þm. áðan, að við Alþb.-menn hefðum orðið undir í atkvgr. í ríkisstj. um þessi mál. Ég sagði einungis áðan að við Alþb.-menn hefðum verið mjög opnir fyrir því að fara þá leið sem Alþfl. hafði bent á. En það er ekki svo í þessu stjórnarsamstarfi að mál séu afgreidd með atkvgr. í ríkisstj. Það er nokkuð gott samkomulag í þessari stjórn og þar eru mál afgreidd með samkomulagsleiðum, en ekki atkvgr. Það er því fjarstæða að slíkt hafi átt sér stað. Við Alþb.-menn unum eftir atvikum því að þessi leið er farin. Eins og ég rakti áðan er það síður en svo að orkuskattsleiðin sé óumdeild. Á henni eru bersýnilega stórir og miklir gallar og auðvelt að benda á að hún hafi ekki verið mjög heppileg frá ýmsum sjónarmiðum.

Svo vil ég rétt að lokum segja það, að ég tel af og frá að hv. fjh.- og viðskn. d. fari að senda þetta mál til umsagnar. Við erum að tala um að afgreiða málið í kvöld eða í allra seinasta lagi strax og þing kemur saman kl tvö á morgun. Eins og ég upplýsti, þegar þetta mál var rætt milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu, gæti það kannske sloppið að málið væri ekki afgreitt fyrr en kl. hálfþrjú til þrjú á morgun, en það er líka í allra seinasta lagi. Annars verður væntanlega að fresta gildistöku frv. um eina viku í viðbót. Það var um það rætt og frá því gengið, að a. m. k. mundi 2. umr. um málið ljúka í dag, þannig að ekkert væri eftir annað en greiða atkv. og láta síðan 3. umr. fara fram, að sjálfsögðu þá á þeim forsendum að hún stæði ekki lengi yfir frekar en venja er. En ég vil sem sagt undirstrika það h ér, að ef ætti að senda málið til umsagnar yrði það auðvitað ekkert annað en tilraun til að skjóta málinu á frest í heila viku eða svo.