10.04.1980
Neðri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

94. mál, sjómannalög

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, var lagt fram af fyrrv. hæstv. samgrh., hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni, og ég verð að viðurkenna að ég taldi að mál þetta hefði farið til n. En það var misskilningur og mæli ég því nú fyrir þessu frv. og legg til að því verði vísað til n., sem hafi það til meðferðar, og legg áherslu á að málið verði afgreitt á þessu þingi.

Þetta frv. er liður í svokölluðum félagsmálapakka, sem samið var um í lok ársins 1978 gegn 3% lækkun á verðbótavísitölu. Ég ætla ekki að rekja hin ýmsu atriði sem þá var samið um. Ég get út af fyrir sig tekið undir það, að seinna hefur gengið en æskilegt er að koma ýmsu þar til framkvæmda. En staðreyndin er þó sú, að margt hefur náð fram að ganga og kannske fleira en menn gjarnan muna eftir á. Og einnig er það staðreynd, að sum þau mál, sem þar var um að ræða, voru og eru þess eðlis að nauðsynlegt var að ná samstöðu með aðilum vinnumarkaðarins. Í raun og veru var í mörgum til fellum um að ræða atriði sem eðlilegt er að tekin væru upp í frjálsum samningum þessara aðila.

Ég vek athygli á því gagnvart sjómönnum, að í ágúst voru settar reglur sem vörðuðu öryggismál sjómanna, svo sem frágang grandaraspila, línu, netaspila o. fl. Þá hafa einnig verið settar reglur um aðbúnað áhafna á fiskiskipum og lagfæringar undirbúnar á veðurþjónustu við sjómenn, sem er komið til framkvæmda. Þá liggur fyrir og er komið til n. í Ed. frv. um lögskráningu sjómanna. Um það mál mætti ýmislegt segja. Staðreyndin er sú, að þar er að öllum líkindum fremur um bætta framkvæmd að ræða heldur en breyt. á lögum. Framkvæmd er í höndum sýslumanna, sem fara þar að tilmælum samgrn., en þar á hefur orðið brestur og er ljóst að eftir samþykkt þess frv., sem liggur fyrir, er nauðsynlegt að tryggja að framkvæmd verði betri en verið hefur. Þá setti fyrrv. samgrh. reglugerð um aðbúnað sjómanna um borð í fiskiskipum. Til sjómannastofa mun hafa verið ákveðin sérstök fjárveiting á síðasta ári. En eftir því sem ég kemst næst mun vera brotalöm á framkvæmd þar. Nokkur fjárveiting er á þeim fjárlögum, sem nýlega hafa verið samþ., þó hvergi nærri nægjanleg til þess að gera þar það átak sem þörf er á. Sýnist mér að það mál þurfi að taka til nánari athugunar og meðferðar.

Um þetta frv. vil ég hins vegar segja það almennum orðum, að með frv. er að því stefnt að bæta rétt sjómanna í veikinda- og slysatilfellum frá því, sem nú er í gildandi ákvæðum 18. gr. sjómannalaganna, og færa þennan rétt til samræmis við það sem landverkafólki er áskilið með lögum nr. 19 frá 1978.

Í raun og veru er samanburður að ýmsu leyti vandkvæðum bundinn, því að réttur hinna ýmsu hópa er breytilegur. T. d. má segja að lög þessi valdi ekki neinum breytingum gagnvart yfirmönnum á farskipum. Hins vegar yrði breytingin nokkru meiri gagnvart hásetum á farskipum samkv. frv., ef að lögum verður. Þeir eiga nú rétt til launa í 5 mánuði eftir 10 ára starf, en þeir fengju auk þess með frv. einn mánuð greiddan samkv. staðgengisreglunni svonefndu. En langmest er breytingin gagnvart undirmönnum á fiskiskipum. Lágmarksréttur þeirra er í dag 14 daga laun, þar af 2 dagar samkv. staðgengisreglu og 12 á kauptryggingu. Í ákvæði frv. um staðgengislaun er hins vegar ekki breyting á gildandi lögum að því er varðar sjómenn á fiskiskipum. Gagnvart þeim hafa ákvæði gildandi sjómannalaga verið skilin og skýrð af dómstólum sem fyrirmæli um staðgengislaunagreiðslur. Um er að ræða breytingu varðandi afskráningu af skipum, sem oft hefur verið framkvæmt þannig að gerir nánast marklausa ráðningartíma sjómanna eða getur gert það.

Ég vil taka það fram, að um þetta frv. hefur að sjálfsögðu verið haft samráð við bæði útvegsmenn og sjómenn, Farmanna- og fiskimannasambandið m. a. Er frv. samið af fyrrv. hæstv. samgrh. eftir slíka fundi og slík samráð. Reynt er að sigla nokkuð á milli skers og báru, en sum ákvæði frv. geta orkað tvímælis.

Ég hef ekki tekið þátt í undirbúningi þessa máls. Ég hef, eftir að ég tók við embætti samgrh., hins vegar leitað mér upplýsinga frá viðkomandi hagsmunaaðilum. Ég fékk þau svör frá Landssambandi ísl. útvegsmanna að það teldi frv. viðunandi. Einnig fékk ég svipuð svör frá fulltrúa Farmanna- og fiskimannasambandsins. Hins vegar gengu á minn fund fulltrúar sjómanna og ASÍ og höfðu ýmsar og mjög ákveðnar og viðamiklar brtt. að gera við frv. Þó ég taki ekki efnislega afstöðu til þeirra brtt., en telji eðlilegt að málið verði rannsakað í n., sem fær það til meðferðar, og þar verði tekin afstaða, til þeirra, þykir mér þó rétt að greina í örfáum orðum frá þeim meginathugasemdum sem fulltrúar sjómanna og Alþýðusambands Íslands höfðu fram að færa.

Í fyrsta lagi gera þeir aths. við 2. mgr. frv., seinni hluta hennar, setninguna þar, sem er þannig: „Laun er þó ekki skylt að greiða í hléum milli veiðitímabila, sem eru hefðbundin og þekkt fyrir fram“, sú setning falli brott. Hér er um ágreiningsatriði að ræða við útvegsmenn.

Einnig fara þeir fram á að síðasti hluti 3. mgr., sem byrjar á orðunum: „Sé skipverji í launalausu fríi, er hann veikist eða slasast“ og aftur til greinaskila, falli út. Þarna er einnig um ágreiningsatriði að ræða. Það orkar tvímælis að maður, sem er í launalausu fríi, e. t. v. langan tíma, fari aftur á launaskrá þótt hann verði fyrir slysi utan síns vinnutíma og í sínu fríi. Er skiljanlegt að útvegsmenn hafi við þetta athugasemdir að gera. Ég er hins vegar, eins og ég sagði áðan, ekki að meta þetta atriði, þó að mér þyki einnig rétt að gera grein fyrir því, að atvinnurekendur hafa sterkar aths. við það að gera að þessi setning falli brott og framkvæmdin verði þá á þann veg sem ég lýsti.

Þá gera fulltrúar sjómanna aths. við 6. mgr., sem hefst á orðunum: „Nú verður skipverji vinnufær aftur “, og óska eftir að sú mgr. falli brott.

Og loks gera þeir aths. við síðustu mgr., sem þeir óska eftir að verði umorðuð.

Ég nefni þetta til þess að vekja athygli á því, að þarna er enn um verulegan ágreining að ræða á milli sjómanna og Alþýðusambands Íslands annars vegar og útvegsmanna hins vegar og málið því í raun og veru alls ekki í höfn komið.

Ég veit að af hendi fyrrv. hæstv. samgrh. var unnið mikið í málinu og reyndar af þeim sem á undan honum var. Í þeirri vinnu komu þessir erfiðleikar fram og þeir urðu til þess að tefja fyrir framgangi málsins.

Þar sem málið er komið fram, þótt um það sé deilt eins og ég hef nú rakið, taldi ég hyggilegra að það héldi áfram til n. og þannig yrði þess freistað að málið fáist afgreitt á þessu þingi. Ég tel það mjög mikilvægt. Ég leit svo á, að ef hafin yrði vinna við gerð nýs frv. á vegum rn. yrði það til að tefja málið frekar.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Margt fleira mætti segja um þau atriði sem ég hef nefnt. En ég læt það vera og lýk þessari framsögu minni með því að leggja til að málinu verði vísað til samgn. og 2. umr. að lokinni þessari umr.