10.04.1980
Neðri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

94. mál, sjómannalög

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Að sjálfsögðu fagna ég því að þetta frv. er loksins lagt fram hér í þinginu formlega, þótt ég hins vegar harmi að það sé lagt fram svo seint að það sé nær útilokað, miðað við forsendur, að ná því fram áður en þingi lýkur á þessu vori. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli vegna þeirra aðfinnslna, sem fram hafa komið, að viðkomandi nefnd, sem fær málið til umfjöllunar, verður að kalla á fulltrúa hagsmunaaðila til að reyna að ná samkomulagi um atriði sem ekkert samkomulag er um og gífurlegt stríð á milli þeirra um. Þetta stríð er í sjálfu sér ekki eingöngu að kenna embættismönnum eða fyrrv. ráðh. Ég skal fúslega viðurkenna að það er líka vegna þess vandamáls sem við er að glíma innan launþegahreyfingarinnar, ekki klofnings, heldur hins margskipta fyrirkomulags, sem þar ríkir, og þeirrar staðreyndar, að það er fjöldi aðila sem fer með samninga fyrir hina ýmsu hópa.

Varðandi þetta frv. og þau lög, sem hér er verið að leggja til að breyta, er fjöldi félagasamtaka sem þarf að ræða við, þótt það væri máski hægt að láta nægja að ræða við fjóra aðila frá launþegahlið vinnumarkaðarins. Þá á ég við Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, sem gerir samninga fyrir yfirmenn bæði á far- og fiskiskipum, Alþýðusambandið, Sjómannasambandið og svo Sjómannafélag Reykjavíkur sem fer nálægt einfarið með samninga fyrir undirmenn á farskipum. Ég tek einmitt eftir því, að í þessu frv. virðist nokkuð vera gengið á mis við þá staðreynd að þeir eru líka sjómenn og að þessi lög ná yfir þá einnig.

Ég verð að lýsa nokkurri furðu minni á orðum hv. síðasta ræðumanns, sem nýstiginn er úr stóli félmrn., er hann lætur hafa eftir sér að réttur undirmanna á far- og fiskiskipum sé skammarlega lítill, svo jaðri við þjóðarskömm. Ég get tekið undir þetta með hæstv. fyrrv. ráðh. En ég bendi honum á það, að hann og ríkisstj., sem hann sat í á þeim tíma er þeir settu brbl. t. d. um undirmenn á farskipum, orðuðu þau þannig að meginþungi þeirra, sem varðaði undirmenn, var einmitt á þann veg, að það hefði verið nokkuð hægt að rétta þetta skammarlega hlutskipti þeirra. En hæstv. ráðh. létu hjá líða að láta það atriði ná fram, létu þau lönd og leið, en létu sér nægja að halda góðri samstöðu við Vinnuveitendasamband Íslands.

Það var ánægjulegt, satt að segja, að heyra í ræðumanni áðan, hv. 5. þm. Vestf. Við sjómenn höfum öðlast þar góðan baráttumann, hann var með góða ábendingu sem er rétt að fara eftir, vegna þess að mér sýnist í frv. vera tekið upp mjög gamalt orðalag um samfellda ráðningu. Þetta orðalag var tekið upp á sínum tíma, man ég eftir, þegar ég sat í slíkum samningum sjálfur fyrir Sjómannafélag Reykjavíkur. Það var tekið upp m. a. til þess að halda góðum mönnum hjá viðkomandi útgerðum. Viðkomandi útgerðir lögðu meira af mörkum til þeirra manna, sem héldust í starfi hjá þeim um nokkurra ára skeið, og vildu borga nokkuð fyrir það. Síðan breyttist þetta með árunum, þannig að þetta gilti innan greinarinnar allrar, en ekki hjá aðeins einu félagi, hvort sem það var hlutafélag, samvinnufélag eða eitthvað annað rekstrarform á því. Ég tel rétt að taka þessa ábendingu hv. þm. til greina.

Hæstv. ráðh. benti á þau atriði sem hafa hvað mest stungið þá aðila sem þetta mál varðar. T. d. sýnist mér einsýnt að 6. mgr. verður að fara út, því að hún kallar á svo mörg vandamál, þegar menn fara að skoða hana, að það nær ekki neinu tali. Af einu skipi geta komið í land menn sem sigla með samninga við 10–11 stéttarfélög og eiga svo að fara og vinna í landi eftir samningum enn annarra, jafnvel margra stéttarfélaga. Þegar á svo að fara að samræma það, eftir hvaða kjörum og töxtum þessir menn eigi að vinna, þá sýnist mér að ávinningurinn af þessu öllu sé afskaplega vandfundinn og væri best að sleppa þessu atriði, enda held ég að ef menn eru komnir það vel til heilsu að þeir geti farið að starfa í landi, þá sé í flestum tilfellum hægt að koma þeim til sjós mjög fljótlega aftur. Ég þekki a. m. k. mjög fáar kaupskipaútgerðir í dag, nema þær örfáu sem eru með sín skip í langsiglingum og koma ekki heim mánuðum saman, sem ekki eru með skip hér heima á fárra daga fresti tiltölulega, þannig að þetta á ekki að vera stórt atriði.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég er fylgjandi því að reyna að koma málinu áfram, þótt ég beri ugg í brjósti um að það takist að ljúka afgreiðslu þess. Má vera að það takist ef verður haft samráð við þá sem hlut eiga að máli. Ég hef hins vegar ekki trú á að það takist helst með því að senda málið til samgn. þessarar hv. d. Ef ég man rétt, forseti leiðréttir mig annars, þá minnir mig að samsvarandi mál hafi verið í höndum sjútvn. viðkomandi d. Þetta getur verið misminni og ég skal ekki gera neinn ágreining vegna þess. Hins vegar getur það flýtt eitthvað fyrir vinnu í sambandi við frv., að í sjútvn. eiga aðilar m. a. sæti frá hagsmunasamtökum útgerðarmanna, sjómanna og bænda.