21.04.1980
Efri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

147. mál, innflutningur á skipi

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég verð að segja það, að lestur hv. þm. Kjartans Jóhannssonar kom úr hörðustu átt, því að ef einhver hóf þennan skollaleik, þá veit ég ekki annað en að það hafi verið þessi hv. þm. Það vantaði nefnilega togara í kjördæmi hv. þm. Búið var að selja togarann Júlíus Geirmundsson úr landi, tæplega 500 lesta skip. En hann var sendur á Suðurnesin. Úr landi átti að fara í staðinn smákoppur — svo ég noti orðbragð hv. þm. — skip, sem er ekki þriðjungur af stærð þess togskips, sem átti að fara úr landi. Ég held því að ekki sé mikið bætt á þá synd, ef synd var, sáralítið ef nokkuð er.

Ég vil leiðrétta það, að það sé nokkurt nýmæli að flytja slík frv. sem þetta. Þau hafa verið flutt mörg síðan 1970. Ég kannaði það sérstaklega þó að ég hafi ekki töluna.

Það er rétt, að ég nam úr gildi reglugerð sem lögfróðustu menn segja mér að standist ekki samkv. lögum, um afskipti sjútvrh. af ákvörðunum Fiskveiðasjóðs. Ég setti hins vegar nýja reglugerð sem segir að Fiskveiðasjóði skuli óheimilt að lána nema 50% til skipa keyptra erlendis og skip af svipaðri stærð skuli fara úr landi. Ég leyfi mér að halda því fram, að með því að skip af svipaðri stærð fari úr landi sé stórum dregið úr þeirri hættu að slík kaup erlendis leiði til stækkunar flotans. Vitanlega má vera að sóknarþungi geti aukist eitthvað. En sá kostur fylgir þó því að loka ekki algjörlega fyrir innflutning erlendis frá, að þannig má gera ráð fyrir að nokkrar tækninýjungar berist inn í landið.

Hins vegar liggja fyrir nú í Fiskveiðasjóði umsóknir um smíði fimm togara innanlands, sem allar munu fullnægja settum reglum um smíði hér og renna nokkuð sjálfkrafa í gegn, eins og starfað er. Ég hygg að þetta sé nánast allt viðbót við flotann. A. m. k. er enginn vafi á því, að þótt lagt verði nokkrum bátum, kannske að sömu tonnatölu, sem úreldast, þá er sóknarkrafturinn margfaldur miðað við það sem þarna er um að ræða.

Ég tek undir það með hv. þm., að gæta þarf einnig að því að innlendar skipasmíðastöðvar hafi verkefni. Ég hygg að það hefði við þessar aðstæður fiskveiða e. t. v. verið skynsamlegra að útvega þeim verkefni við smíði strandferðaskipa t. d., sem þarf að smíða. Þessi sjónarmið stangast sem sagt illilega á, og ég gat ekki séð að reikningsdæmi hv. þm. um litla staðinn sannaði bókstaflega neitt í þessu máli. Það verður alltaf spurningin, hvers konar skipum er lagt, hvaða skip úreldast. Í Hafnarfirði, einnig kjördæmi hv. þm., er aldurslagatrygging að kaupa einn gamlan síðutogara. Jú, það fækkar tonnunum. En ég veit ekki betur en hann sé þegar orðinn ósjófær, lenti í skemmdum og hefur ekki verið við hann gert. Vitanlega detta skip út af skrá, en þetta mál er ekki eins einfalt og hv. þm. setur það upp. Og ég endurtek að það, sem hér er um að ræða, má segja að sé lokaatriðið væntanlega í þeim leik sem hann hóf með því að hverfa frá að togarinn Júlíus Geirmundsson yrði seldur úr landi.

Ég legg áherslu á það, að að mínu mati eru þær breytingar, sem gerðar hafa verið á reglum Fiskveiðasjóðs, fremur til að tryggja að skip fari úr landi, þegar nýtt er keypt inn, skip af svipaðri stærð, en ekki rúmlega 100 lesta bátur í staðinn fyrir 500 lesta togara eins og hér var um að ræða. Þetta tel ég allt til að tryggja það, að flotinn stækki ekki umfram það sem eðlilegt er. Hins vegar vil ég taka það fram, að þörf er á endurskoðun á öllum þeim reglum eða ráðum sem stjórnvöld hafa til þess að hafa einhverjar hömlur á stækkun flotans. Þær eru ekki fyrir hendi eins og er, og á meðan stækkar flotinn. Ég get tekið undir það með hv. þm., að eins og nú er ástatt ber að varast það mjög og draga úr slíkri stækkun. Hún verður ekki með flutningi erlendis frá, hún verður fyrst og fremst með smíði hér innanlands. Hins vegar er það trú mín, að það horfi til þess, sem betur fer, að veiði aukist og mikil þörf sé á öflugum flota. Og ég vek einnig athygli á því, að bátaflotinn er að stórum hluta orðinn gamall og úreltur og þarf mikillar endurnýjunar við. Þar eru stór verkefni fyrir íslenskar skipasmíðastöðvar.