22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

125. mál, símamál í Kjalarnes- og Kjósarhreppum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. var send til póst- og símamálastjórnar og óskað eftir svari. Það svar er dagsett 26. mars, svo að út af fyrir sig hefur það legið fyrir nokkurn tíma. Ég bið afsökunar á því, að það hefur dregist að koma því hér á framfæri, sem stafar af ýmsum ástæðum og ekki öllum á mínu færi, langt frá því. En í þessu svari segir svo:

„Með tilvísun til bréfs samgrn., dags. 19. mars 1980, varðandi fsp. á þskj. 215, 125. mál, um símamál Kjalarnes- og Kjósarhrepps, skal eftirfarandi upplýst:

Eins og kunnugt er var 15. mars s. l. opnuð ný og mjög fullkomin sjálfvirk símstöð með miklum stækkunarmöguleikum í nýja stöðvarhúsinu að Varmá í Mosfellssveit. Þar með hefur m. a. skapast aðstaða sem getur gefið íbúum ofangreindra hreppa, sem enn þá búa við handvirka sveitasíma, kost á sjálfvirkri símaþjónustu. Í þessu skyni verða hagnýttar bæði notendalínur og stofnlínur fyrir PCM fjölsímakerfi í hinum gamla svokallaða Norðurjarðsíma, sem liggur fram hjá Varmá og um Kjalarnes og Kjós. Í fjárfestingum þessa árs varðandi nefnda hreppa er gert ráð fyrir tveimur PCM fjölsímakerfum og á næsta ári er áformað að bæta við fjölsímakerfum þar til allir símar í þessum hreppum hafa verið tengdir við sjálfvirku símstöðina að Varmá.

Samkvæmt framansögðu verða á þessu ári allir símar á Kjalarnesi tengdir við sjálfvirku símstöðina að Varmá í Mosfellssveit og samtímis verða einnig nokkrir bæir í Kjós, þar með talið Eyrarkot, tengdir við sjálfvirku stöðina að Varmá. Landssímastöðin að Eyrarkoti verður þá lögð niður, en handvirku sveitasímarnir, sem tengdir voru Eyrarkoti, verða um leið tengdir við langlínustöðina í Reykjavík, sem hefur 24 klst. þjónustu. Á næsta ári verða svo allir handvirkir sveitasímar í Kjósarhreppi tengdir við sjálfvirku símstöðina að Varmá, svo framarlega sem ekkert óvænt hindrar þau áform sem hér hefur verið greint frá.“