22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

132. mál, símamál

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í svari því, sem ég hef fengið frá Pósti og síma, segir svo í sambandi við fyrstu spurninguna:

„Á s. l. sumri var unnið við jarðsímalögn frá Akurtröðum í Eyrarsveit til Grundarfjarðar og milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur. Frá Akurtröðum til Stykkishólms á að vera radíósamband. Í áætlunum stofnunarinnar var gert ráð fyrir að vinnu við jarðsíma og magnara yrði lokið fyrir veturinn, en fjölsímar og radíósambönd kæmu um haustið þannig að sambandið kæmist á um áramót. Heimildir til pöntunar tækjabúnaðar lágu hins vegar ekki fyrir fyrr en það seint, að radíóbúnaðurinn er nýkominn til landsins.

Nú er unnið við uppsetningu radíósambandsins og reiknað með að taka megi sambandið í notkun um mánaðamótin apríl–maí.“

Ég vil aðeins segja til viðbótar um þetta, að vafasamt er að heimila pöntun á tækjum fyrr en fyrir liggur hvaða fjárfestingarfjármagn Póstur og sími fær. Það lá ekki fyrir fyrr en nú fyrir tveimur vikum. Að vísu skal ég upplýsa að ég syndgaði nokkuð upp á náðina. Ég leyfði mér þegar í febrúar að leyfa að panta það sem væri bókstaflega lífsspursmál ef nokkuð átti að gera í ár. Ég nefni þetta til að undirstrika hvað nauðsynlegt er að slíkt liggi fyrr fyrir en okkur hefur tekist nú í ár.

„2. Samhliða jarðsímalögninni fyrir langlínusambandið voru lagðir jarðsímastrengir fyrir notendur í Fróðárhreppi og Eyrarsveit. Notendur í Fróðárhreppi hafa nú þegar fengið sjálfvirkt samband um símstöðina í Ólafsvík. Símstöðin Í Grundarfirði er hins vegar fullnýtt, en verður stækkuð nú í sumar og í framhaldi af því mun koma sjálfvirkur sími á bæi í Eyrarsveit. Sjálfvirkur sími á bæi í Helgafellssveit er hins vegar ekki á áætlun á næstu tveimur árum, en þar þarf að leggja jarðstreng frá Stykkishólmi.

3. Á þessu ári er gert ráð fyrir jarðsímalögn í Leirár- og Melasveit í Borgarfjarðarsýslu og Hvammssveit í Dalasýslu. Gert er ráð fyrir að tengja síma á þessum svæðum sjálfvirkt vorið 1981. Unnið hefur verið að því að koma á lengri þjónustutíma fyrir símnotendur í sveitum. Á síðustu árum hafa millisímstöðvar verið lagðar niður og notendasímar tengdir stærri símstöðvum með lengri þjónustutíma. Í nokkrum tilvikum hafa notendasímar verið tengdir stöðvum með sólarhringsþjónustutíma. Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar um að tengja allar handvirkar símstöðvar á Vesturlandi við símstöðvar með sólarhringsþjónustutíma vegna kostnaðar.

4. Sjálfvirkar stöðvar eru að jafnaði reistar í þéttbýliskjörnum og staðsettar svo að línulengd frá stöðvunum til notenda fari ekki úr hófi fram og leiði ekki til of lítils hljóðstyrks. Þjónustusvæði stöðvanna er yfirleitt greinilega afmarkað og eðlilegt að fyrir símtöl milli notenda á þjónustusvæðinu gildi lægsti taxti. Þegar notendur sitt hvorrar símstöðvar talast við þarf til viðbótar stöðvunum símleiðir á milli þeirra, ýmis radíó eða með jarðstrengjum. Hér kemur viðbótarkostnaður sem er að nokkru leyti háður fjarlægð. Verður að teljast eðlilegt að fyrir slík samtöl greiðist hærra gjald.

Hér má svo bæta við, að enn þarf að bæta við búnaði — og nú í sjálfvirku stöðvunum — þegar notendur tveggja mismunandi símstöðva eru jafnframt á mismunandi símasvæðum. Slíkan búnað verður að hafa í a. m. k. einni símstöð á hverju svæði og nefnist hún þá hnútstöð. Þá má hugsa sér sem markmið að allir notendur sömu hnútstöðvar greiði minnsta gjald fyrir símtöl sín á milli, en hærra gjald sé tekið fyrir símtöl sem fara um tvær hnútstöðvar. Þessu markmiði hefur verið náð að hluta með því að lækkuð hafa verið gjöld milli nálægra staða, eins og t. d. Stykkishólms og Grundarfjarðar og Hvalfjarðar og Akraness, svo að dæmi fyrirspyrjanda séu tekin.

5. Gjaldskrárnefnd Póst- og símamálastofnunar er á þeirri skoðun, að gjöld fyrir langlínusamtöl eigi að lækka, en lítið svigrúm er til slíkra lækkana vegna þess, hve almennum gjaldskrárhækkunum stofnunarinnar er mikið haldið niðri. Þar að auki er mikill áhugi hjá mörgum notendum fyrir því, að hæstu langlínugjöld, þ. e. milli staða sem langt er á milli, verði lækkuð, og verður vissulega að taka einnig tillit til slíkra sjónarmiða, svo að hlutfallið á milli hæstu og lægstu gjaldflokka í langlínukerfinu verði ekki óeðlilega hátt.“

Til viðbótar þessu, sem frá Pósti og síma er komið, vil ég segja um þá áætlun eða till. sem lögð var fyrir Alþ. af fyrrv. samgrh., að till. um slíka áætlun mun ég endurflytja. Ég taldi hins vegar nauðsynlegt að taka hana til endurskoðunar og óska eftir því, að Póstur og sími gerði aths. við framkvæmdahugmyndir þær sem fram koma í þessari áætlun, en mér var tjáð að Póstur og sími hefði ekki haft tækifæri til þess áður.

Ég lít á það sem mjög mikið mál og legg áherslu á, að landsmenn allir búi við sem svipaðasta þjónustu á þessu mikilvæga sviði, og vil að að því verði stefnt á ákveðnum árafjölda. Mér er hins vegar ekki ljúft að leggja fram hugmyndir um að þessu verði lokið á einhverjum ákveðnum tíma, sem alls ekki verður staðið við. Við erum hér einmitt að fjalla um það, að lofað hafi verið, en ekki efnt, og ég sagði í sambandi við fsp. áðan, að því miður er það mjög oft svo, að menn hugsa stórt, en fá ekki framkvæmt, því að fjármagn er ekki fyrir hendi. Ég vil miklu frekar leggja fram áætlun um sjálfvirkan síma á fleiri árum og við það verði staðið heldur en fallegan loforðalista sem ekki er kleift að standa við. Ég hef tekið þessa áætlun til nýrrar endurskoðunar í þeirri von að unnt verði að leggja fram hugmyndir sem við getum þá staðið við.

Ég legg á það ríka áherslu, að vitanlega er allt slíkt háð því, hvað Alþingi samþykkir hverju sinni. Ég nefndi áðan að við sáum okkur ekki annað kleift en skera niður fjárfestingaráætlun Pósts og síma um einn milljarð. Það er hvorki meira né minna en fjórðungur af því sem ráðgert var og vissulega æskilegt. Staðirnir eru margir um land allt, sem svo sannarlega þurfa á bættri þjónustu Pósts og síma að halda. Þess vegna tekst ekki að standa við þessi loforð. Kostnaður verður meiri en fjárveitingavaldið gerir ráð fyrir í fjárlögum, og þá hefur orðið að hætta við verkið áður en því er lokið og venjulega þá valinn einhver áfangi, sem talinn hefur verið eðlilegur í því sambandi. Hitt vil ég svo segja, að mér finnst þá eðlilegt að við sama verk sé haldið áfram næsta ár, það hafi vissan forgang og því verði lokið. Verkefnin á sviði Pósts og síma eru gífurlega mörg og ákaflega margar sveitir sem afskekktar eru sem enn hafa hvergi nærri fullnægjandi þjónustu.

Það er von mín að svör Pósts og síma séu fullnægjandi við spurningum hv. fyrirspyrjanda. Ég get aðeins lofað honum því, að ég mun beita mér fyrir að áfram verði haldið þeim framkvæmdum sem byrjað var á þarna.