20.12.1979
Neðri deild: 10. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

4. mál, ferðagjaldeyrir

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Þetta er 4. mál. hv. Ed. og er þaðan komið, fjallar um að í fjárlagafrv. fyrir árið 1980 er gert ráð fyrir óbreyttri innheimtu gjalds á ferðalög til útlanda frá því sem verið hefur á árinu 1979. Gjald á ferðalög til útlanda á hins vegar samkv. gildandi ákvæðum í lögum nr. 121 frá 1978, um kjaramál, að falla úr gildi í árslok 1979. Ef tekjuáætlun fjárlagafrv. fyrir 1980 á að standast er því nauðsynlegt að leggja þetta frv. fram, þar sem gildandi ákvæði um gjald á ferðalög til útlanda er tímabundið.

Samkv. frv. verður gjaldið óbreytt frá því sem verið hefur og gildir til ársloka 1980. Á árinu 1979 er gjaldið talið skila 1450 millj. kr. í ríkissjóð, en í fjárlagafrv. fyrir árið 1980 er gert ráð fyrir að tekjur af gjaldinu verði um 1900 millj. kr. — Það var líka gert ráð fyrir í fjárlagafrv. því, sem lagt var fram á hv. Alþ. í okt. s.l., að þetta gjald yrði innheimt.

Ed. hefur engar aths. gert við frv. þetta og samþ. það óbreytt. Ég legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.