23.04.1980
Neðri deild: 63. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég tek það fram í upphafi, að ég tel að frv. það til l. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, sem hér liggur fyrir, sé til mikilla bóta. Mig langar aðeins að gera hér smá aths. við 4. gr. frv. og þá ekki vegna innihalds, heldur vegna tæknilegs atriðis.

Ég hef áður minnst á það á hv. Alþ., að oft kemur fyrir að þeir, sem úti í kerfinu vinna, óska þess að skýrar sé tekið á málum þegar lög eru gerð. Hér held ég að komi strax upp vandamál við framkvæmd, ef þetta frv. verður að lögum. Þá á ég við 3. mgr. 4. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Við framangreinda styrki bætist 1/2 olíustyrkur vegna lífeyrisþega, sem njóta bóta samkv. 19. gr. laga um almannatryggingar.“

Það er þessi lína sem ég tel að hyggja eigi að, vegna þess að þeir, sem njóta bóta samkv. 19. gr., eins og hér segir, hafa ákaflega mismunandi tekjur. Svo ég útskýri það í örfáum orðum: Sá, sem hefur í tekjur um 450 þús. annars staðar frá en frá almannatryggingum og nýtur elli- og örorkulífeyris, fær fulla tekjutryggingu. Ég hygg að það sé það sem hér er átt við. En svo getur maður haft einhverja tekjutryggingu samkv. 19. gr. alveg niður í 100 kr., ef í það fer, þar sem hér er um hlutfallsskerðingu að ræða. Hann getur þar fyrir haft um 2 millj. í tekjur annars staðar frá, en eftir stendur að hann nýtur samt bóta samkv. 19. gr. Mig langar þess vegna að vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að skýrar verði markað hvort hér er ætlast til að standi: „sem njóta fullra bóta samkv. 19. gr.“ — eða hvort það á að taka til þeirra sem eru með umtalsverðar tekjur, en koma samt að einhverju örlitlu leyti undir 19. gr. Þetta er vitaskuld atriði sem ekki er auðvelt að sjá fyrir þann sem ekki hefur þvælst í löggjöf um almannatryggingarum langan tíma. En ég vil mælast til að hæstv. ráðh. gangi frá því við n. að hér sé tekið ákveðnar á.

Að öðru leyti fagna ég því, að ellilífeyrisþegar fái samkv. þessu frv., ef það verður að lögum, um 200 þús. kr. á ári í olíustyrk. Ég hygg, að um það muni verulega, og vil að því leyti taka undir flest það sem hv. þm. Einar Guðfinnsson sagði áðan. En ég vil vekja sérstaklega athygli á þessu atriði í 3. mgr. 4. gr. svo það valdi ekki erfiðleikum þegar kemur að framkvæmdinni.