28.04.1980
Sameinað þing: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

156. mál, samkomulag Íslendinga og Færeyinga til veiða á kolmunna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í framhaldi af þeim umræðum, sem hér hafa orðið, vil ég upplýsa að þessi samningur gekk fyrir sig eins og hv. síðasti ræðumaður lýsti, en það fór fram símleiðis á milli sjútvrn. hér og í Færeyjum. Við töldum ekki fært að fallast á loðnuveiðar, heldur aðeins á kolmunnaveiðar til handa Færeyingum þar sem loðnustofninn er aðþrengdur eins og menn vita. Ég vil einnig geta þess, að Færeyingar hafa þegar afgreitt þetta mál, gerðu það samstundis, þannig að íslensk skip eru að undirbúa sig til veiða þar.

Fleira mætti út af fyrir sig um þetta að segja, en ég vil aðeins geta þess, að í samvinnu við Færeyinga og reyndar við Norðmenn á vegum Rannsóknaráðs Norðurlanda fara nú fram athuganir á vinnslu kolmunna. Færeyingar hafa þegar hrundið í framkvæmd hjá sér tilraunavinnslu með flökun á kolmunna. Við Íslendingar munum í sumar leggja höfuðáherslu á þurrkun á kolmunna, sem við teljum vera betri vinnslu, a. m. k. fyrir okkur, þannig að það má lita á þessar veiðar eða þennan samning sem einn lið í samstarfi þjóðanna um nýtingu á kolmunna, þar sem við höfum satt að segja dregist ákaflega mikið aftur úr.