20.12.1979
Efri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

32. mál, eftirlaun til aldraðra

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég mun ekki fara mörgum orðum um þetta frv. að þessu sinni. Bæði er að tíminn er mjög takmarkaður og eins hitt, að ég fylgdi frv. úr hlaði í þessari hv. d. á s.l. vori með ítarlegri framsögu um aðdraganda þess og efni.

Þetta frv. er mjög stórt spor í þá átt að koma samræmdu verðtryggðu lífeyrisréttindakerfi á fyrir alla landsmenn, sem er auðvitað lokamarkmiðið í þessum efnum. Um það bil 4500 manns munu njóta góðs af lögum þessum og munu greiðslur gjarnan verða á bilinu 60–90 þús. kr. á mánuði hafi viðkomandi unnið verkamannavinnu eða sambærilega vinnu í 15 ár eða lengur, og kemur það til viðbótar bótum frá almannatryggingum eins og þær eru í dag. Þannig fær einstaklingur, sem engar tekjur hefur aðrar en bætur almannatrygginga og bætur samkv. þessu frv., gjarnan 215–235 þús. kr. á mánuði og hjón liðlega 100 þús. kr. meira miðað við núverandi verðlag.

Enginn ágreiningur hefur komið fram hér á hinu háa Alþingi um útgjaldahlið frv., um bæturnar. Hins vegar kom á s.l. vori fram ágreiningur um sumar greinar teknanna. Í fyrsta lagi þótti frv. íþyngja Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um of. Þessu var mætt með því að veita Jöfnunarsjóði aðild að 2% hækkun söluskatts s.l. haust. Þetta eykur tekjur hans um 800 millj. kr. á ári, en hlutur hans í fjármögnun þessa frv. verður um 450 millj. kr., hvort tveggja á áætluðu verðlagi næsta árs.

Hins er svo rétt að geta, að tekjur Jöfnunarsjóðs voru talsvert skertar haustið 1978 þegar söluskattur var felldur niður af matvörum, og hefur sú tekjurýrnun ekki verið að fullu bætt enn þá.

Í öðru lagi var á það deilt, að lífeyrissjóðum á samningssviði ASÍ, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og vinnuveitenda var ætlað að taka á sig 100 millj. kr. viðbótarbyrði á verðlagi þessa árs til að kosta þessa nýju lífeyrisgreiðslu. Frá þessu var fallið og framlag ríkissjóðs hækkað að sama skapi.

Í þriðja lagi var ágreiningur um aukna hlutdeild Atvinnuleysistryggingasjóðs í fjármögnun eftirlaunakerfisins, en honum var ætlað að bæta við sig 450 millj. kr. í þessu skyni miðað við verðlag næsta árs. Staða Atvinnuleysistryggingasjóðs er langt frá því nægilega góð þótt þetta bætist ekki við. Hins vegar var og er ætlunin að losa hann við greiðslur fæðingarorlofs sem á þessu ári nema nálægt 800 millj. kr., og það er líklega nálægt 1200 millj. kr. á verðlagi næsta árs. Þetta hefur enn ekki verið gert og er afstaða heilbr.- og trn. Nd. því skiljanleg, en hún leggur til að ekki verði bætt frekari kvöðum á Atvinnuleysistryggingasjóð í þessum efnum fyrr en hann hefur verið losaður við fæðingarorlofið, og er ég fyllilega sammála þeirri afgreiðslu nefndarinnar.

Herra forseti. Ég þakka formönnum þingflokkanna og ég þakka deildarforsetum fyrir að þeir hafa beitt sér fyrir því að frv. verði afgreitt sem lög frá Alþingi fyrir jólahléið. Er það verðug jólagjöf Alþingis til þessa réttindalitla fólks.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og trn. þessarar hv. d. og til 2. umr.