28.04.1980
Efri deild: 70. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2108 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Sá sem heldur því fram, að lausnarorðið gagnvart aðsteðjandi efnahagsvanda Íslendinga sé að lækka skatta í stórum stíl, veit sjálfur að hann segir ósatt. Eins er um þann sem heldur því fram, að nú sé rétti tíminn til að knýja fram almennar launahækkanir upp allan launastigann. Sá sem þannig talar veit að tómt mál er um að tala.

Íslendingar eru í miklum vanda staddir um þessar mundir og út úr þeim vanda er engin auðveld leið. Síst af öllu komast menn klakklaust frá þeim vanda með því að blekkja sjálfa sig og aðra með marklausum yfirboðum. Ég kalla það t. d. marklaus yfirboð og ekkert annað þegar menn þykjast ætla að leysa vandann í aðsteðjandi samningum launamanna með því að láta ríkissjóð borga brúsann með skattalækkunum. Þetta er augljós gervilausn sem mundi kalla á seðlaprentun í miklum mæli og magna verðbólgu fremur en nokkuð annað.

Kjarni málsins er auðvitað sá, að meðan verið að brjótast út úr vítahring verðbólgunnar er þess ekki að vænta að allir fái kjarabætur. Við getum minnkað skattbyrði á láglaunafólki við álagningu tekjuskatts, og það er einmitt verið að gera þessa dagana við ákvörðun skattstiga og skattþrepa. Hitt er ljóst, að heildarskattbyrðin verður ekki minnkuð við ríkjandi aðstæður. Eins er um komandi kjarasamninga. Lágtekjufólk verður að hafa forgang. Aðrir verða að bíða betri tíma. Öðruvísi getur það ekki verið ef vel á að fara. Ég held líka að flestir geri sér fullkomlega ljóst að þessi stefna er algjör forsenda þess að þjóðarskútan komist aftur í lygnari sjó eftir langvarandi hrakviðri og storma.

Því verður sannarlega ekki á móti mælt, að liðinn vetur hefur verið óvenjulegur í íslenskri stjórnmálasögu. Þegar þing kom saman til starfa 10. okt. á s. l. hausti var þegar skollin á stjórnarkreppa sem ekki leystist fyrr en komið var langt fram í febrúarmánuð. Þingrof og kosningar leystu ekki nokkurn vanda fremur en vænta mátti. Stjórnleysið hélt áfram eftir kosningar og verðbólgan magnaðist með hverri vikunni sem leið. Í marga áratugi hafa fjármál ríkisins ekki lent í annarri eins óreiðu og hlaut að fylgja fjögurra mánaða stjórnleysi á fyrri hluta vetrar.

Flestir virðast sammála um að traustur ríkisbúskapur sé algjört undirstöðuatriði í árangursríkri baráttu gegn verðbólgu. Það var því eðlilegt, þegar aftur rofaði til eftir margra mánaða öngþveiti og loksins tókst að mynda meirihlutastjórn, að menn sneru sér fyrst að því verkefni að koma fjármálum ríkisins aftur á réttan kjöl.

Eins og kunnugt er hafa talsmenn allra stjórnmálaflokka fordæmt skuldasöfnun ríkissjóðs á undanförnum árum og verið á einu máli um að látlaus seðlaútgáfa í þágu ríkissjóðs hlyti að verka eins og olía á bál verðbólgunnar. Það var einmitt eitt helsta umræðuefni manna, skömmu eftir að núv. ríkisstj. var mynduð hvort hugsanlegt væri að finna mætti göt eða glufur í væntanlegum fjárlögum og hvort hætta væri á því að fjárlög ýrðu afgreidd með rekstrarhalla. Sem betur fer hefur núv. ríkisstj. staðið þétt saman um ýmsar nauðsynlegar ákvarðanir, sem að vísu eru ekki til þess fallnar að afla mönnum vinsælda, en óhjákvæmilega þurfti að taka til þess að endar næðu saman. Þar með hafa fjárlög verið afgreidd hallalaus án þess að slegið hafi verið striki yfir margvíslegar félagslegar umbætur og nauðsynlegt uppbyggingarstarf.

Flugvallaskattur er miður vel þokkaður hjá þorra landsmanna af skiljanlegum ástæðum, en hann hefur að sjálfsögðu verið hækkaður í réttu hlutfalli við hækkun framfærsluvísitölu á s. l. ári. Andvirði þessa skatts rennur allt til framkvæmda við flugvelli landsins, til að breyta öryggisbúnaði flugvalla og bæta aðstöðu farþega.

Bensíngjald hefur einnig verið hækkað í réttu hlutfalli við hækkun byggingarvísitölu frá miðju s. l. sumri til áramóta. Gjaldið rennur allt til framkvæmda í vegamálum.

Vegna stóraukinna útgjalda ríkisins til stuðnings þeim, sem kynda hús sín með olíu, er lagt á svonefnt orkujöfnunargjald sem jafngildir 1.5% í söluskatti, en bein útgjöld ríkisins vegna olíustyrks og orkusparandi aðgerða hækka nú frá fyrri fjárlögum úr 900 millj. kr. í 4500 millj. kr. Auk þessa hljóta önnur útgjöld ríkisins að stóraukast beint og óbeint vegna kreppunnar í olíusölumálum, t. d. framlög til Rafmagnsveitna ríkisins. Því þurfti engan að undra þótt orkujöfnunargjaldið yrði að skila meiri tekjum í ríkissjóð en nemur olíustyrknum einum.

Jafnframt voru margvíslegar sparnaðaraðgerðir í nýafgreiddum fjárlögum, m. a. lækkun framlaga til fjárfestingarlánasjóða og lækkun útgjalda hjá Hafrannsóknastofnun og Landhelgisgæslu, — misjafnlega þokkaður sparnaður, en óhjákvæmilegur.

Unnið hefur verið að endanlegri afgreiðslu tekjuskattslaga. Tekjuskattur er ekki lækkaður, en hann er ekki heldur hækkaður. Hann er ákveðinn með það að leiðarljósi að skatturinn skili nákvæmlega sömu tekjum og gamla skattakertið hefði gert miðað við 45% hækkun skattvísitölu milli ára. Þó á enginn von á öðru en skatturinn hækki hjá sumum hjónum þar sem konan vinnur úti, eins og nánar verður vikið að síðar, en skatturinn lækkar þá jafnmikið hjá öðrum. Heildarskattbyrði í tekjuskatti verður nákvæmlega sú sama og hún hefur verið undanfarin ár.

Skattkerfisbreyting, sem hækkar tekjuskatt hjá nokkrum hópi manna, en lækkar á öðrum, er alltaf erfið og viðkvæm í framkvæmd. Sannarlega hefði verið auðveldast og þægilegast fyrir sérhverja ríkisstj. að geta nú boðað skattalækkun, þannig að skattar stæðu í mesta lagi í stað hjá sumum, en lækkuðu hjá öðrum. En miðað við erfiða stöðu ríkissjóðs og þar sem nokkurn veginn er ljóst að væntanlegir kjarasamningar allra launamanna í landinu hljóta að kosta ríkissjóð nokkur útgjöld á árinu var annað ekki talið fært en tekjuskatturinn skilaði ríkissjóði sömu tekjum og áður. En það merkilega gerist þegar ríkisstj. hefur forystu um að tryggja hallalausan ríkisbúskap til að forðast áframhaldandi seðlaprentun og til að tryggja heilbrigðan rekstur ríkisfjármála, sem allir viðurkenna að er óhjákvæmileg forsenda þess að nokkur árangur náist í baráttu við verðbólguna, að stjórnarandstæðingar snúa blaðinu við og hefja árásir á ríkisstj. úr þveröfugri átt. Nú er það allt í einu orðið helsta hneykslunarefni stjórnarandstæðinga að reynt skuli að tryggja fjárhag ríkissjóðs. Nú heitir það skattpíning sem áður hét að tryggja hallalausan ríkisbúskap. Nú heitir það jafnvel skattaæði að hækka krónutölu skatta í samræmi við verðbólguþróun, eins og allar fyrri ríkisstjórnir hafa gert. Nú er sem sagt öllum ráðum beitt af hálfu stjórnarandstæðinga til að reyna að tryggja að ríkissjóður verði örugglega rekinn með halla á þessu ári.

Sannleikurinn er sá, þegar nánar er að gáð, að eina raunverulega skattahækkunin í þágu ríkissjóðs, sem núv. ríkisstj. hefur ákveðið síðan hún tók við völdum, er orkujöfnunargjaldið sem að verulegu leyti er millifærsla í þágu þeirra sem enn verða að kynda hús sín með olíu. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa verið sammála um að afla tekna í þessu skyni. Alþfl. var raunar búinn að leggja það til þegar fyrir þremur mánuðum að lagður yrði sérstakur orkuskattur á alla landsmenn í þessu skyni, og hefði sá skattur skilað tæpum 10 milljörðum kr. á einu ári. Það er því dæmalaust ábyrgðarleysi, að ekki sé meira sagt, þegar stjórnarandstæðingar snúa nú allt í einu blaðinu við og segja það vítaverða skattahækkun að afla fjár til að mæta þeim vanda sem stafar af stórhækkuðu olíuverði.

Hitt er svo allt annað mál, að á þessu ári hækkar útsvar hjá ýmsum sveitarfélögum um 1/2–1%. Þessi hækkun eykur ekki tekjur ríkissjóðs, en ræðst algerlega af þörfum viðkomandi sveitarfélaga. Hækkun útsvars er vissulega bein skattahækkun, a. m. k. að nafninu til. Hins vegar verður að hafa í huga að þegar verðbólgan er 40–50% og útsvarið er reiknað af tekjum liðins árs, eins og tekjuskattur, eru þessir beinu skattar hlutfallslega miklu lægri nú en þeir voru fyrir nokkrum árum þegar verðbólgan var minni. Sveitarfélögin hafa lent í miklum þrengingum af þessum sökum, því að ekki er auðvelt fyrir þau að láta sér nægja hlutfallslega minni tekjur þegar verðbólgan er í hámarki. Sveitarfélögin hafa sjálfstæðan fjárhag og verða að bera fulla ábyrgð á því gagnvart kjósendum sínum, hvort þau telja sér nauðsyn, miðað við þarfirnar, að ná saman endum með einhverri hækkun útsvars.

Sú grundvallarbreyting, sem verður á þessu ári á tekjuskattskerfinu, var ákveðin fyrir tveimur árum. Síðan hafa þrjár ríkisstj. setið að völdum. Þegar núv. stjórn tók við var þessi skattkerfisbreyting bersýnilega komin í algera óreiðu vegna stjórnleysis á undanförnum mánuðum. Þess vegna voru gerðar rúmlega sextíu breytingar á þessum skattalögum fyrir tveimur mánuðum og samþykktar með atkv. allra þm. Nú er aðeins eftir að ganga frá skattstigamálinu í samræmi við verðlags- og tekjuþróun sem orðið hefur á undanförnum tveimur árum. Grundvallarforsenda skattstigans er, eins og áður sagði, að þetta nýja kerfi skili nákvæmlega sömu tekjum og gamla skattkerfið hefði gert. Að sjálfsögðu má hugsa sér skattprósentur, skattþrep, persónuafslátt og barnabætur með ýmsum hætti og fá þó í öllum tilvikum sömu tekjur fyrir ríkissjóð. Við val skattstiga og skattþrepa er nánast ótal kosta völ. Ein smábreyting frá einu afbrigði til annars lækkar skatt hjá nokkrum hópi manna meðan skatturinn hækkar að sama skapi hjá öðrum.

Það er fjarri mér að halda að við höfum fundið hina einu réttu lausn. Hitt virðist ljóst, að skattstiginn, eins og hann verður eftir þessa seinustu breytingu sem við erum nú að gera, er almennt hagstæður lágtekjufólki. Einhleypingar hagnast einnig almennt á þessari kerfisbreytingu, hvort sem þeir hafa háar eða lágar tekjur, og borga samtals 1500 millj. kr. lægri upphæð í skatta en verið hefði samkv. gamla kerfinu. Einstætt foreldri borgar samtals um 280 millj. kr. lægri upphæð í skatt en verið hefði samkv. gamla kerfinu, en útkoma þeirra úr þessari kerfisbreytingu er þó óneitanlega misjöfn. Fólk með lágar tekjur fær nú yfir 20 milljarða kr. í barnabætur og í persónuafslátt til greiðslu upp í útsvar, en samsvarandi tala samkv. gamla skattkerfinu hefði aðeins numið rúmlega 14.5 milljörðum kr. Mismunurinn er 5.5 milljarðar kr. Almennt gildir að skattkerfisbreytingin er hagstæð fyrir lágtekjufólk og hagurinn af þessari breytingu ætti yfirleitt að gera meira en að jafna út þá útsvarshækkun sem hugsanlega verður hjá lágtekjufólki í nokkrum sveitarfélögum.

Stjórnarandstæðingar halda því mjög á lofti að þeir hafi verið fúsir að lækka útgjöld ríkisins meira en nemur sparnaðarráðstöfunum ríkisstj. á fjárlögum í því skyni að lækka skatta. Við skulum athuga þessa tillögu nánar. Hvað mundi t. d. gerast ef niðurgreiðslur væru lækkaðar um 8–10 milljarða kr.? Þá mundi verðlag á matvörum hækka um rúm 3%, öll launagjöld og útgjöld Tryggingastofnunar mundu hækka að sama skapi og samtals næmi hækkunin um 6 milljörðum kr. Óbein áhrif kæmu síðan fram í hraðara gengissigi og stórauknum útgjöldum ríkisins af þeim sökum. Raunveruleg útgjaldalækkun yrði því mjög óveruleg þegar öll áhrif af lækkun niðurgreiðslna væru komin fram. Það ætti því að vera fullljóst að þessi tillaga stjórnarandstæðinga er hrein sýndartillaga.

Annað úrræði stjórnarandstöðunnar er að níðast sérstaklega á tveimur afmörkuðum hópum manna, þ. e. námsmönnum og bændum, annars vegar með lækkun námslána og hins vegar lækkun Flutningsuppbóta. Afleiðingin yrði sú, að í fyrsta skipti í fjöldamörg ár mundu námslán lækka mjög verulega og ekki nema meira en 50–60% af fjárþörf námsmanna. Bændur, sem nú eiga við sérstaka erfiðleika að stríða, yrðu jafnframt fyrir gífurlegum tekjumissi. Óneitanlega er erfitt að taka slíkar tillögur alvarlega, enda langt frá því að nokkur þingmeirihluti sé fyrir hendi til að standa á bak við ofsóknir af þessu tagi gagnvart fámennum þjóðfélagshópum sem almennt standa illa að vígi fjárhagslega. Það er því nokkuð ljóst, að almenn skattalækkun stjórnarandstöðunnar hlyti að verða framkvæmd með því einu að setja seðlaprentun aftur í fullan gang í bankanum við Austurstræti með þeim afleiðingum sem það hlyti að hafa.

Vafalaust er Ísland ekki eina landið þar sem menn gæla við þá hugmynd að lækka skatta. Alls staðar og alltaf heyrast kvartanir um of háa skatta. Áreiðanlega hafa þó margar þjóðir meiri ástæðu til að kvarta en við Íslendingar. Skattar eru hér almennt lágir miðað við nálæg lönd, sérstaklega beinir skattar. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð borga menn um 46–52% af vergum þjóðartekjum í opinber gjöld. Hér á landi er sambærileg tala um 35% . Að sjálfsögðu er hætt við því að Íslendingar dragist enn frekar aftur úr nálægum þjóðum hvað félagslega þjónustu varðar ef skattar til sameiginlegra þarfa verða lækkaðir verulega. Hitt virðist miklu brýnna, að reynt verði að tryggja að allir leggi sinn réttláta skerf fram til sameiginlegra útgjalda þjóðarinnar, en á því er óneitanlega talsverður misbrestur. Þrátt fyrir ýmsa ágalla nýju tekjuskattslaganna, sem sumir eiga vafalaust eftir að koma enn skýrar í ljós, er þó veruleg von til þess, að unnt sé með þessum nýju lögum að koma í veg fyrir að miklum tekjum sé skotið undan skatti. Strax og álagning hefur farið fram er brýnt að hetja nákvæma endurskoðun laganna og undirbúa breytingar með hliðsjón áf fenginni reynslu. Starfsemi skattrannsóknarstjóra þarf að efla, en sérstaklega þarf að herða innheimtu söluskatts og reyna nýjar leiðir til að tryggja að skatturinn komi til skila.

Herra forseti. Núv. ríkisstj. betur starfað í tæpa þrjá mánuði. Hún er mynduð af ólíkum aðilum og stefna hennar er málamiðlun margvíslegra sjónarmiða, eins og títt er um samsteypustjórnir. Að sjálfsögðu er ríkisstj. ekki að framkvæma stefnu Alþb. nema að takmörkuðu leyti. En með þessu stjórnarsamstarfi eru tryggð ákveðin grundvallaratriði sem Alþb. hefur lagt þunga áherslu á. Enginn þarf að efast um, eftir það sem fram kom í stjórnarmyndunarviðræðum í haust, að ríkisstjórn með aðild Alþfl. og meiri hl. Sjálfstfl. hefði slitið verðbótavísitölu úr sambandi með þeim afleiðingum að almenn launakjör hefðu verið skert um 25–30% á einu ári. Það var örlagaríkur varnarsigur fyrir verkalýðshreyfinguna að slík stjórn komst ekki til valda.

Vissulega hafa kjör launamanna rýrnað nokkuð síðan seinustu samningar voru gerðir. Skýringin er einkum sú, að viðskiptakjör þjóðarinnar út á við hafa farið versnandi og auk þess mælir ekki vísitölukerfið fullar verðbætur. En sú rýrnun lífskjara, sem orðið hefur síðustu tvö árin, er aðeins lítið brot af þeirri skerðingu sem orðið hefði ef verðbótavísitala væri nú bundin eða skert í samræmi við tillögur Alþfl. og meiri hl. Sjálfstfl. Sem betur fer er ekki þörf á neinum kollsteypum til að leiðrétta þann halla, sem orðið hefur á kjörum láglaunafólksins, og þá leiðréttingu þarf að gera strax í vor. Almenn laun á Íslandi eru síst of há, en þótt við fáum ekki tækifæri til þess við ríkjandi aðstæður að gera þar mikla breytingu til batnaðar metum við það mikils að hafa komið í veg fyrir leiftursókn hægri aflanna gegn lífskjörum almennings í landinu. Það er líka árangur út af fyrir sig að hafa komið í veg fyrir stórsókn Alþfl. og meiri hl. Sjálfstfl. gegn kjörum námsmanna og bænda. Eins er það mikils um vert í þessu stjórnarsamstarfi, að uppbyggingarstarfi er haldið áfram af fullri djörfung og ekki nein samdráttar- eða kreppustefna að verki.

Mikil sóknarlota gengur nú yfir í orkumálum og á þessu ári munu vegaframkvæmdir aukast um 50% frá því sem var á seinasta ári. Það er að vísu heldur minni aukning en fyrirhuguð var, en ljóst er þó, að sífelldri afturför í vegamálum hefur nú verið snúið upp í mikla sókn þar sem vegáætlun frá því í fyrra stendur óhögguð að krónutölu, en ríkisstj. Alþfl. hafði einmitt gert tillögur um að vegaframkvæmdir yrðu stórlega skornar niður.

Ágæt atvinna er tryggð um land allt og það er ekki minnst um vert þegar stórfellt atvinnuleysi herjar í öllum nálægum löndum. Með aðild sinni að ríkisstj. hefur Alþb. jafnframt tryggt sér stöðvunarvald gagnvart nýjum áformum um stóriðju erlendra aðila og gagnvart tugmilljóna mannvirkjagerð á Keflavíkurflugvelli, sem mundi gera þjóðina enn háðari erlendu valdi.

Núv. ríkisstj. stendur því frammi fyrir stórfelldum vandamálum, ekki er því að leyna. Það verður alltaf auðvelt að gagnrýna ríkisstj. sem er að brjótast áfram í 50% verðbólgu. Vítahringur verðbólgunnar vekur upp ný og ný stórfelld vandamál sem krefjast úrlausnar. Upplausnarástandið hefur farið jafnt og þétt vaxandi á undanförnum árum og þolinmæði margra er á þrotum. Við þessar aðstæður er það orðið landlægt manna á meðal að vera óánægðir með allt og alla.

Núv. ríkisstj. mun reyna af fremsta megni að brjótast út úr þessum vitahring. Hún mun áreiðanlega ekki gera svo að öllum líki og hún mun sæta gagnrýni úr ýmsum áttum, eins og hlýtur að verða við ríkjandi aðstæður. Ég bið þó menn að hugleiða hvað hefði gerst ef stjórnarkreppan hefði haldið áfram. Við hefðum að vísu kannske fengið utanþingsstjórn, en hún hefði ekki notið þingmeirihluta og átt í stöðugu basli að koma málum sínum fram.

Forustumenn Alþfl. sprengdu vinstri stjórnina af litlu tilefni og hótuðu síðan að sprengja hverja þá stjórn sem ekki vildi gleypa við sýndartillögum þeirra. Það var þá fyrst, þegar augu manna opnuðust fyrir því að starthæf ríkisstj. yrði aldrei mynduð með aðild Alþfl., að nokkuð tók að rofa til í stjórnarkreppunni. Alþfl. var hreinlega settur til hliðar og þá fyrst tókst greiðlega að mynda meirihlutastjórn.

Stjórnarandstöðunni er mikið í mun að kollvarpa núv. ríkisstj. og sparar hvergi stóryrðin og ýkjurnar. Muna menn frá fyrstu dögum þessarar stjórnar þegar fullyrt var að fjárlagafrv. mundi hækka um 30–40 milljarða kr.? Reyndin varð sú, að fjárlagafrv. hækkaði um 10 milljarða og að mestum hluta vegna óhjákvæmilegra verðlagsbreytinga. Hafa menn orðið varir við hrópin um 100–110 milljarða erlendar lántökur í væntanlegri lánsfjáráætlun? Í núverandi drögum að lánsfjáráætlun er þó talan nokkuð innan við 90 milljarða kr. Þannig hafa illgirni og ýkjur einkennt málflutning stjórnarandstæðinga fremur en nokkuð annað. Nú er stjórnarandstæðingum mest í mun að reyna að stuðla að því, að ríkissjóður verði rekinn með miklum halla á þessu ári til að geta síðar sakað stjórnina um lélega fjármálastjórn. Í því skyni er sannarlega ekkert til sparað. En þetta mun ekki takast. Núv. ríkisstj. hefur sýnt að hún er samhent og sterk. Aðilar þessarar stjórnar hafa unnið saman af miklum heilindum og er það meira en sagt verður um margar fyrri stjórnir. Ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar væntir góðs af þessu samstarfi, en jafnframt veit ég að flestir eru nógu raunsæir til að skilja að ýmislegt þarf nú að ákveða sem ekki horfir til vinsælda. — Ég þakka áheyrnina.