29.04.1980
Neðri deild: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bogi Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það hefur verið deilt dálítið hér um skattálagningu og þá gjaldbyrði sem menn vilja segja að lögð sé á þegna þessa lands umfram það sem áður hafi verið. Ég held að það sé öllum ljóst, að skattbyrði á Íslandi, ef við berum saman við nágrannalöndin, er ekki ýkjaþung. Þó skal ég viðurkenna það, að það er alls ekki raunhæfur samanburður að bera saman skattbyrði t. d. á Norðurlöndum og hér, og því ætla ég ekki að taka þann samanburð þó að hann væri að sjálfsögðu Íslendingum hagstæður.

Nýju skattalögin, sem gengin eru í gildi og í fyrsta skipti verður skattlagt eftir á þessu ári, ef álagning getur einhvern tíma farið fram, eru að mörgu leyti mjög góð og ég efast um að menn séu farnir að átta sig á því, hvernig þau verka. Þó eru á þeim ákveðnir agnúar sem ég held að flestir séu nú búnir að sjá, en það vefst fyrir mönnum að leiðrétta þá eða taka þá til nánari skoðunar og menn vilja jafnvel sjá fyrst hvernig lögin reynast í framkvæmd. Ég held því að þegar skattálagningu þessa árs lýkur hljóti að koma til þess, að Alþ. þurfi að endurskoða tekjuskattslögin og gera á þeim nokkrar breytingar.

Það hefur verið deilt um hvað sá skattstigi, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, muni gefa í skatta, og sýnist sitt hverjum, eftir því hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. T. d. er deilt um það, hvort tekjuaukning milli áranna 1978 og 1979 muni vera 45%, 46% eða 47%. Ég held að málin séu einfaldlega þannig, að kannske hafi allir eitthvað til síns máls, en engin talan sé örugg. Og það er nú einhvern veginn hygginna manna háttur að setja ekki allt í botn þegar verið er að fjalla um fjármál, þannig að ég er svolítið hissa á því, hvað sjálfstæðismenn virðast vera harðir í því að reiknað skuli með 47–48% tekjubreytingu á milli ára, ef menn meina eitthvað með því að hér skuli reyna að halda niðri verðbólgu og spenna ekki allt upp eins og mögulegt er.

Grundvallaratriðið með sköttum er að jafna á milli þegna þjóðfélagsins. Ég held að það sé ekkert annað sem getur komið þar til. Við gerum okkur ljóst og viðurkennum það, að möguleikar manna til tekjuöflunar eru ákaflega misjafnir. Og ég held að ef menn vilja vera sanngjarnir, og ég held nú — hvar í flokki sem menn standa að menn vilji að allir geti lifað í okkar landi, þá komi það á daginn að menn séu sammála um að fella ekki algerlega niður beina skatta. Hitt er annað mál, að það er eðlilegt og sjálfsagt að hafa einhver skattmörk, svo að menn séu ekki að borga skatta af tekjum sem nægja varla til framfæris.

Ég fylgi þessu frv., en ég treysti því að það verði endurskoðað eftir álagningu á árinu 1980. Það koma örugglega í ljós gallar sem þarf að sníða af lögunum, og ég treysti því að það verði gert.

Vonandi vinnst betri tími til þess en nú er. Nú er komið fram á síðustu stundu og hér verður þetta að ganga í gegn hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Þetta hefur tafið alla skattálagningu og raunverulega stendur allt kyrrt út af þessum málum og komið fram í maíbyrjun.

Það eru fleiri gjöld sem eru skattar þótt þau að vísu heiti ekki skattar. Það er t. d. nýbyggingagjald og það er sérstakt gjald á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem búið er að afgreiða núna með fjárl. Ég segi fyrir mig, að ég er ákaflega gagnrýninn á svona gjöld og tel að það ætti að athuga það a. m. k. næst hvort svona gjöld ættu raunverulega rétt á sér, hvort það væri þá ekki réttara að hafa þetta í einhverri venjulegri skattmynd, eignarskattsmynd þá að sjálfsögðu, ef afla þyrfti þessara tekna. Mér er hálfilla við að lýsa einhverri sérstakri vanþóknun á einhverri ákveðinni atvinnugrein með svona sérstakri skattlagningu, en mér finnst þetta koma hálfpartinn þannig fram. Og verslunarrekstur er atvinnurekstur eins og hvað annað og við höfum séð að það að búa í landi þar sem ekki er nokkurn veginn frjáls verslun getur dregið dilk á eftir sér.

Karvel Pálmason ræddi hér áðan um 50% frádrátt af launatekjum konu. Ég hélt satt að segja að það væri enginn lengur sem þyrði að mæla því bót að halda því ranglæti inni í skattalögunum. Og ef þetta er almenn stefna Alþfl. í því máli finnst mér það ákaflega skrýtið, af því að ég held að eitthvert mesta óréttlætið í eldri skattalögum hafi einmitt verið þetta ákvæði. Við getum tekið bara læknishjón þar sem konan hafði e. t. v. 8 eða 10 millj. Þá fengu þau sérstaka 4–5 millj. kr. skattaívilnun. Ég held að allir sjái að slíkt á ekki heima í samræmdu þjóðfélagi.

Hann sagði einnig að það væru ekki nema harðlínukommar og eiginhagsmunamenn sem fylgdu þessu frv. Ég vil nú sem betur fer frábiðja mér hvort tveggja þetta heiti, en ætla samt að styðja frv. Og ég vona að svo sé ekki komið fyrir öllum hinum, að þeir séu af öðru hvoru þessu sauðahúsi.

Það var líka eitt þeirra atriða sem hér komu fram, hvenær þetta frv. yrði afgreitt. Það gat verið svolítið atriði að afgreiða það eftir 1. maí. Ef það getur létt eða þyngt skatta á launþegum, hvort frv. er afgreitt kvöldið fyrir 1. maí eða kvöldið eftir, þá eru skrýtilega reiknaðir skattar á Íslandi. Og ég held að það sé ekkert skemmtilegra að koma daginn eftir 1. maí með þetta heldur en jafnvel daginn áður. Þetta er það sem koma skal og fólk verður að búa við, ef þannig má að orði komast. En ég held að það hafi verið stigið rétt skref einmitt með tilfærslu á þessari skattbyrði. Við erum sammála um það, að skattana eigi að jafna á milli ríkra og fátækra og þetta frv., sem nú kemur fram um breyt. á lögunum frá 18. maí 1978, er tvímælalaust til þess að minnka skattbyrðina á þeim sem minna mega sín, en færa til þeirra sem meiri hafa greiðslugetuna.

Ég get ekki stillt mig um að nefna annað mál svona í framhjáhlaupi, þó að það komi þessu máli ekki við. Það var samþ. hér á Alþ. að veita heimild til að hækka útsvarið úr 11 í 12%. Ég tel það ákaflega vitlaust og líklega með því vitlausasta sem gert hefur verið. Ef almennt er að því stefnt að halda niðri verðlagi og ná samkomulagi við launþega um það, að nú skuli fara að telja niður verðbólgu, þá má ríkið ekki ganga á undan með slíku fordæmi.