30.04.1980
Neðri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2231 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

131. mál, flugvallagjald

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ekkert gaman að þessu. Hv. síðasti ræðumaður hleypur úr salnum. Ég sem hélt að gosinu í Vestmannaeyjum væri löngu lokið. En líklega hefur hann fengið sömu tilfinninguna innan um sig og hraunið í Vestmannaeyjum fékk þegar „Patton“ var að sprauta á það. Hv. þm. hljóp burt. (Gripið fram í: Hann er kominn.) Er hann kominn, blessaður?

Það er alveg furðulegt með hv. þm., sem annars er blessunarlega blíður, stilltur og fríður á að sjá, hvernig hann getur umhverfst stundum þegar hann er sendur upp af flokksbræðrum sínum og systrum til að tala tóma vitleysu í ræðustól á Alþingi. Hvernig dettur honum í hug að líkja saman ástandinu nú og því ástandi sem var þegar þessi svokallaði flugvallaskattur var fyrst lagður á? Af hverju var hann lagður þá á? Við hvað bjó þjóðin þá? Af hverju dettur hv. þm. í hug að tala um að við séum að svíkja kosningaloforð okkar, sem við gengum fram til kosninga undir og erum að reyna að efna með þeirri till. sem við leggjum til í sambandi við afgreiðslu þessa máls? Hvað gerir þessi sami hv. þm. og flokksbræður hans? Þeir voru kjörnir hingað á Alþ. og eru í meirihlutaaðstöðu til að efna loforð sín sem þeir voru kosnir til að efna, en þeir svíkja hvert einasta kosningaloforð sem þeir hafa gefið þjóðinni og launþegum þessa lands. Þeir lofuðu að koma samningum í gildi, að hækka laun láglaunafólks og sá videre, og sá videre. Af því að hann talar tungum, þá hlýtur hann að skilja þetta.

Svo kemur þessi maður hér fram og segir að við séum að svíkja kosningaloforð okkar. Sjálfstfl og þingflokkur Sjálfstfl. eru ekki að gera það. Ég vil benda hv. þm. á að hann hefur haft mörg tækifæri til að efna loforð sín að undanförnu, sem hann barðist fyrir strax í kosningunum 1978. Hann hefur ekki efnt eitt einasta atriði þeirra og þess vegna vísa ég algerlega heim til föðurhúsa hjá honum þegar hann er að bera okkur á brýn að við séum að svíkja okkar kosningaloforð með því að bera fram þá till. sem við berum fram nú um að fella þetta frv. Við lofuðum því fyrir kosningarnar að afnema vinstristjórnarskattana og við viljum standa við það.

Það kemur að sjálfsögðu úr hörðustu átt þegar hv. þm. fer að tala um að mikla karlmennsku þurfi til að standa hér á samvisku sinni og leggja á skatta til að framkvæma eitt og annað sem þjóðfélagið þarf á að halda. Það þarf að sjálfsögðu ekki neina karlmennsku til þegar samviskan er engin sem undir býr hjá þessum karlmennum. Þeim er alveg sama hverju þeir lofa og hvað þeir svíkja. Þeir geta staðið frammi fyrir kjósendum og lofað þessu í dag, en svikið það á morgun, eins og öll dæmi sýna og sanna.