05.05.1980
Neðri deild: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2338 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

174. mál, atvinnuleysistryggingar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég er ekki viss um að stefna þess frv., sem hér er til umr., sé alfarið rétt. Ég viðurkenni að 16. gr. laga um Atvinnuleysistryggingasjóð þarf verulegra lagfæringa við, eins og reyndar öll lögin, en ég sé ekki að rétt sé að fella hana burt, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég er t. d. ekki viss um að rétt sé að maður, sem sjálfur er í verkfalli, eigi samtímis að njóta atvinnuleysistryggingabóta. Í því sambandi er rétt að hafa í huga, að að því hlýtur að vera stefnt að atvinnuleysistryggingabætur nálgist mjög raunveruleg laun. Hvaða áhuga munu menn hafa á lausn verkfalla ef þeir, sem í verkfalli eru, halda svo til óbreyttum launum meðan á verkfallinu stendur?

Ég er ekki heldur viss um að rétt sé að þeir, sem í fangelsi sitja á kostnað ríkissjóðs, skuli hafa fullar atvinnuleysistryggingabætur meðan á fangelsisdvölinni stendur, eins og mér sýnist að frv. geri ráð fyrir. Ef um fjölskyldumenn er að ræða þarf auðvitað að sjá fyrir þörfum fjölskyldunnar.

Ég er ekki heldur viss um að þeir, sem stunda vinnu í eigin þágu, skuli samtímis njóta atvinnuleysistryggingabóta. Það væri þá ekkert því til fyrirstöðu, svo að dæmi sé tekið, að menn ynnu við byggingu eigin íbúðarhúss og nytu atvinnuleysistryggingabóta á meðan og það jafnvel þótt byggingin væri ættuð til sölu síðar meir.

Aftur á móti tel ég að viðmiðun við tekjur maka þurfi verulegrar endurskoðunar við og er þá með í huga sama sjónarmið og fram kemur hjá hv. flm. frv., að atvinnuleysistryggingar eigi ekki að byggjast á framfærslusjónarmiðum, heldur séu þær tryggingamál, eins og þar stendur.

Í grg. frv. er rætt um hugsanlegan aukakostnað og gert heldur lítið úr honum. Þar er sagt að gjöld vegna fæðingarorlofs falli af Atvinnuleysistryggingasjóði um næstu áramót. Það er rétt ef frv. um fæðingarorlof verður samþykkt, en ég vil þó benda á að samtímis fellur á Atvinnuleysistryggingasjóðs hluti af eftirlaunum aldraðra sem hann losnar nú við, sem er líklega einhvers staðar á bilinu milli 30 og 40% af því sem hann nú ber af fæðingarorlofinu. Auðvitað er það verulegt hagræði fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð, en við megum ekki nota þessa tölu sem nettótölu.

Enn fremur segir í grg., að ekki sé svo ýkjamikið um synjanir á umsóknum að ræða, og er þá verið að sýna fram á að viðbótarkostnaðurinn sé miklu minni en kostnaður af fæðingarorlofi sé í dag. Er það líka rétt. En auðvitað fjölgar umsóknum þegar stórir hópar koma til með að eiga hérna rétt sem alls ekki dettur í hug að sækja um í dag.

Auðvitað þarf að endurskoða ákvæði 16. gr. laganna og á það reyndar við um öll lögin og er endurskoðun í gangi þó að allt of hægt gangi í því starfi. Endurskoðunin hlýtur að beinast að því að hækka verulega bætur Atvinnuleysistryggingasjóðs miðað við tekjur og að sjóðurinn nái til mun fleiri en nú er. Allar viðbótarálögur á sjóðinn, eins og hér yrðu, mundu náttúrlega draga úr möguleika hans á að fljótar yrði þessum tveimur áföngum náð. Við megum aldrei gleyma því aðalatriði, að Atvinnuleysistryggingasjóði ber fyrst og fremst að greiða bætur til þeirra sem vilja vinna, en fá ekki starf við sitt hæfi.