06.05.1980
Sameinað þing: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2345 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

145. mál, veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fsp. á þskj. 294 frá hv. þm. Eiði Guðnasyni liggur hér fyrir. Hún er í sex liðum og þeir fjalla allir um veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu. Eins og fram kemur á þskj. er óskað eftir skriflegu svari við fimm fyrstu liðum og því mun hafa verið dreift fyrir nokkru til þm. og sé ég ekki ástæðu til þess að endurtaka það.

Sjötti liðurinn hljóðar svo: „Ráðgerir núv. ríkisstj. einhverjar breytingar að því er varðar veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu?“

Ég hef dreift upplýsingum um þetta fyrir allnokkurn til ríkisstj., en engar ákvarðanir hafa verið teknar um breytingar og treysti ég mér ekki til að segja um það öllu meira á þessu stigi. Þó vil ég taka fram að í sambandi við viðræður, sem munu fljótlega hefjast og segja má að séu hafnar með könnunarviðræðum við Efnahagsbandalagið um veiðar á Grænlandsmiðum og þá hagsmuni sem við höfum þar að gæta, kemur vitanlega til greina og er ekki óeðlilegt að m. a. veiðiheimildir eins og heimild Belga verði teknar til skoðunar.

Mér er einnig ljóst að veiðar Færeyinga á Austfjarðamiðum eru allþungur baggi þar og þykir ástæða til að endurskoða það einnig. Sömuleiðis má segja um veiðar Norðmanna, að ekki er ástæðulaust að líta á þau mál, m. a. með hliðsjón af því hvernig tekst í viðræðum um JanMayen. En svarið er þetta, að engin endanleg ákvörðun hefur verið tekin, en þessi mál eru í ítarlegri skoðun með tilliti til þeirra umræðna sem framundan eru.