08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

163. mál, flutningur gufuhverfils Kröfluvirkjunar til háhitasvæðis á Reykjanesskaga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson mælti fyrir hér áðan, er vissulega þess virði að efni hennar sé hugleitt, og einmitt athuganir af því tagi, sem þar eru ráðgerðar, eru líklegar til þess að geta varðað veginn til réttra framkvæmda. Ég tel ákaflega þýðingarmikið að fram fari athuganir á jarðhitasvæðinu á Reykjanesi, — ítarlegar athuganir, miklu ítarlegri en þær athuganir sem framkvæmdar voru við Kröflu á sínum tíma, og af hálfu hinna fróðustu og sanngjörnustu aðila. Enn fremur er ég þeirrar skoðunar, að einmitt við þær athuganir og kannanir, sem þar færu fram, gerðum við rétt í því að draga nokkurn vísdóm af þeim mistökum, sem framin voru við Kröflu, og hefðum okkur til ráðuneytis þá tæknifræðinga og verkfræðinga sem kunnugastar eru þeim mistökum, sem þar áttu sér stað, og áttu beina aðild að þeim.

Ég mun ekki fremur en hv. síðasti ræðumaður fara ítarlega út í það að rekja tildrög mistakanna við Kröflu, enda hygg ég á hvorugs okkar færi að gera það svo ugglaust væri að hvað eina kæmi þar fram. Og ég vil vekja athygli á einu, sem er grundvallaratriði þegar um það er fjallað hvers vegna önnur vélasamstæðan við Kröflu hefur ekki verið tengd einu sinni enn þá og hin nýtt að svo litlu leyti sem raun ber vitni. Alþfl. beitti neitunarvaldi sínu í síðustu ríkisstj. til þess að koma í veg fyrir að borað yrði eftir gufu við Kröflu, þrátt fyrir eindregin meðmæli hinna fróðustu og kunnugustu manna á Kröflusvæðinu með því, að þar yrði borað og sótt sú orka sem okkur var og er öllum kunnugt um að fáanleg er á þessu svæði. Fyrir lágu útreikningar hinna fróðustu manna um það, að hver hola, sem þar yrði boruð og veitti okkur gufu, mundi gefa okkur sem samsvaraði 11/2 milljarði kr. í nettóhagnað á árinu sem leið — eða næstu tólf mánuðum þar á eftir — í olíusparnaði. Við munum harla lengi geta látið vélasamstæðurnar við Kröflu bíða ónotaðar með þeim framkvæmdamáta sem hafður var á síðasta ári og meðan áhrifa þeirra aðila nýtur við í íslenskum stjórnmálum sem þar hindruðu eðlilegar boranir árið sem leið.

En við skulum víkja aftur beint að till. þeirri sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson gerði grein fyrir áðan og er alveg jafngóðra gjalda verð þrátt fyrir ágreining okkar á milli um það, sem gerðist við Kröflu, eða orsakirnar fyrir litlum nytjum af vélum það. Till. er einnig jafngóðra gjalda verð þó okkur greini mjög svo berlega á um það, til hvers ætti að nota orkuna sem kæmi frá Kröfluhverflinum á Suðurnesjasvæðinu. Ég leyfi mér nú — á sama hátt og hv. ræðumaður hefur sjálfur æ ofan í æ gagnrýnt fljótfærnislegar framkvæmdir við Kröflu — að gagnrýna áætlanir hans, að því er virðist gripnar af bjartsýni á grundvelli lauslegra athugana, í sambandi við nýtingu og kostnað á borholum á Reykjanessvæðinu.

Í fyrsta lagi er nú það, að hið sama mundi gilda um borholur á Reykjanessvæðinu og við Svartsengi eins og við Kröflu. Ef æskilegt er að láta borholur við Kröflu blása í tvö ár áður en þær eru virkjaðar, þá mun hið sama gilda á Reykjanessvæðinu. Einnig vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að á öllu þessu breiða háhitasvæði Íslands, sem nær allt frá Öxarfirði og suðvestur á Reykjanes og er sums staðar u. þ. b. 200 km breitt, annars staðar að vísu ekki nema í kringum 70, — á öllu þessu svæði gildir það, að ekki er séð fyrir hverjar jarðhræringar verða eða jafnvel eldgos, og það má hv. þm. vera minnisstætt, að fyrir u. þ. b. 12 árum rituðu íslenskir jarðfræðingar býsna mikið um þá staðreynd, að Reykjanessvæðið væri nú þegar komið nokkra áratugi fram yfir eðlilegan gostíma. Einnig þar geta orðið jarðhræringar, einnig þar geta átt sér stað eldgos, svo sem dæmin sanna, ef hv. þm. vildi renna haukfránum augum yfir hraunbreiður Reykjaness, þó ekki væri nema frá Helgafelli, að þar hefur slíkt skeð fyrr. Líkindin mæla með því að slíkt geti skeð öðru sinni. Þar mun gilda það sem gilda mun á öllu háhitasvæði landsins, ef við ætlum í raun og veru að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu með þeirri tækniþekkingu sem við nú búum yfir, að við verðum þar að ætla hverju raforkuveri að tryggja annað á þessu svæði, því við hljótum að reikna með því, að annað slagið gerist það í jarðhræringum að gufu þrjóti um sinn og jafnvel að mannvirki fari undir hraun.

Ég vil nú nota annars konar reikningsstokk en hv. þm. Kjartan Jóhannsson, prýðilega lærður verkfræðingur, við útreikning á arðsemi þess að við Íslendingar bindum raforkuframkvæmdir okkar endanlega við stóriðju á landi hér og e. t. v. sérstaklega í sambandi við orkusöluna til Álversins í Straumsvík og Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, en hvort tveggja þessi stóru mannvirki, annað algjörlega í eigu útlendinga, en hitt að verulegu leyti, hafa verið hjartans mál Alþfl. og þeirra „tæknikrata“, ef ég leyfi mér að íslenska orðið „teknokrat“, sem kringst hafa staðið að þeim flokki og þeirri efnahagslegu hugsun sem gjarnan kemur fram í máli hv. þm. Kjartans Jóhannssonar.

Hitt vil ég fullyrða, að það hefði sérstaka þýðingu fyrir norðaustursvæðið, þ. e. Norðurland eystra, og þó fyrst og fremst fyrir svæðið norðan og austan Mývatnssveitar, ef við fengjum orku frá Kröfluveri inn á Austurlandslínuna. Enda þótt ég mæli með því, að gerð verði ítarleg og góð athugun á möguleika á framleiðslu raforku frá borholum við Svartsengi og á Reykjanesi, þá tel ég hyggilegt að láta bíða ákvörðunina um að flytja burt vélarnar af Kröflusvæðinu á Reykjanessvæðið, láta það bíða eftir því hvort við komumst að niðurstöðu um það, hvort við fáum kannske ekki fyrr nýtilega gufu á Kröflusvæðinu á þessa hverfla, þar sem þeir eru, og sæjum þá e. t. v. nokkra leið til þess að útvega aðra hverfla til notkunar á Reykjanessvæðinu.

En umfram alla muni held ég að sé orðið tímabært að við gerum okkur grein fyrir því, til hvers, til hvaða hluta, til hvaða framkvæmda við ætlum að nota þá raforku sem við leggjum í með ærnum tilkostnaði að afla okkur. Og mér er það meira í mun, að við látum sitja í fyrirrúmi þörf landsmanna sjálfra fyrir raforku heldur en þörf þeirra hjá Alusuisse og Elkem-Spigerverket að nota íslenska raforku til framleiðslu í gróðaskyni fyrir þau fyrirtæki.

En ég ítreka það í lokin, að ég tel till. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar um athuganir á þessu máli góðra gjalda verða, ef aðeins væri hægt að létta af hv. þm. áleitnum „vöfum“ — svo við leyfum okkur að nota þýðingu Símonar Jóh. Ágústssonar prófessors á orðinu „komplex“, — áleitnum vöfum í sambandi við virkjunarmál á Íslandi yfirleitt og þó fyrst og fremst í sambandi við Kröfluvirkjunina.