09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2539 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

167. mál, söluskattur

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. undirtektir hans við þetta frv. og heyri að hann er sammála mér um það í raun, að þeir skattar, sem lagðir eru á kvikmyndagerðina, eru of miklir. Mér þykir í þessum efnum langhreinlegast, úr því sem komið er, að afnema söluskatt af aðgangseyri að íslenskum kvikmyndum. Á hinn bóginn get ég tekið undir það sem hv. 3. þm. Austurl. sagði almennt um söluskattinn, að eins og staðið hefur verið að þeim málum upp á síðkastið, ég vil segja síðustu 10 árin, hefur sívaxandi ringulreið ríkt í þeim efnum og svo er nú komið í mörgum greinum, að þó menn vilji þræða hinn þrönga stíg laganna og skila ríkissjóði því sem ríkisins er í þessum efnum, þá getur það reynst næsta örðugt í einstökum tilvikum vegna þeirra óglöggu skila sem eru á milli söluskattsskyldrar þjónustu og þeirrar þjónustu sem ekki er söluskattsskyld. Það má nefna mörg dæmi um það, en ég skal ekki gera það að þessu sinni Hins vegar liggur málið þannig fyrir, að söluskattur er orðinn allt of hár, en hann er orðinn 231/2%. Það munar verulega mikið um hann og þrýstingur á menn að gefa söluskattinn eftir og svíkja þannig undan skatti í sumum greinum er orðinn gífurlega mikill.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að þegar þetta frv. var lagt fram hafi ringulreiðin í þessum efnum enn verið aukin með því að leiklistinni hafði verið skipt í tvennt. Í sumum tilvikum átti að greiða söluskatt af leiksýningum, í öðrum ekki, sem var náttúrlega óþolandi ástand. Og það sjá náttúrlega allir, að ekki er hægt við það að una að aðgangseyrir t. d. að kappreiðum og góðhestakeppni skuli vera undanþeginn söluskatti með löggjöf, en hins vegar ekki aðgangseyrir að leiklistarstarfsemi, tónleikahaldi og kvikmyndagerð. Ég held að það sama verði að gilda í þessum efnum um þetta allt.