09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2542 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

161. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki o.fl.

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þegar ég kom til starfa í landbn. að loknu leyfi sem ég hafði héðan frá störfum hafði verið haldinn einn fundur í n. um þetta mál. Ég fékk þess vegna ekki upplýst hverjar upplýsingar hefðu legið fyrir frá þeim aðilum sem kallaðir voru til fundar við n., spurðist þó fyrir um það á þeim fyrsta fundi sem ég var á, og ég veit hverjir það votu. Hins vegar var ekki gert mikið úr því, að það hefði verið um andmæli gegn þessu á neinn hátt að ræða.

En þegar ég fór að vitja um minn póst hafði borist til mín bréf samdægurs frá Félagi ísl. iðnrekenda þar sem þeir greina frá því, að eftir því hefði verið óskað að félagið gerði skriflega grein fyrir skoðun sinni á frv. Þeir staðfesta þá skoðun sína í bréfinu, að um nokkur andmæli við frv. sé að ræða þó þau séu ekki veigamikil. En ég hefði þá viljað hafa nokkrar fréttir af því, hvað þeir aðilar aðrir, sem komið hafa til fundar við n., hefðu um þetta að segja. En þess var getið að til þess væri ekki tími og engin þörf á því, enda verður það að segjast, að ég var út af fyrir sig ekki mótfallinn þeirri breytingu sem á þessum lögum er gerð með þessari grein sem hér er einni breytt í lögunum eins og málið kom til n. Ég álít rétt að skilgreina það greinilega, hvað felst í hverju heiti sem tilgreint er í lögum, hvort sem um matvæli er að ræða eða annað, neytandi eigi rétt á því að vita, um leið og hann heyrir vörutegundina nefnda á nafn, hvað í henni felst. Þess vegna tel ég vera réttmætt að skilgreina þetta greinilega, eins og hér er gert um smjörlíkið.

En þegar ég les yfir lagabreytinguna og grg., þá kemur það í ljós, sem ég átti ekki von á, að grg. er í raun og veru um allt annað en efni frvgr. sjálfrar. Grg. snýst um það fyrst og fremst, að það hafi gerst úti í Svíþjóð að farið var að blanda jurtaolíu saman við smjör, og það er látið að því liggja að sú breyting, sem hér er verið að gera, sé til þess að svo megi einnig gera hér á landi. Ég er ekki alveg viss um að þessi lagabreyting sé nægileg til þess, en um það geta ugglaust verið deilur. Ég vil aftur á móti halda því fram, að það sé vísbending um óvönduð vinnubrögð og óðagot í afgreiðslu, að það varð að umorða t. d. alla 1. gr. frv., sem er aðalgrein þess, kannske meira af því að menn hafa næman málsmekk en vegna efnisbreytingar, og er ekki nema allt gott um það að segja.

Í annan stað taldi n. eðlilegt að gera aðra breytingu á lögunum, sem sagt að færa heiti til þess horfs, sem nú er í stjórnkerfinu, og kalla landbrh. landbrh. en ekki atvmrh., og er það líka eðlilegt. En ég held og ég veit, að það var ástæða til að taka miklu fleiri atriði úr lögunum til endurskoðunar og leiðrétta þau eftir þeim breytingum sem orðið hafa á ýmsum háttum hér.

Á einu stigi málsins var komin ein brtt. enn inn í nál. landbn., sem ég hafði ekki séð eða vitað hvaðan var og mér fannst ekki passa við frv. á neinn hátt. Benti ég formanni n. á það og var það þá leiðrétt og tekið út, því að að stóðst ekki við lögin og var útilokað.

Þetta sannar það, að í þessu efni öllu er hið mesta óðagot. Ég tel t. d. að full ástæða hefði verið til að breyta því sem segir í 7. gr. laganna. Þar er ákvæði um það, að í öllu mjólkurlíki og rjómalíki, sem búið er til eða notað í landinu, skuli vera litarefni sem greini það glögglega frá mjólk og rjóma. Mér vitanlega hefur þessu ákvæði ekki verið fullnægt nú í mörg, mörg ár, hvort sem það hefur einhvern tíma verið gert eða ekki. Þess vegna hefði verið ástæða til að yfirfara þetta einnig þegar var verið að hreyfa við lögunum á annað borð.

Þá er einnig ákvæði í 8. gr. sem ég tel að sé algerlega úrelt og ekki farið eftir í neinu. Það er: „Í öllu smjörlíki, ostlíki, rjóma- og mjólkurlíki skulu vera 2% af hreinni jarðeplasterkju.“ Ég held að þetta hafi ekki tíðkast og sé ekki farið eftir þessu lagaákvæði nú.

Í 9. gr. er t. d. mgr. sem ég hygg að sé algerlega þarflaus og út í hött að hafa í lögum áfram. Þar stendur um greinilega merkingu á smjörlíki: „Þessi ákvæði taka einnig til smjörlíkis sem selt er í lausri vigt í sölubúðum.“ Ég held að það sé algerlega bannað núna eftir öðrum lögum að selja smjörlíki í lausri vigt.

Það eru mörg fleiri atriði, sem ég hirði ekki um að nefna, sem ég tel að hefði átt að taka til athugunar í þessu efni, og það var skoðun mín, að vísu eftir að ég var búinn að taka ákvörðun um að styðja þetta frv., að það hefði verið eðlilegra að fresta afgreiðslu þess enn um sinn og taka lögin til endurskoðunar í heild. Og það mun liggja fyrir í rn., að þeir menn, sem gerðu till. um breytingu á þessari 1. gr. laganna, munu hafa komið því áleiðist til rn. að eðlilega þyrfti að endurskoða lögin í heild fremur en endurskoða þessa einu grein þeirra. En eins og ég tók fram í upphafi, þá hafði ég samþykkt að styðja þá breytingu, sem gerð var á 1. gr., og ég mun styðja þetta frv. af því að mér sýnist, eins og ég tók fram, eðlilegt að skilgreina það í lögum, hvað er smjörlíki og ákvarða einnig um aðra þætti þessa efnis í greininni. Ég mun styðja það. En eðlilegast hefði ég talið að þetta frv. færi ekki lengra í þessu formi. Ég tel að það hefði verið mjög nauðsynlegt að taka það mál, sem hér liggur fyrir, til athugunar og endurskoðunar í heild.