09.05.1980
Efri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

165. mál, grunnskólar

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Áður en ég byrja á því að mæla fyrir þessu frv. langar mig til að geta þess við hv. dm., að þetta er talsverður merkisdagur í lífi mínu að því leyti til, að ég hef átt sæti á Alþingi í 19 vetur, en þetta er í fyrsta skipti sem ég stend í ræðustól í Ed.

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., frv. til l. um breyt. á lögum um grunnskóla, var flutt í Nd. og hefur verið afgreitt þaðan nú í dag. Er það von mín, að hv. Ed. sjái sér fært að afgreiða þetta mál sem fljótast. Þetta frv. er satt að segja ekki stórt í sniðum, það er aðeins tvær greinar. Hins vegar má segja að efnisatriði þessa frv. sé ekki ómerkt eða lítið, en frv. fjallar um það, eins og segir í 1. gr., að stefna skuli að því, að ákvæði laga um síðasta ár skólaskyldu komi til framkvæmda samtímis á landinu öllu 7 árum eftir gildistöku laganna. En þannig er, að í grunnskólalögunum, eins og þau eru, er gert ráð fyrir að skólaskyldan, 9 ára skólaskylda, komi til framkvæmda 6 árum eftir gildistöku laganna. Þá ættu þau af sjálfu sér að taka gildi að þessu leyti nú í haust, haustið 1980. En eins og menn þekkja var almennt gert ráð fyrir að það tæki 10 ár að framkvæma grunnskólalögin að öðru leyti en því, að þetta sérstaka ákvæði í 88. gr. var að koma skyldi á fullri skólaskyldu samkv. lögunum á 6 árum.

Nú er það ljóst, að það er mjög erfitt að framkvæma 9 ára skólaskyldu við þær aðstæður sem við búum nú við. Sérstök nefnd hefur verið að endurskoða grunnskólalögin. Í henni sitja þrír menn undir forsæti Jónasar Pálssonar skólastjóra. Þessi nefnd hefur ritað mér bréf fyrir nokkru og bent á að hún hafi ekki lokið endurskoðunarverki sínu, en bendir jafnframt á að eðlilegt væri að fresta því um ár að 88. gr. laganna taki að fullu gildi.

Einnig má segja það, að ævinlega sé nokkur ágreiningur um þetta mál. Það er nokkur ágreiningur, bæði í Alþingi og eins meðal skólamanna og úti um landsbyggðina, um það, hversu hratt skuli stefnt að því að 9 ára skólaskylda verði tekin upp. Þá held ég að sé einnig rétt að minna á það, sem reyndar er nú lögð hvað mest áhersla á í grg., að það er skynsamlegt að tengja afgreiðslu fullrar skólaskyldu við umr. og ákvörðun um nýja skipan á framhaldsskólastiginu, en ljóst er að nýskipan á því sviði verður ekki afgreidd sem lög á þessu þingi.

En eins og ég segi, þá er þetta ekki umfangsmikið mál eða stórt í sniðum. Það hefur gengið í gegnum Nd., menntmn. þar fjallaði um málið og varð einróma sammála um aðleggja til að málið gengi fram eins og það var lagt fyrir, og þannig var það samþykkt í Nd.

Herra forseti. Ég held að það þurfi ekki öllu frekari skýringar á þessu frv. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.