13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

151. mál, Olíumöl

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég verð að segja að það kemur mér svolítið á óvart hvaða stefnu þessi umr. er að taka. Fjvn. hefur fjallað um þetta mál á mörgum fundum. Hún hefur gert það að eigin frumkvæði, ekki vegna þess að hæstv. fjmrh. óskaði eftir neins konar úttekt eða rannsókn, heldur hefur fjvn. skoðað þetta mál að eigin frumkvæði. Ég vek athygli á því, að það fyrirtæki, sem hér er um að ræða, er einkafyrirtæki, hlutafélag, og fjvn. getur óskað upplýsinga, en hún hefur ekkert vald til að krefjast eða heimta upplýsingar og hún hefur kannske á þessu stigi fremur litla aðstöðu til að sannreyna hversu sannar þær upplýsingar eru sem fyrir n. eru lagðar.

Ég hygg að allir fjárveitinganefndarmenn muni geta tekið undir að þetta mál er flóknara, margþættara og á því fleiri fletir en við blasa við fyrstu sýn og kannske málið allt ekki eins fallegt og menn héldu við fyrstu skoðun.

En vegna ummæla hæstv. fjmrh. áðan og út af því bréfi, sem hann skrifaði fjvn. 10. apríl s. l. vil ég aðeins segja þetta:

Hæstv. ráðh. viðhafði þau orð að hann hefði ekki gert upp hug sinn í þessu máli. En ég verð að segja að ég veit ekki hvernig hægt er að lesa bréf hans öðruvísi en að skilja það svo, að hann hafi þegar gert upp hug sinn í málinu. Þess vegna ætla ég, með leyfi forseta, að lesa það sem stendur í þessu bréfi.

„Til fjvn. Alþingis.

Alþingi, 10. apríl 1980.

Samkvæmt ákvæðum í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1980, lið 3.7, er fjmrh. heimilt að breyta kröfum ríkissjóðs á hendur Olíumöl hf. í hlutafé að fengnu samþykki fjvn. Alþingis. Hér með er óskað samþykkis fjvn. á því að ofangreind heimild verði notuð.

Hjálagt sendir ráðuneytið minnisblað um fjárhagsstöðu Olíumalar hf. o. fl., dags. 25. mars 1980, og grg. um fjármálastöðu Olíumalar hf., dags. 2. október 1979.“

Undir þetta skrifar Ragnar Arnalds. Ég fæ ekki skilið þetta bréf öðruvísi og ég sé ekki hvernig hægt er að skilja þetta bréf öðruvísi en að hæstv. ráðh. hafi þegar gert upp hug sinn til málsins. En það get ég sagt á þessari stundu, að það hefur fjvn. ekki gert enn þá, og eigi að láta fara fram þá ítarlegu rannsókn, sem fjmrh. ræddi um áðan, held ég að það sé margra mánaða verk. Mér finnst í rauninni sjálfsagt að slík rannsókn eigi sér stað, en fjvn. hefur ekki starfslið eða starfsaðstöðu til að framkvæma þá rannsókn eins og gera þyrfti.