13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2578 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

151. mál, Olíumöl

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil undirstrika það hér, að það voru skilyrði fjvn. fyrir því, að heimildin færi inn í 6. gr., að fjvn. fengi málið til meðferðar til að gera grein fyrir sinni afstöðu, samþykki eða synjun, áður en þessi heimild yrði notuð. Þannig hefur verið um málið fjallað síðan.

Ég vil enn fremur segja það, að ákveðið var frá hálfu fulltrúa Framsfl. í fjvn. að þingflokkur Framsfl. fengi að fylgjast með málinu í heild og taka sameiginlegar ákvarðanir þegar að því kæmi.

Ég vil taka undir það, að hlutur sveitarfélaga í málinu er vissulega vandamál í heild.

Ég vek enn fremur athygli á því, að með því að samþykkja þessa heimild um að breyta 300 millj. skuld í hlutafé og með því að Framkvæmdasjóður hefur samþ. 500 millj. hlutabréfakaup er fyrirtækið orðið ríkisfyrirtæki, frá því getur enginn hlaupist, og verður ríkisstj. þá að taka á sig þær skuldbindingar sem af tilveru fyrirtækisins leiðir.

Ég er einnig á þeirri skoðun að fjvn. geti ekki samþ. þessa heimild nema með ákveðnum skilyrðum eftir að n. er búin að fá þau gögn á borðið sem hún bíður nú eftir.

Ég tel að það sé ekki heldur hægt og ekki raunhæft á einn eða neinn hátt að ákveða, þegar verið er að ráðgast um eða gera áætlanir um varanlega vegagerð í landinu, að slíkar ákvarðanir eða framkvæmdir eigi að vera eingöngu bundnar því hvort eitt tiltekið fyrirtæki eigi að starfa áfram eða ekki. Málið er svo miklu stærra og þýðingarmeira en það, þ. e. að vinna að framförum í gerð varanlegs slitlags á vegi á Íslandi, að við getum bundið okkur einu fyrirtæki í því sambandi. Við eigum að leita að sameiginlegri skynsamlegri lausn sem stuðlar að stórátaki í varanlegri vegagerð.