13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

151. mál, Olíumöl

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það ætti að vera í lagi að tala einu sinni þegar hinir fá að tala þrisvar, en ég skal ekki lengja þessar umr. mikið og skal ekki segja mörg orð að þessu sinni um þetta mál.

Menn hafa hér mikið deilt um hvað hæstv. fjmrh. hafi meint með margívitnuðu bréfi. Ég hef verið samtíða hæstv. núv. fjmrh. á þingi a. m. k. sjö ár og ég hef oft grunað hæstv. ráðh. um græsku, grunað hann um að segja ósatt, en ekki oft talið mig sjá þess næg merki til að geta fullyrt það. Ég er þó fullviss um það nú, eftir þeim afskiptum sem hæstv. ráðh. hafði af málum í ræðustól, að hæstv. ráðh. er að segja ósatt um það sem hann telur sig hafa gert. Hann fór fram á að þessi heimild yrði veitt, auðvitað vegna þess að hann var búinn að taka ákvörðun um það sjálfur að nýta hana, og ég ætla ekki að ásaka hann fyrir það, en hann á auðvitað að standa við það. Ef hann er orðinn annarrar skoðunar núna á hann að viðurkenna þau mistök.

Ég hef verið einn af þeim þm. og er það enn sem hafa talið að það væri ábyrgðarhluti af Alþingis hálfu að standa þannig að málum að framkvæmdir varðandi bundið slitlag, ekki bara á vegum Vegagerðar ríkisins, heldur á vegum bæjar- og sveitarfélagá víðs vegar í kringum landið, færu ekki fram á komandi sumri. Menn geta deilt um það hér, hverjir séu sérstakir fulltrúar skattþegna í landinu, ég ætla ekki að fara út í þá umr., en mér er ekki alveg ljóst hvort það er einhver sérstakur greiði við skattþegna landsins að þetta fyrirtæki verði meðhöndlað með þeim hætti að sveitarfélögin og ríkið tapi mestum hluta þess sem þau eiga í því. Það getur verið meiri greiði við skattþegnana að sjá svo um að áfram verði haldið, ekki síst á þeim stöðum víðs vegar úti á landi sem eru orðnir á eftir. Nauðsynlegt er að auka og hraða framkvæmdum í vegagerð. Það er ekki síður greiði við fólk, að áfram verði haldið á þeirri braut og jafnframt séð svo um að það haldi nokkuð sínum hluta af skattfénu.