13.05.1980
Neðri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2609 í B-deild Alþingistíðinda. (2587)

94. mál, sjómannalög

Frsm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Fyrst er þess að geta að orðið hefur prentvilla í prentun á brtt. frá samgn. Hún er um miðbik brtt. í grein sem hefst svo:

„Hafi skipverji verið ráðinn á sama skip eða hjá sama útgerðarmanni í tvö ár samfellt skal hann, auk þess sem í 3. mgr. segir, halda föstu kaupi, kauptryggingu eða sérlega umsömdu veikindakaupi í allt að einn mánuð, en í allt að tvo mánuði eftir fjögurra“ — þarna á að koma: ára — „samfellda ráðningu hjá sama útgerðarmanni.“

Ég vænti þess að forseti sjái sér fært að koma þessari leiðréttingu á framfæri.

Mér þykir afleitt að hv. þm. Guðrún Helgadóttur skuli ekki vera hér í salnum. (Gripið frem í: Það má ná í hana. ) Væri afskaplega gott, ef hún væri í húsinu, að fá hana hingað inn, því að ég held að hún hafi ekki kynnt sér nægilega vandlega hvernig n. þingsins starfa.

Hún lét þau orð falla hér, að sér væri ami að því þegar mál væru kynnt jafnvandræðalega, eins og hún orðaði það, og sú brtt. sem nú kemur fram frá samgn. Það, sem hv. þm. á við með þessu, er einfaldlega það, að ég leyfði mér sem frsm. n. að koma á framfæri skoðunum beggja hagsmunaaðila, sem ég taldi skyldu mína í þessu máli. Ég tel það skyldu allra þeirra manna, sem fara með formennsku í n. og eru frsm. fyrir málum, að láta sjónarmið beggja aðila koma fram. Það heitir ekki að kynna mál vandræðalega. Það eru þinghefðir fyrir því, að þm. ber að taka mark á skoðunum beggja hagsmunaaðila þegar um jafnveigamikil mál er að ræða og þessi. Ég held að hv. þm. Guðrún Helgadóttir ætti að hafa þessa lýðræðisreglu í heiðri. Hún gildir um frsm. n. og um formenn n., sem leita álits hjá fjölmörgum hagsmunasamtökum í jafnviðkvæmu máli og hér um ræðir.

Ég hafði, áður en hv. fyrrv. þm. Valdimar Indriðason fót út af þingi, heitið honum því að gera grein fyrir afstöðu hans og afstöðu LÍÚ til þessa máls. Til þess að halda uppi þessum þingræðisreglum ætla ég að leyfa mér að lesa bréf, sem hingað hefur borist frá LÍÚ og kom fyrir nokkrum mínútum, sem í felast nokkur mótmæli við brtt. sem hér liggur frammi. Ég tel það ekki að kynna mál vandræðalega þó að það sé gert. Athugasemdir LÍÚ eru á þessa leið og þá er vísað til 2. mgr. brtt. og ég geri þetta með leyfi hæstv. forseta. Í fyrsta lagi:

„Útvegsmönnum er gert skylt að greiða sjómönnum kaup þótt skip hafi hætt veiðum og sjómenn verið afskráðir með löglegum hætti, þótt í kjarasamningum segi að kaup skuli greitt fyrir þann tíma sem skipverjar eru lögskráðir. Kaupgreiðslu virðist einnig eiga að inna af hendi þótt skipi hafi verið bannað að veiða af yfirvöldum í þeim tilgangi að takmarka fiskveiðar.“

Hér kemur að því atriði 2. mgr. brtt. sem fellur út úr frv.:

„Laun er þó ekki skylt að greiða í hléum milli veiðitímabila, sem eru hefðbundin og þekkt fyrir fram.“ Þetta er mjög umdeilanlegt atriði, þ. e. hvort þetta eru hagsbætur fyrir sjómenn eða ekki, og það var einfaldlega vegna þess að ég tók þetta atriði sérstaklega fram í framsögu minni. Sjómenn verða að búa við það framvegis, að þessari setningu felldri úr frv., að þurfa að gera ráðningarsamning hverju sinni fyrir hvert einasta veiðitímabil og vera sagt upp um leið og samningurinn er gerður. Þeir standa kannske frammi fyrir mun meiri vanda en ef þessi setning hefði verið í frv. — Ég vil endilega að hv. þm. Guðrún Helgadóttir átti sig á því að það eru tvær hliðar og oft fleiri en tvær á hverju einasta máli.

Þá segir í grg. frá LÍÚ:

„Staðgengisregla, sem gilt hefur í einn mánuð, er lengd í tvo mánuði. Breytingar þær, sem lögfestar voru vegna aukins réttar verkafólks, fólu ekki í sér lengingu á staðgengisreglu.“

Hvergi er staðgengisregla ósanngjarnari fyrir vinnuveitanda en þegar um er að ræða hlut. Þrátt fyrir þetta er staðgengisreglan lengd í umfjöllun nefndarinnar. Það fer ekkert á milli mála, að staðgengisreglan er mjög umdeilanleg. Þarna er ekki um að ræða beint sjúkraleyfi. Þarna er um að ræða að skipverji á skipi, sem veikist, fær fullan aflahlut á meðan hann er í landi. Og ég nefndi sem dæmi í framsögu minni, að það jafngilti því að t. d. skipstjóri á skuttogara á Ísafirði, ef við tökum það sem dæmi, fær fullan aflahlut, við skulum segja 6 millj., fyrir mánuðinn sem hann er veikur í landi. (Gripið fram í: Hann hefur það í samningum.) Hann hefur það í samningum, hárrétt. En hins vegar kemur það atriði, sem samgn. lagði til, að jafnað yrði á milli undirmanna og yfirmanna þannig að allir nytu sama réttar.

Þá segir í athugasemdum LÍÚ:

„Skilyrði fyrir auknum launagreiðslum eru takmörkuð við tvö ár og fjögur ár í þjónustu sama útgerðarmanns, þegar skilyrði fyrir auknum launagreiðslum verkafólks eru miðuð við þrjú ár til fimm ár.“

Þetta er hárrétt athugasemd. Þarna kemur vissulega fram mismunun á þessum tveimur starfshópum, sjómönnum og landverkafólki.

Þá segir í fjórða lagi:

„Með tillögum nefndarinnar eru sjómönnum tryggð sjö mánaða laun eftir fjögurra ára starf þegar verkafólki eru tryggð laun í sex mánuði eftir fimm ára starf. Ef þetta verður að lögum virðist augljóst að verkafólk mun óska samræmingar við þessar breytingar.“

Við það hef ég ekkert að athuga og ég óska þess innilega að verkafólk fái þessa lagfæringu þegar kemur að samningum þess.

Þá segir í fimmta lagi:

„Felld eru niður ákvæði um vinnuskyldu þegar sjómenn komast ekki til skips, en eru vinnufærir á ný vegna fyrri veikinda.“

Ég tók það fram í framsögu minni, að ég væri persónulega mótfallinn því að fella niður þessa grein, en til að ná samkomulagi um málið sættist ég á að taka þessa grein út. Ég vildi hafa hana inni.

Ég tel harla undarlegt ef sjómaður, t. d. á farskipi, sem á að fara í tveggja mánaða túr, en er veikur í 2–3 daga eða þá daga þegar skipið leggur frá landi, getur ekki unnið einhverja landvinnu ef hann verður frískur að tveimur dögum liðnum eftir að skip fer frá. Það er þetta einfalda atriði sem við verðum að horfast í augu við. Það hefði t. d. mátt hugsa sér að þarna kæmu ákvæði um menn sem eru á togurum, að þeir ynnu t. d. að netaviðgerðum. Hins vegar urðu menn sammála um að það væri mög erfitt að koma slíkum breytingum við vegna þess að störf á sjó væru það sérhæfð að það væri í fáum tilvikum hæ~t að koma mönnum í sambærileg störf í landi.

Í sjötta lagi segir LÍÚ:

„Felld eru niður ákvæði um tilkynningarskyldu í veikindatilfellum og réttindamissi ef vanrækt er að skila læknisvottorði.“

Ég heyrði á hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni að hann tók undir þetta — eða var það hv. þm. Halldór Blöndal, það var hann líklega, sem tók undir það, að sér þætti óeðlilegt að sjómönnum bæri ekki skylda til að gera grein fyrir veikindum sínum og að trúnaðarlæknir t. d, útgerðarfélags gæti ekki farið til sjómanns og kannað eða sannreynt að hann væri í raun og veru veikur.

Síðan segir LÍÚ:

„Allar þessar breytingar eru svo íþyngjandi fyrir útgerðina að ekki er viðunandi, og ef þessar breytingar ná fram að ganga er stefnt til stórfelldra átaka í kjarasamningum útvegsmanna og sjómanna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

Þetta hef ég heyrt áður. Ég held að það megi segja að nær undantekningarlaust fyrir hverja einustu kjarasamninga, sem hafa farið fram, hafa orð eitthvað þessu lík fallið.

Þá segir að lokum í bréfinu:

„Eins og nú er komið virðist eðlilegt að máli þessu verði frestað til hausts og leitað verði eftir samkomulagi milli útvegsmanna og sjómanna um lausn þess.

Með tilvísun til framanritaðs leyfum vér oss að óska eftir að hæstv. samgn. beiti sér fyrir frestun málsins til þess að komið verði í veg fyrir átök um mál sem sanngjörn lausn ætti að geta fundist á. Að öðru leyti leyfum vér oss að vísa til bréfs vors, dags. 28. apríl s. l., þar sem vér gerðum tillögur um breytingar á umræddu frv.“

Herra forseti. Ég man ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég lýsti því í upphafsorðum mínum hér að ég vildi að þær breytingar, sem í frv. felast og brtt., næðu fram að ganga.

Um brtt. hv. þm. Steinþórs Gestssonar vil ég aðeins segja og hún er orðuð ögn öðruvísi en sama setning og vísað er til í frv., en hún hefur raunverulega sama gildi vegna þess að í samningum, sem nú eru í gildi, hafa yfirmenn þessa tvo mánuði, en undirmenn ekki, þannig að hún leiddi eingöngu til þess að þessi þáttur frv. yrði óbreyttur áfram.