14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er nú til 2. umr., frv. til 1. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, var hinn 21. jan. s. l. sent félmn. Ed til meðferðar.

Endurskoðun á skipan húsnæðismála og undirbúningur að nýrri heildarlöggjöf um húsnæðismál og starfsemi Húsnæðismálastofnunar ríkisins hefur staðið um alllangt skeið og ýmsar n. unnið að þeim undirbúningi. Þrátt fyrir alla þá vinnu, margvíslegar athuganir og útreikninga er eðlilegt að það hafi tekið félmn. nokkurn tíma að vinna að máli þessu, auk þess sem hún hefur að undanförnu haft ýmis önnur stórmál til meðferðar. Auk þess er rétt að minna á að raunverulegur starfstími þessa þings hefur verið stuttur og ýmis áríðandi mál, sem verða að fá afgreiðslu á hverju þingi, hafa orðið að sitja í fyrirrúmi. Ég dreg því ekki dul á að ég tel að n. hefði þurft enn þá betri tíma til að fjalla um svo veigamikla löggjöf sem þá er hér er nú til meðferðar.

Nefndarmenn voru hins vegar allir sammála um að þeir vildu gera sitt besta til að koma málinu fram og afgreiða það nú á þessu þingi, því það eru fleiri mál þýðingarmikil en efnahagsmálin, fjárlög, skattalög o. fl. og húsnæðismál eru einhver stærstu og þýðingarmestu mál hvers einstaklings og hverrar fjölskyldu. N. hefur því haldið marga fundi og kvatt á sinn fund fulltrúa frá ýmsum félagasamtökum og þeim aðilum sem hún taldi að sérstakra hagsmuna hefðu að gæta varðandi skipulag húsnæðismála. Þá komu og fjölmargar aths. og brtt. frá flestum þeim aðilum sem fengu frv. til umsagnar. Lagði n. mikla vinnu í að yfirfara og bera saman öll þau gögn er bárust. Unnið var að málinu á þann hátt að n. flytti sameiginlega þær brtt. sem allir nm. voru algjörlega sammála um. Virtist um tíma sem samstaða gæti náðst um þó nokkurn hluta af þeim till. sem til umr. voru. En þegar margir aðilar með ólík sjónarmið — í sumum tilfellum í grundvallaratriðum — ákveða að standa saman að því, sem allir eru sammála um, og flytja sértill. um ágreiningsmálin er hætt við að fátt verði sameiginlegt, þó ekki beri alltaf mikið í milli.

N. varð sammála um að leggja fram 11 brtt., sem fluttar eru á sérstöku þskj., og leggur til að frv. verði samþ. með þeim breytingum. Einstakir nm. hafa fyrirvara á meðmælum sínum og áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja sérstökum brtt. sem fram kunna að koma. Mun ég nú gera grein fyrir þeim till. sem n. flytur sameiginlega og birtar eru á þskj. 507.

1. brtt. er við 5. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að forstjórar- og framkvæmdastjórafyrirkomulagið verði ekki tekið upp eins og frv. gerir ráð fyrir. Ekki liggur fyrir að þörf sé á slíku stjórnunarbákni innan stofnunarinnar og er því lagt til að halda sig í meginatriðum við það skipulag sem nú er á stofnunni.

2. brtt. er við 7. gr. og er þar lagt til að fellt sé niður orðið „endurhæfing“, enda ekki málvenja að tala um endurhæfingu húsnæðis.

3. brtt. er við 20. gr. Er þar lagt til að lána megi viðbótarlán til endurbóta og viðbygginga þeim sem keypt hafa eldra húsnæði og fengið sérstakt lán til þess.

Í 4. brtt., við 26. gr., er lagt til að niður falli orðin „fyrir milligöngu viðskiptabanka“, ef veitt er skammtímafyrirgreiðsla vegna endurbóta og lagfæringa. Orðin „fyrir milligöngu viðskiptabanka“ eru felld niður.

Í 5. brtt., sem er við 27. gr. frv., bætist ný mgr. við greinina, sem hljóðar svo: og staðfesting á því að umsóknin sé ekki lánshæf hjá sérsjóðum iðnaðarins. — Þar er lagt til að lán vegna tækninýjunga í í byggingariðnaði séu ekki veitt frá Húsnæðismálastofnun hafi viðkomandi fengið lán út á slíkt hjá sérsjóðum iðnaðarins.

6. brtt. er við 29. gr. frv. Í a-lið er lagt til að niður falli orðið „viðurkenndum“ þegar rætt er um framkvæmdaaðila, enda ekki ljóst hver á að gefa út eða staðfesta slíka viðurkenningu. Slíkt hlýtur að verða mat húsnæðismálastjórnar. Rétt er þó að geta þess, að n. varð sammála um að það væri ótvírætt að byggingarsamvinnufélög féllu undir skilgreininguna „framkvæmdaaðilar“ og þyrfti því ekki að geta þeirra sérstaklega. Nokkur umræða varð um hvort þau ættu að koma þar inn sérstaklega tilgreind, en ekki talin ástæða til, miðað við framangreindan skilning.

B-liður 6. brtt. er nánast orðalagsbreyting og mun ég ekki geta þess frekar á öðrum stöðum þar sem slíkt er lagt til.

7. brtt. er við 32. gr. Þar er lögð til einföldun á ákvæðum um stærð staðalíbúða og flokkun umsækjenda í lánaflokka og lagt til að slíkt sé ákveðið með reglugerð.

8. brtt., við 33. gr., er eingöngu fólgin í því að heimila stjórnum verkamannabústaða að kaupa íbúðir. Breytingin er fólgin í því, að þar kemur í viðbót að stjórnum verkamannabústaða sé heimilt að kaupa íbúðir, en verði ekki eingöngu háðar því að þurfa að byggja. Hér er þó fyrst og fremst átt við nýjar íbúðir sem byggðar væru af viðurkenndum — ef ég leyfi mér nú að nota það orð hér — framkvæmdaaðilum og fengjust keyptar á góðu verði, enda féllu þær að öðru leyti undir þær kröfur sem Byggingarsjóður verkamanna setur. Á þetta við bæði 1. og 2. lið þessarar brtt.

9. brtt. er við 40. gr. Her er lagt til að afnumin séu stærðarmörk íbúða í verkamannabústöðum og séu þær aðeins háðar almennum ákvæðum laganna um stærðir staðalíbúða. Með þessu ákvæði og heimildinni, sem ég gat um áðan, til að kaupa nýjar íbúðir sem verkamannabústaði er leitast við að komast hjá þeirri flokkun sem orðið hefur á húsnæði, annars vegar í verkamannabústaði er leitast við að komast hjá þeirri flokkun sem orðið hefur á húsnæði, annars vegar í verkamannabústaði og hins vegar í aðrar íbúðir.

10. brtt., við 78. gr., fjallar um gildistöku laganna. Frv. var lagt fram fyrir s.1. áramót og gerði ráð fyrir gildistöku 1. jan. 1980. Hér er lagt til að lögin öðlist gildi 1. júlí 1980 með þeirri einu undantekningu að áfram verði í gildi lög nr. 59/1973, sem fjalla um byggingarsamvinnufélög.

Þá er komið að 11. og síðustu sameiginlegu brtt., sem er við ákvæði til bráðabirgða. Nauðsynlegt er að kveða skýrt á um það við setningu þessara laga, hvernig fara skuli með þær byggingar sem nú er unnið að í verkamannabústöðum, vegna þess að lánakjör breytast með verðtryggingu lánanna og hlutdeild sveitarfélaganna breytist með tilkomu þeirra laga sem hér er unnið að. Sama gildir um leigu- og söluíbúðir sveitarfélaganna sem nú eru í byggingu samkv. lögum nr. 38/1976. Lagt er til að ljúka öllum þeim íbúðum sem nú eru í byggingu eða samið hefur verið um. Jafnframt er ákveðið með því ákvæði til bráðabirgða, sem hér er lagt til, að þær íbúðir, sem fyrirhugað var að byggja samkv. því kerfi, en ekki eru hafnar framkvæmdir við, verði byggðar sem verkamannabústaðir eða leiguíbúðir sveitarfélaga samkv. þeim kafla þessa frv. sem fjallar um félagslegar íbúðir.

Þá hef ég lokið við að gera grein fyrir þeim brtt. sem n. flytur sameiginlega og var einhuga um að standa saman að. Mun ég þá gera grein fyrir brtt. sem birtar eru á þsk. 508 og ég hef leyft mér að flytja ásamt þeim hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og Stefáni Guðmundssyni. Ég mun einnig leyfa mér að fjalla um þessar brtt. á þann hátt að ræða fyrst og fremst um efnisatriði þau sem mestu varða. Í þessum brtt. er mikið af leiðréttingum á tilvitnunum, af því að inn í frv. bætast greinar og niður eru felldar greinar samkv. okkar brtt., og er því mikið af till., sem birtar eru hér á mörgum blöðum, aðeins tilvitnunargreinar. Sumar þeirra skýra sig sjálfar og ætti því að vera óþarfi að fjalla ítarlega um hverja og eina. Ég mun gera lítils háttar grein fyrir þessum brtt., en mikilvægustu efnisþættir þeirra, sem hér liggja fyrir, eru eftirtalin fimm atriði:

Í fyrsta lagi er hlutur verkamannabústaða stóraukinn frá því sem frv. gerir ráð fyrir með því að ætla Byggingarsjóði verkamanna fastan tekjustofn. 1% launaskattur, sem lagt er til að frá næstu áramótum renni í sjóðinn, gerir á þessu ári nærri 5 milljarða. Slíkar tekjur gera sjóðnum mögulegt að taka lán hjá lífeyrissjóðunum og öðrum lánastofnunum án þess að fjárhagsstöðu sjóðsins sé stefnt í nokkra hættu. Með þessari bættu stöðu getur sjóðurinn strax á næsta ári tekið að sér að fjármagna allar félagslega íbúðabyggingar í landinu, þó að byggingar verkamannabústaða stóraukist eins og að er stefnt með þeim brtt. sem hér eru lagðar fram. Eins og fram kom í yfirlýsingu ríkisstj. 29. apríl s. l. er að því stefnt að hafin verði bygging á 400 íbúðum í verkamannabústöðum á næsta ári, 500 íbúðum á árinu 1982 og 600 íbúðum á árinu 1983. Með því væru stór skref stigin til lausnar húsnæðisvanda láglaunafólks og jafnframt komið til móts við óskir verkalýðshreyfingarinnar um íbúðabyggingar á félagslegum grundvelli.

Í öðru lagi er ákvæði frv. um nýbyggingar til að útrýma heilsuspillandi íbúðum ófullnægjandi. Þar er aðeins gert ráð fyrir venjulegum nýbyggingarlánum til þeirra sem við slíkar aðstæður búa, en í flestum tilfellum ófullnægjandi og afturför frá því sem gert hefur verið á undanförnum árum. Í gildandi lögum, nr. 30/1970, er gert ráð fyrir mjög hagstæðum lánum til sveitarfélaga, sem vinna að íbúðabyggingum til útrýmingar á heilsuspillandi íbúðum, gegn mótframlagi hlutaðeigandi sveitarfélags. Lán þessi, sem nefnd eru C-lán hjá húsnæðismálastjórn, eru mjög eftirsótt og bíða nú á annað hundrað umsóknir eftir afgreiðslu hjá stofnuninni vegna þess að ekki er séð fyrir nægilegu fjármagni í þennan þátt. Það er því mjög brýnt að taka af nokkrum myndarskap á þessu máli, eins og gert er með þeim brtt. sem hér liggja fyrir.

Í þriðja lagi er þar til að taka að frv. hæstv. fyrrv. félmrh. gerir ráð fyrir að vextir af almennum húsnæðislánum verði 3.5%. Þegar ákveðið er að full verðtrygging sé á öllum lánum til íbúðabygginga eru það of háir vextir miðað við núverandi aðstæður. Vextir af öllum lánum frá Byggingarsjóði ríkisins eru nú 2%. Allir lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna hafa einnig ákveðið 2% vexti af öllum verðtryggðum lánum. Því er sú till. gerð hér, að vextir verði lækkaðir frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, úr 3.5% í 2%.

Fjórða atriðið er: Lán til nýrra íbúða hafa nú í heilan áratug verið veitt til 26 ára. Sá lánstími hefur þótt viðunandi miðað við ástand fjármála hjá okkur á liðnum árum, þó að hann sé miklu skemmri en tíðkast í flestum nálægum löndum. Frv. gerir hins vegar ráð fyrir að þessi lánstími sé styttur í 21 ár. Brtt. okkar gera ráð fyrir að lánstíminn verði óbreyttur frá því sem hann hefur verið, þ. e. 26 ár á almennum lánum til nýbygginga og 42 ár til verkamannabústaða, þó að full þörf væri á því að lengja þennan lánstíma.

Í fimmta lagi: Í fyrrnefndum lögum, nr. 30/1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, var ákveðið að fjármagna verkamannabústaðabyggingar þannig að kaupendur þeirra greiddu 20% af byggingarkostnaði, en Byggingarsjóður ríkisins lánaði almennt íbúðarlán til hverrar íbúðar sem að jafnaði hefur verið um 30% af byggingarkostnaði. Eftirstöðvarnar, u. þ. b. 50% af kostnaði, hafa ríkissjóður og hlutaðeigandi sveitarfélag greitt að jöfnu. Þetta óafturkræfa framlag sveitarfélaganna, sem á þessu ári má áætla að verði nálægt 7 millj. kr. á hverja íbúð, hefur verið sveitarfélögum algjörlega ofviða miðað við fjárhagsstöðu þeirra. Af þeim ástæðum hafa byggingar verkamannabústaða nú nærri lagst niður. Aðeins mjög fá sveitarfélög eru nú með slíkar byggingar í gangi. Á þessum áratug, síðan fyrrnefnd lög voru sett, hefur aðeins verið hafin bygging á 918 íbúðum í verkamannabústöðum á öllu landinu. Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir verulegri breytingu á framlagi sveitarfélaganna. Með þeim brtt., sem hér eru lagðar fram, er lagt til að lækka hlut sveitarfélaganna í 10% af þeim lánum sem veitt verða á hverju ári til verkamannabústaða í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Jafnframt er ábyrgð sveitarfélaganna aukin á framkvæmdum við byggingarnar og er þess vænst að það leiði til aukins aðhalds og meiri framkvæmdahraða við byggingarnar.

Þessi fimm atriði eru að okkar mati mikilvægust í þeim brtt. sem við leggjum hér fram, en auk þess er í till. okkar fjölmargt varðandi framkvæmd þessarar mikilvægu löggjafar og vil ég leitast við að skýra nokkru nánar þær brtt. sem liggja fyrir á þskj. 508.

1. brtt.: Lagt er til að heiti laganna og þar með Húsnæðismálastofnunar ríkisins verði breytt í Húsnæðisstofnun ríkisins til samræmis við málvenju og heiti annarra stofnana í þjóðfélaginu. Tekinn er inn nýr kafli, sem verði I. kafli, þar sem fram kemur í tveimur mgr. helsta markmið laganna, sem með þessum brtt. er gert mótandi fyrir þá löggjöf sem hér er verið að setja.

2. brtt., við 1. gr. frv., á að skýra betur stefnumótun laganna og verkefni stofnunarinnar.

Brtt. við 2. gr.: Með brtt. okkar er verið að leggja áherslu á að stofnunin eigi að starfa sem ein heild til þess að fyllstu hagkvæmni verði gætt þrátt fyrir þá deildaskiptingu sem greinin kveður á um.

3. gr. fjallar um stjórnun Húsnæðismálastofnunar ríkisins eða Húsnæðisstofnunarinnar. Í brtt. okkar er lagt til að tveir fulltrúar tilnefndir af ASÍ taki sæti í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins ásamt sjö fulltrúum sem kosnir verða af Sþ. Með því er orðið við ítrekuðum kröfum verkalýðshreyfingarinnar um beina aðild að stjórn hins félagslega íbúðarlánakerfis, sem mörg rök hafa verið færð fyrir, en þó sérstaklega hlutdeild verkalýðshreyfingarinnar í fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins. Nú eiga átta menn sæti í stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar, en gert er ráð fyrir að aðild veðdeildar Landsbanka Íslands falli niður. Fjölgar því aðeins um einn mann í stjórninni við þessa skipan.

Ég ætla að leyfa mér að hlaupa yfir nokkrar brtt., sem eru aðeins orðalagsbreytingar eins og ég gat um í upphafi, og tek það sem ég tel að séu stærstu breytingarnar á þessu frv.

Við 6. gr.: Til að stuðla að fyrrnefndu markmiði, að stofnunin verði rekin sem ein heild, er lagt til að kostnaðurinn við reksturinn greiðist af Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna í hlutfalli við útlán sjóðanna. Einnig er talið eðlilegt að sjóðirnir greiði kostnað við yfirstjórn stofnunarinnar, eins og lagt er til með brtt. við 3. gr.

Við 8. gr.: Með brtt. við 4. tölul. 8. gr. er opnuð heimild fyrir húsnæðismálastjórn til sölu á skuldabréfum til ýmissa sjóða á almennum markaði til fjáröflunar í samræmi við lánsfjáráætlun ríkisstj. og í samráði við Seðlabanka Íslands.

Við 9. gr.: Háværar kröfur hafa verið uppi um að afgreiðslur lána og innheimtur þeirra væru færðar út á land fyrir þá sem þar búa. Því er lagt til að fela húsnæðismálastjórn að semja við lánastofnanir um slíka þjónustu, jafnframt því sem viðskiptum verði haldið áfram við veðdeild Landsbanka Íslands.

Við 10. gr. bætist ný málsgrein þar sem heimilað er húsnæðismálastjórninni að ákveða nýja lánaflokka að fengnu samþykki félmrh.

Við 12. gr. frv.: Heimild er opnuð fyrir húsnæðismálastjórn til að skerða lán til þeirra sem áður hafa fengið lán úr hinu almenna veðlánakerfi. Um slíka skerðingu þarf að setja nánari ákvæði í reglugerð og beita henni með mannlegri tillitssemi. Tilgangur slíkra takmarkana er að sjálfsögðu sá að hafa meira fjármagn til lánveitinga til þeirra sem enga íbúð eiga og hljóta að sitja í fyrirrúmi.

Brtt. við 13. gr. fjallar um lánstíma. Var ég búinn að ræða um það áðan og gera grein fyrir því.

Í 14. gr. frv., sem hér liggur fyrir, eru allítarlegar reglur um lánveitingar til kaupa á eldri íbúðum. Þær reglur kunna að verða góðar til leiðbeininga við vinnslu lánsumsókna, en eru að okkar mati ekki æskilegar sem ákvæði í lögum. Því er lagt til að lán til kaupa á eldra húsnæði verði árlega ákveðið sem hlutfall af lánum til nýbygginga og þeim, sem um lánsumsóknir fjalla, falið að setja hér starfsreglur.

Við 16. gr. er breytingin í því fólgin að lán til íbúða fyrir aldraða megi, eins og fram kemur í 2. mgr., nema sama hlutfalli af byggingarkostnaði staðalíbúðar fyrir viðkomandi aðila og lánað er á þvi ári samkv. 1. tölul. 11. gr. - 10. greinarinnar í frv.

Við 19. gr.: Lán til endurbóta á eldra húsnæði er eitt af nýmælum í frv. Lánaflokkur þessi er mjög mikilvægur og tímabært að taka hann upp, en líklegt er að ásókn verði mjög mikil í lán samkv. þessum flokki. Því er með brtt. lagt til að setja nokkru þrengri skorður við lánveitingum en eru í frv. og lánsfé megi samkv. því nema allt að 50% af byggingarláni út á staðalíbúð samkv. 35. gr.

Við 22. gr.: Áður er nokkuð minnst á lán til sveitarfélaganna, sem vinna að því að útrýma heilsuspillandi íbúðum, sem enn virðast vera í notkun í nokkrum mæli um allt land. Ekki getur talist mannsæmandi að una því að einstakir þjóðfélagsþegnar búi lengur við þær aðstæður að heilsufari þeirra stafi hætta af þeim sökum. Því eru á þessu þskj. þrjár greinar þar sem sett eru ákvæði um skyldu sveitarstjórnar til að láta kanna ástand húsnæðismála í sínu sveitarfélagi og senda skýrslu til húsnæðismálastjórnar ef um heilsuspillandi íbúðir er að ræða. Lögð er á sveitarfélögin sú kvöð að hafa forgöngu um útrýmingu á slíkum íbúðum og húsnæðismálastjórn heimilað að lána viðbótarlán til slíkra íbúða með góðum kjörum. Með sameiginlegu átaki sveitarfélaga og húsnæðismálastjórnar á að vera unnt að hreinsa á fáum árum þann smánarblett af þjóðfélaginu sem heilsuspillandi íbúðir eru. Sú nýbreytni er einnig tekin upp í brtt. að heimila lánveitingu til að endurbyggja gömul hús, sem orðin eru heilsuspillandi, en eru það vel byggð að dómi byggingarfróðra manna að hagkvæmt er talið að endurbyggja þau. Þetta kemur fram í 20., 21. og 22. brtt., sem fjalla um þessar nýju greinar sem koma inn í frv.

Við 23. gr.: Með nýrri mgr. til viðbótar við 23. gr. er húsnæðismálastjórn heimilað að veita lán vegna meiri háttar röskunar á högum, fráfalls maka eða vegna veikinda. Slíkum umsóknum þurfa þó að fylgja meðmæli félagsmálafulltrúa eða sveitarstjórnar.

Næstu brtt. eru mikið tilvitnana- og leiðréttingagreinar. Í 29. brtt., við 30. gr., er gert ráð fyrir breytingu á vöxtum sem ég er áður búinn að gera grein fyrir.

Við 34. gr., það er 31. brtt. okkar: Þar er lagt til að afgreiðslur lána úr Byggingarsjóði verkamanna og innheimtur þeirra megi fara fram í þeim lánastofnunum sem húsnæðismálastjórn semur við um slíka þjónustu. Er þarna um tilsvarandi ákvæði að ræða og um Byggingarsjóð ríkisins.

31. brtt. okkar: Stafliður b orðist svo:

„Með árlegum framlögum úr ríkissjóði sem nemi tekjum hans af 1% launaskatti og framlagi á fjárlögum ef með þarf til þess að framlag ríkissjóðs ár hvert nemi 30% af fjármagnsþörf sjóðsins.“

Hér er verið að fjalla um það ákvæði sem ég gat um í inngangi að þessum brtt. og er mikilvæg breyting á þessu frv.

Stafliður c hljóði svo:

„Með framlagi sveitarfélaga sem nemi 10% af því fjármagni sem Byggingarsjóður verkamanna lánar til verkamannabústaða í viðkomandi sveitarfélagi ár hvert.“

Þetta er einnig einn af þeim liðum sem ég gat um í upphafi sem einn af mikilvægustu þáttum brtt. okkar. Við 35. gr., þ. e. 32. brtt., er gert ráð fyrir að síðari málsliður falli niður, en þar er fjallað um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Eðlilegt er að sá málsl. sé felldur niður þar sem Byggingarsjóður verkamanna fær framlag sitt frá sveitarfélögunum af lánsupphæðinni þegar hún kemur til útborgunar frá Byggingarsjóði verkamanna. Þess vegna er ekki þörf á því að hafa ákvæði um Jöfnunarsjóðinn inni og eðlilegt að fella síðari málsl. niður.

34. brtt. er við 37. gr. Hér er lagt til að veruleg breyting verði gerð á skipan stjórnar verkamannabústaða. Horfið er frá því að húsnæðismálastjórn tilnefni menn í stjórn, en þess í stað er aðild launþegasamtakanna aukin verulega og gerð jöfn aðild sveitarfélaganna. Nýmæli er það ákvæði, að félög opinberra starfsmanna eiga nú að tilnefna einn fulltrúa í hverja stjórn. Með því er jafnframt undirstrikað að verkamannabústaðir yrðu ekki byggðir aðeins fyrir félagsmenn verkalýðsfélaganna, heldur og allt láglaunafólk. Þá er einnig nýmæli að hverfa frá því fyrirkomulagi sem viðgengist hefur í áratugi, að félmrh. skipi formenn stjórnar verkamannabústaða í hverju sveitarfélagi, heldur skulu stjórnirnar sjálfar skipta með sér verkum. Nauðsynlegt þótti þó að fjölga stjórnarmönnum í sjö í stærstu kaupstöðum landsins, þeim sem hafa yfir 10 000 íbúa. Til þess að raska ekki jafnræði launþega og fulltrúa kaupstaðanna í stjórnunum var valin sú leið að ráðh. skipi þennan viðbótarfulltrúa án tilnefningar.

Næstu breytingar sýnast mér allar orðalags- og tilvitunarbreytingar.

41. brtt. okkar er við 45. gr.brtt. hljóðar svo:

„a) Fyrir „15 50 stundir“ í 3. mgr. komi: 1032 stundir.

b) Fyrir „775 árlegar“ í 4. mgr. komi: 516 árlegar.“

Hér er verið að samræma vinnustundafjölda þeim reglum, sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur sett sér, og þau mörk látin gilda einnig varðandi úthlutun á mati eða lánshæfni einstaklinga til að komast inn í byggingarkerfi verkamannabústaða.

Þá kemur c-liður í þessari brtt.: „Á eftir 5. mgr. komi ný mgr., svo hljóðandi:

Enn fremur er heimilt að víkja frá stafliðum b og e þegar umsækjendur hafa orðið fyrir meiri háttar röskun á högum og hafa vegna fráfalls maka eða af öðrum ástæðum lækkað svo í tekjum að þeir geta ekki haldið íbúðum sínum. Umsóknum um lán samkv. þessari mgr. skal fylgja umsögn félagsmálastofnunar eða viðkomandi sveitarstjórnar.“

Þá held ég að ég staldri næst við 50. gr. frv., það er 45. brtt. okkar. Áður er á það minnst, að um leið og hlutdeild sveitarfélaga er minnkuð í kostnað við byggingar verkamannabústaða úr ca. 25% af kostnaðarverði í 10% af láni Byggingarsjóðs verkamanna er ábyrgð þeirra aukin á framkvæmd bygginganna. Húsnæðismálastjórn lánar 90% af áætluðu kostnaðarverði þeirra íbúða sem byggðar eru samkv. útreikningum á byggingarkostnaði svonefndrar staðalíbúðar sem um er rætt í 32. gr. frv. Verði byggingarkostnaðurinn meiri en áætlað kostnaðarverð staðalíbúðar, sem nú er venjulega nefnd vísitöluíbúð, auk framlags kaupanda íbúðarinnar, sem er 10% af kostnaðarverði, verður sveitarfélagið að greiða mismuninn.

Viðbótartill. er flutt við 50. gr., þar sem heimilað er að fresta afborgunum af lánum ef tekjur þeirra, sem kaupa íbúðir í verkamannabústað, lækka svo mikið að greiðslur afborgana og vaxta af lánum verði óbærilegar. Könnun hefur farið fram í Þjóðhagsstofnun á því, hver greiðslubyrði af verðtryggðum 90% lánum verði hjá kaupendum íbúða í verkamannabústöðum. Niðurstaða þeirra athugana er sú, að um hóflega greiðslubyrði verði að ræða hvort sem miðað er við það, sem fólk leggur almennt á sig til þess að eignast húsnæði, eða miðað er við húsaleigu fyrir sambærilegar íbúðir. Með þeim lánskjörum, sem hér er gert ráð fyrir, þar sem lánstíminn er 41 ár og vextir 1/2%, erum við mjög nálægt því greiðslufyrirkomulagi sem mjög er tíðkað á Norðurlöndum og kennt er við kaupleigusamninga.

47. brtt. er við 52. gr. Þar segir: „Fyrir 3% „kaupverðsins“ komi: 2.5% kaupverðsins.“ Er það leiðrétting til samræmis við breytingu á lánstímanum frá frv. og til okkar brtt. á lánum verkamannabústaða.

54. brtt. okkar er við 59. gr. Með þeim brtt., sem hér eru fluttar, eru afnumin öll sérákvæði um stærðarmörk verkamannabústaða og annað sem verið hefur í lögum og enn er í þessu frv. Með því er verið að leitast við að komast hjá þeirri flokkun í íbúðir verkamannabústaða og aðrar íbúðir sem nokkuð hefur borið á til þessa og ég gerði einnig grein fyrir áðan.

Við 63. gr. er 58. brtt. okkar. Þar er lagt til að tekin verði ákvörðun um það með löggjöf að allar þær íbúðir, sem byggðar hafa verið hér í Reykjavík af Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar, verði hér eftir alfarið undir stjórn verkamannabústaða í Reykjavík og verði þannig til frambúðar inni í hinu félagslega kerfi íbúðarbygginga hér í borginni. Félmrh. er ætlað það hlutverk að gæta hagsmuna annarra sveitarfélaga, sem hlutdeild áttu að byggingum Framkvæmdanefndarinnar, með setningu reglugerðar um rétt þeirra til íbúðanna við endurúthlutun.

Við 70. gr. er 62. brtt. okkar. Frv. gerir ráð fyrir verulegri lagfæringu á meðferð skyldusparnaðar ungs fólks. Er þar gert ráð fyrir að fé þetta beri sömu vexti og og eru á lánum samkv. 1. tölul. 10. gr. frv. og sé verðtryggt samkv. lánskjaravísitölu Seðlabanka Íslands. Í brtt, okkar eru þessi ákvæði óbreytt, en skilgreint nokkru nánar en í frv. hvernig verðtrygging skal reiknast og hvernig farið skal með vextina. Er þar gert ráð fyrir að hægt sé að taka spariféð út á þeim tíma sem hentast er hverjum einstaklingi miðað við lánskjaravísitölu þess mánaðar er úttekt fer fram. Ætti með þessu formi ekki að skapast það ástand sem nú ríkir, að beðið sé eftir einhverjum ákveðnum tíma, t. d. áramótum, til að fá bestu kör á fé sitt. Þá er í brtt. gert ráð fyrir að vextir leggist við höfuðstól um áramót og verðtryggist síðan á sama hátt og höfuðstóllinn.

Varðandi þetta mál vil ég taka fram, að ljóst er að með þessu er ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs skert og á því máli verða stjórnvöld að taka. Þessari ávöxtun skyldusparnaðarins varð að breyta og láta þar sitja í fyrirrúmi sjónarmið unga fólksins. Tilgangurinn með þessum skyldusparnaði er að tryggja stöðu ungs fólks þegar kemur að íbúðarkaupum eða byggingu og mega ekki sjónarmið Byggingarsjóðsins eins sitja þar í fyrirrúmi. Að teknu tilliti til skattfrelsis skyldusparnaðarins er ljóst að þetta fé er þjóðfélagslega dýrt. En það verður að skoðast sem skerfur okkar, sem eldri erum, til að aðstoða unga fólkið þegar kjörin hafa verið leiðrétt svo sem hér er gert ráð fyrir, og þá verða þetta einhver bestu kjör á sparnaði sem hægt er að fá. Verður því að telja líklegt að sparnaðurinn aukist og ásókn fólks í að ná þessu fjármagni út minnki.

Þá er og gert ráð fyrir í till. okkar að dregið verði úr undanþáguákvæðum og heimildum til að taka út þetta skyldusparnaðarfé. Er það m. a. gert með næstu brtt. sem gerir ráð fyrir því, að 71. gr. frv., um undanþágur, verði felld niður, þó með þeirri undantekningu að þeir, sem búa við varanlega örorku, eru undanþegnir sparnaðarskyldu. Er það brtt. okkar við 72. gr., 64. brtt.

Þá er komið að síðustu brtt., sem er við ákvæði til bráðabirgða. Þar segir: „Ákvæði stafliðar b í 37. gr. tekur gildi frá og með 1. jan. 1981.“ — Er hér fjallað um þá brtt. sem við flytjum og fjallar um árleg framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna, 1% af launaskatti og framlag á fjárlögum ef með þarf til þess að framlag ríkissjóðs ár hvert nemi 30% af fjármagnsþörf sjóðsins.

Síðasta brtt. er nú reyndar sú, sem ég gat þó um fyrst, 66. brtt. Fyrirsögn frv. breytist þannig; Í stað „Húsnæðismálastofnun ríkisins“ komi: Húnsnæðisstofnun ríkisins.

Ég hef nú farið yfir allar brtt. sem ég er meðflm. að, bæði sameiginlegar till. n. svo og þær till. er ég flyt ásamt hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og Stefáni Guðmundssyni. Til að spara tíma hef ég þó reynt að fjalla um þær efnislega og útskýra áhrif og forsendur breytinga, en ekki farið í hvert smáatriði. Vona ég að þetta sé nægjanlegt og till, skýri sig að öðru leyti sjálfar.

Mér er fullljóst að með frv. þessu og brtt., sem samþykktar kunna að verða, er sett löggjöf sem eykur verkefni húsnæðismálastjórnar ríkisins og miðar að því að auka öryggi í húsnæðismálum, en það tekur tíma að þessi löggjöf nái marki sínu í öllum atriðum og fer að sjálfsögðu að verulegu leyti eftir því fjármagni sem hægt er að setja í þennan félagslega þátt þjóðlífsins, húsnæðismálin, á næstu árum.

Að lokum vil ég eindregið vonast til þess, að okkur takist að afgreiða mál þetta sem lög frá Alþingi áður en það lýkur störfum í næstu viku.