14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2630 í B-deild Alþingistíðinda. (2620)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum hér að fjalla um mál sem okkur blandast ekki hugur um að er mjög mikilvægt. Húsnæðismálin eru ein af þeim málum sem eru mikilvægust. Það er vegna þess að það eru fá mál sem varða meir hag almennings í landinu en einmitt húsnæðismálin. Það hefur líka verið svo, að Íslendingar leggja ákaflega mikið upp úr því, að ástand húsnæðismálanna sé sem best, og þeir leggja mikið upp úr því að eiga sjálfir sitt húsnæði. Þetta þekkjum við og þarf ekki að ræða sérstaklega.

En við erum hér að ræða frv. sem varðar fyrst og fremst lánsfjármal, lánveitingar til fólks til þess að það geti komið sér upp þaki yfir höfuðið. Það er svo, að um lagt skeið hafa verið tvö íbúðalánakerfi í landinu sem hafa það hlutverk að fullnægja þessum þörfum. Það frv., sem við hér ræðum um, varðar einmitt þessi tvö veðlánakerfi. Þar er annars vegar hið almenna veðlánakerfi eða Byggingarsjóður ríkisins og þar er hins vegar hið félagslega veðlánakerfi eða Byggingarsjóður verkamanna.

Ég hef litið svo á, að það væri ekki hægt að tala um viðunandi ástand í lánamálum húsbyggjenda, hvað þá heldur gott, nema svo sé búið að málum að almenningur í landinu geti staðið undir þeim lánum sem hið almenna veðlánakerfi hefur að bjóða, m. ö. o. að lánskjörin: lánstími, lánsupphæð, vextir, allt sé þetta sniðið við hæfi almennings í landinu, að hinn almenni launamaður geti notfært sér þessi lán og geti af launatekjum sínum staðið undir greiðslubyrðinni. En jafnframt hef ég alltaf talið að það væri nauðsynlegt að hafa annað veðlánakerfi til að mæta þörfum þeirra sem allra verst eru settir í þjóðfélaginu, til þess einnig að koma þeim til aðstoðar þannig að þeir geti einnig eignast húsnæði. Til þess að svo megi verða þurfa þeir að fá miklu meiri aðstoð opinberra aðila en hið almenna veðlánakerfi veitir. Það er þetta kerfi sem Byggingarsjóður verkamanna stendur undir.

Vegna eðlis þessara mála hef ég talið að það væri einsýnt, að æskilegast væri að kerfi Byggingarsjóðs verkamanna væri sem minnst, næði til sem fæstra, bæði vegna þess að eftir því sem er um minni hluta þjóðarinnar að ræða sem nyti kjara Byggingarsjóðs verkamanna, eftir því væri hægt að gera þessi kjör betri, léttbærari fyrir þá sem minnst mega sín. Og einnig er það að sjálfsögðu keppikefli í þjóðfélagi okkar að þessi hópur þegnanna sé sem fámennastur.

Ég hef hér komið með fáum orðum inn á atriði sem gera grein fyrir viðhorfum mínum til þessara mála. Það, sem ég segi hér á eftir, er að sjálfsögðu mjög mótað af þessum viðhorfum.

Frv., sem við nú ræðum, kom fyrst til umr. í janúar s. l. Það hlaut þá þegar ítarlega umræðu. Það var mikið rætt við umr. g lýsti þá skoðun minni á þessu frv. Ég tók fram að í þessu frv. væri margt athyglisvert og í sjálfu sér æskilegt. Það væri verið að auka verkefni byggingarsjóðanna og Byggingarsjóðs ríkisins stórlega. Það gætu engir í sjálfu sér haft á móti því að það væri gert. Það væru teknir upp nýir lánaflokkar sem ekki hafa áður verið fyrir hendi, eins og t. d. að veita sérstök viðbótarlán til einstaklinga með sérþarfir, lán til orkusparandi breytinga á húsnæði, lán til tækninýjunga í byggingariðnaði, svo eitthvað sé nefnt. Enginn getur verið á móti þessu.

En það var eitt sem var að þessu frv. og ég lagði strax áherslu á við 1. umr. Um leið og verkefni veðlánakerfisins er stóraukið eru engar tillögur í þessu frv. um að eflt. tekjustofna kerfisins til að mæta þeim þörfum sem hin nýju verkefni skapa. Þetta er að sjálfsögðu megingalli frv. og svo alvarlegur að furðu gegnir. Það er svo, að þegar húsnæðislöggjöfin hefur verið endurskoðuð áður og heildarendurskoðun farið fram, eins og nú hefur verið gert, þá hefur alltaf verið leitast við að efla tekjustofna veðlánakerfisins, treysta þá, auka þá. Og í raun og veru hefur það verið mestur vandinn alltaf, þegar þessi löggjöf hefur komið til endurskoðunar. Það er svo, að alltaf hefur verið mikil þörf á að auka tekjustofna veðlánakerfisins þó að jafnframt væri ekki um aukin verkefni að ræða. Það er vegna þess að frá upphafi, þegar þetta kerfi var sett á laggirnar 1955, voru lánin allt of lág. Þau voru allt of lág miðað við byggingarkostnaðinn. En það voru þá uppi fyrirætlanir um að þetta yrði smám saman lagað, bætt yrði úr.

Þegar veðlánakerfið var fyrst stofnað var lánahlutfall miðað við byggingarkostnaðinn eitthvað um 30% eða milli 30 og 40%. Það var alltaf stefnt frá upphafi á það markmið að lánið kæmist upp í t. d. 80%, en mjög hægt hefur gengið að þoka sér í þá átt. Þegar best gegndi, fyrir u. þ. b. 10 árum, var lánahlutfallið eða lán Byggingarsjóðs ríkisins orðið um 40% af byggingarkostnaði venjulegrar íbúðar. Síðan hefur þessu hrakað. Þess vegna er það að í raun og veru hefði þurft að efla stórlega tekjur veðlánakerfisins við þessa endurskoðun þó að engin aukning hefði verið á verkefnum Byggingarsjóðs ríkisins eða veðlánakerfisins, en eins og ég sagði áðan er engin ákvæði að finna í frv. sjálfu um auknar tekjur til handa veðlánakerfinu, hvorki vegna þeirra verkefna sem fyrir voru né til þeirra verkefna sem við bætast. Hér er um það alvarlegasta að ræða varðandi þetta frv., og hér er ekki um neitt lítilræði að tefla. Samkv. grg. frv. er gert ráð fyrir að þegar í framkvæmd séu komnar þær breytingar, sem það felur í sér, þurfi 10 milljarða á ári umfram fyrri fjármagnsþörf veðlánakerfisins. Þessir 10 milljarðar eru miðaðir við verðlag ársins 1979. Svo alvarlegt er þetta mál sem snýr að fjárhagshliðinni.

Ég hygg að allir hafi gert ráð fyrir því, að við meðferð þessa máls yrði lögð sérstök áhersla á að sjá veðlánakerfinu fyrir nýjum tekjustofnum eða efla þá sem fyrir eru. Ég gerði ráð fyrir að hvaða ríkisstj. sem væri mundi við meðferð málsins leggja sig fram um að leysa þetta mál. Eins og okkur er kunnugt tók núv. ríkisstj. við völdum eftir að þetta frv. var lagt fram. Bæði mér og öðrum fulltrúum í hv. félmn. þessarar d., sem fékk frv. þetta til meðferðar, þótti að það væri nánast til lítils fyrir n. að vinna í þessu máli nema hún fengi einhverjar vísbendingar um hvað ríkisstj. hygðist fyrir varðandi fjármálin. Ég tilkynnti hæstv. félmrh. þetta fyrir allmörgum vikum í samráði við hv. félmn. Ég hélt að þetta mál mundi ekki koma frekar á dagskrá nema það væru ákveðnar tillögur í fjáröflunarmálunum. Nú þegar frv. þetta og vinna við það kemst á skrið í hv. félmn. fyrir u. þ. b. 10 dögum liggja fyrir hugmyndir ríkisstj. m. a. um fjáröflun til kerfisins. Ég verð að segja að það er raunar ofmælt að mínu viti, að það hafi legið nokkrar raunhæfar tillögur fyrir frá hæstv. ríkisstj. um þetta efni. Skal ég koma að því nánar.

Mér þótti rétt að fara þessum orðum um þetta frv., tilkomu þess og eðli, áður en lengra er haldið.

Eins og fram kom hjá hv. frsm. n., hv. 5. þm. Norðurl. e., leggur n. til að frv. verði samþ., en einstakir nm. hafa fyrirvara á þessum meðmælum og áskildu sér rétt til að bera fram brtt. Ég ásamt hv. þm. Guðmundi Karlssyni og Salome Þorkelsdóttur ber fram brtt. á þskj. 509. Mér þykir rétt að gera hér grein fyrir þessum brtt. Við sem stöndum að þessum brtt. erum að sjálfsögðu aðilar að þeim brtt. sem n. flytur sameiginlega og hv. frsm. n. hefur gert grein fyrir. Ég sé ekki ástæðu til að ræða neitt frekar eða bæta við það sem hv. frsm. n. sagði varðandi þær till. sem félmn. ber fram. Ég sný mér því beint að því að ræða till. þær sem fluttar eru á þskj. 509.

1. till. þar er við 2. gr. frv. Í 2. gr. frv. eru fyrirmæli um að Húsnæðismálastofnun skuli starfa í þrem deildum. Það skal vera ein deild fyrir almenn íbúðaveðlán, önnur deild fyrir félagslegar íbúðir og þriðja deildin sé tæknideild. Við sjálfstæðismenn, sem flytjum brtt. við 2. gr. frv., teljum að frv. gr. sé talandi tákn um tilhneigingu til að auka og stækka þá stofnun sem við fjöllum um, Húsnæðismálastofnun ríkisins. Það er engin þörf á slíku. Auk þess ber að varast að stefna að því að þessi stofnun vefji utan á sig og velti á sig stöðugt nýjum viðaukum án eðlilegs tillits til raunverulegra verkefna. Með tilliti til þessa er till. okkar, fyrsta till. á þskj. 509, borin fram, en hún er á þá leið, að 2. gr. frv. orðist svo sem þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Húsnæðismálastjórn ákveður deildaskiptingu stofnunarinnar.“

Þá er 2. brtt. okkar á sama þskj. Hún er við 4. gr. frv. sem fjallar um skilgreiningu á hlutverki húsnæðismálastjórnar. Þar er hlutverkið tilgreint í sex töluliðum. Við leggjum til að þrír fyrstu tölul. verði felldir niður. 2. tölul. viljum við fella niður vegna þess að það er óeðlilegt að tala um að stjórn einnar stofnunar skuli hafa eftirlit með starfsemi hennar. Hún á auðvitað að hafa stjórn hennar á hendi. 3. liðurinn leggjum við til að verði lagður niður vegna þess að það getur verið villandi að taka sérstaklega fram að húsnæðismálastjórn eigi að skera úr vafa- eða ágreiningsmálum varðandi einstaka lánveitendur. Það er villandi vegna þess að það er auðvitað húsnæðismálastjórn sem ákveður lánveitingar, hvaða vinnubrögð eða vinnutilhögun sem höfð er á því. Hvorki það að sjá um lánveitingar né að skera úr einhverjum ágreiningsmálum í því efni þarf að taka fram vegna þess að það tilheyrir stjórn stofnunarinnar. í tölul. er á þá leið, að húsnæðismálastjórn eigi að marka meginstefnu Húsnæðismálastofnunarinnar. Við teljum að þá þrjá töluliði 4. gr., sem ég hef hér gert grein fyrir, eigi að fella niður og inn eigi að koma einn töluliður sem inniheldur þetta allt. Hann er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: Það sé hlutverk húsnæðismálastjórnar „að fara með stjórn Húsnæðismálastofnunar ríkisins, Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna.“ — Það er smábreyting sem við gerum við 6. tölul. Hann skýrir sig sjálfur. Ég sé ekki ástæðu til að fara orðum um það.

Þá er 3. brtt. okkar, við 6. gr. frv., um að 1. mgr. orðist svo sem þar greinir. Ég bið menn að bera saman þessa brtt. og 1. mgr. 6. gr. frv. Þá sjá menn að það er eðlilegra og einfaldara orðalag á brtt. okkar, og skal ég ekki fara frekari orðum um það.

4. brtt. er við 8. gr. frv. 8. gr. frv. er að sjálfsögðu mikilvægasta grein þessa frv. vegna þess að hún fjallar um fjáröflunina eða fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins. Við, sem stöndum að brtt. á þskj. 509, höfum því till. um miklar breytingar að gera á þessari grein. Er það augljóst af því sem ég hef áður sagt um fjáröflun til byggingarkerfisins.

A-liður brtt. okkar við 8. gr. frv. er um að 2. tölul. orðist svo sem þar segir. Breytingin er fólgin í því, að það er tekinn út „launaskattur“, sem er í þessum tölulið frv., sem er harla óljós og óskilgreindur, en töluliðurinn heldur sér að öðru leyti efnislega. Við verðum samt ekki viðskila við launaskattinn, því að í b-lið brtt. okkar er lagt til að nýr tölul. komi, er verði 6. tölul. og orðist svo, með leyfi hæstv. forseta, — þetta er um hvernig fjár er aflað til Byggingarsjóðs ríkisins og samkv. till. okkar byrjar hinn nýi töluliður þannig: „Með 31/2% launaskatti samkv. lögum nr. 14/1965 með síðari breytingum.“

Samkvæmt gildandi lögum er innheimtur 3.5% launaskattur. Launaskatturinn er til kominn og lagður á upphaflega og hefur alltaf verið varinn á þeim grundvelli að það væri til að afla fjár til hins almenna veðlánakerfis. Þetta voru ástæðurnar fyrir því að þessi skattheimta var upphaflega tekin upp, og alla tíð hefur þessi skattur gengið til húsnæðismála eða veðlánakerfisins að einhverju leyti. (Gripið fram í: Hvað gerir það mikið núna?) Það renna 2% í Byggingarsjóð ríkisins. Ég hygg að það megi segja að það séu um 11 milljarðar sem 2% gefa. Þá mundi 1% gefa 5.5 milljarða.

Samkvæmt lögum nú eiga 2% að ganga til veðlánakerfisins, en við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1980 var þessi upphæð skert um 3.8 milljarða kr. Samkv. fjárlögum er því núna ekki gert ráð fyrir að það fari af launaskattinum öll 2%, um 11 milljarðar, heldur um 7.1 milljarður, til veðlánakerfisins.

Þessi brtt. okkar þýðir í fyrsta lagi leiðréttingu á því sem gert var við afgreiðslu fjárlaga. Þetta er till. um að ekki verði skert þau 2% sem hafa gengið í þessar þarfir — og það veitir ekki af þó það væri miðað við óbreytt lög og ekki nein ný verkefni sem lögð væru á veðlánakerfið. En við gerum ráð fyrir að það 1.5%, sem samkv. lögunum fer núna í ríkissjóðinn, komi heim, eins og það hefði átt að gera strax, þ. e. að það komi í Byggingarsjóðinn. Það verður þá virt sem almenningi og skattborgurum var sagt þegar þetta gjald var upphaflega sett á og menn gátu miklu betur umborið í vissu um að andvirði þess gengi til þeirra þarfa sem um var að ræða, til aðstoðar húsbyggjendum í landinu. Ef við samþykkjum þetta frv., þar með hin nýju auknu verkefni, sem lögð eru á almenna veðlánakerfið, mun ekki veita af að efla tekjustofna þess um þessi 1.5% sem mundu bætast við. Eins og ég sagði áðan þýðir samþykkt þessa frv., eins og það var lagt fram, að það þarf 10 milljarða á ári til að mæta auknum verkefnum þegar frv. væri komið til framkvæmda.

Við teljum að það sé algjörlega óraunhæft að tala um þetta frv., hvað þá heldur að samþykkja það og leggja þessi nýju verkefni á veðlánakerfið, ef við mætum ekki fjárþörfinni. Það er miklu verra en að gera ekki neitt, því að þá værum við einungis að gefa falskar vonir sem engar efndir yrðu á.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þessa brtt., en hún er að sjálfsögðu hin mikilvægasta.

Við 8. gr. er svo enn ein brtt., það er c-liður 4. brtt. á þskj. 509. Þar er gert ráð fyrir að taka upp sem tekjustofn 1% lántökugjöld af lánum sem húsnæðismálastjórn veitir. Þetta er ekkert frumlegt eða í sjálfu sér merkilegt. Þetta er í gildandi lögum og okkur þykir sjálfsagt að hafa það áfram. Ekki mun af veita, þó að það dragi lítið. En það hefur fallið niður — ég læt mér koma til hugar að það sé af vangá — að setja þetta inn í frv.

Þá kem ég að 5. brtt. á þskj. 509. Hún er við 12. gr. og er um að 3. mgr. 12. gr. falli niður. Það koma fleiri brtt. á eftir, þar sem við leggjum til að það séu felldar niður mgr. og heilar greinar. Stundum er þetta af efnisástæðum, en oftast nær er þetta ekki af efnisástæðum, heldur af því að við teljum að það sé ekki eðlileg lagagerð að hafa þessi ákvæði í lögunum, það sé í hæsta lagi eðlilegt að hafa þau í reglugerð og stundum aðeins í auglýsingu og kannske þyrfti stundum ekkert um þau að hugsa fyrr en upp kæmi við framkvæmd málanna. Till. okkar um að 3. mgr. 12. gr. falli niður er ekki af efnisástæðum, heldur af þessum ástæðum og ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það.

Þá er 6. brtt. Hún er við 13. gr. Það er mjög þýðingarmikil brtt. 13. gr. fjallar m. a. um hvað lánstími hinna almennu húsnæðislána eigi að vera langur. Samkvæmt gildandi lögum er hann 26 ár. Samkv. frv. þessu er hann 21. ár. Ég ræddi nokkuð um þetta við 1. umr. og taldi vera algjöra óhæfu að stytta lánstímann. Það hefur alltaf verið markmið og — ef ég mætti orða það svo — draumur þeirra, sem hafa fengist við þessi mál, að hægt væri að lengja lánstímann, og þarf ekki að skýra slíkt. (Gripið fram í: Og lækka vextina.) Og lækka vextina. (Gripið fram í: Draumurinn um að þurfa aldrei að borga lán.) Ef við viljum ekki hafa þetta í flimtingum held ég að við getum verið sammála um að æskilegt sé að lengja lánstímann. Og við viljum ekki standa í stað í þessu efni. Við viljum sækja örlítið fram, þótt stutt sé, og legg ég þess vegna til að lánstíminn verði 30 ár. Þetta er mjög þýðingarmikil brtt., eins og ég sagði áðan.

Við komum þá að 7. brtt. Hún er við 15. gr. frv. Hún er um að 1. mgr. falli niður. Ég ætla ekki að fara að ræða efni 1. mgr. Ég bendi mönnum á hana og hygg að menn geti verið sammála um að það sé ekki ástæða til að hafa það mál í lögum. Því gerum við till. um að 1. mgr. falli niður.

Ég kem þá að 8. brtt. Hún er við 18. gr. og er einnig um að 1. mgr. falli niður og af sömu ástæðum. Við teljum, að ekki sé ástæða til að hafa 1. mgr. í lögum, og leggjum þess vegna til að hún falli niður.

Þá kem ég að 9. brtt. og hún er við 25. gr. frv. 25. gr. frv. endar á því að kveða á um að óheimilt sé að veita lán nema fyrir liggi verklýsing og kostnaðaráætlun sem gerð sé af sérstökum trúnaðarmanni sem tæknideild Húsnæðismálastofnunar ríkisins nefnir til, enda séu umrædd gögn samþykkt af tæknideildinni — Brtt. okkar felst í því, að þetta, sem ég las upp, falli niður. Við teljum að það sé efni sem eigi að kveða á um í reglugerð ef ástæða þykir til. Ég vona að þetta sé næg skýring, því að ég leitast við að stilla máli mínu í hóf vegna þess að brtt. eru margar.

Þá er það 10. brtt. Hún er við 29. gr. frv. Hún er um að 2. og 3. mgr. 29. gr. falli út. Hérna er um að ræða ákvæði sem varða lán samkv. 9. tölul. 10. gr. frv., svokölluð framkvæmdalán. Það er verið að gera því skóna í ákvæðum þessarar greinar hvað þetta lán eigi að vera lengi og annað þess háttar. Þetta er á misskilningi byggt vegna þess að þessi lán koma til greiðslu þegar hin föstu lán eru afgreidd og þarf ekki neinar vangaveltur um það, hvað þá heldur að setja ákvæði um þetta í lög.

Ég kem þá að 11. brtt. Hún er við 30. gr. Hér er um að ræða mjög þýðingarmikla brtt. Samkv. frumvarpsgreininni er gert ráð fyrir að vextir séu 3.5%. Við leggjum til að vextirnir verði 2%. Við viljum sækja fram einnig á þessum vettvangi, lækka vextina eins og að lengja lánstímann. Og það er ekki óeðlilegt að lækka vextina úr 3.5% í 2%, því að við verðum að hafa í huga að þessi lán eru öll vísitölutryggð. En þetta er til að undirstrika það sjónarmið, sem ég lagði áherslu á í inngangsorðum mínum áður, að við verðum að hafa lánskjör hinna almennu lána þannig að hinn almenni launþegi í landinu geti staðið undir þeim. Það er þess vegna sem við leggjum til í senn að lengja lánstímann og að lækka vextina. Þetta er a-liður 11. brtt. okkar.

B-liður er um að síðasti málsliður í 3. mgr. 30. gr. falli niður. Þar er verið að tala um hin svokölluðu framkvæmdalán og lán til tækninýjunga. Það er ekki ástæða til að setja þetta ákvæði þarna inn, svo ekki sé meira sagt. Skýrist það af því sem ég segi um c-liðinn í þessari brtt. við 30. gr. Hann er um að síðasti málsliður 4. mgr. orðist þannig, að tekin er út tilvitnun í 9. tölul. 11. gr., þ. e. um framkvæmdalán. Það er verið að tala þarna um hluti á þann veg að það kemur ekki heim og saman við staðreyndir og venjuleg vinnubrögð.

12. brtt. er við 32, gr.brtt. gengur út á að greinin orðist svo sem þar stendur. Ég skal ekki fara að lesa það upp. En þetta þýðir að niður falli 2. og 3. mgr. 32, gr. frv. Hér er um algjör framkvæmdaatriði að ræða og eðlileg reglugerðarákvæði, ef þess þarf þá með.

Ég vona að menn líti ekki á það sem einhverja fordild þegar ég er svo oft að tala um till. okkar um að fella niður. Ég held að þetta frv. sé að ýmsu leyti — ég tala ekki um ef á að samþykkja ýmsar af till. stjórnarliðsins um breytingar — dæmi um hvernig á ekki að standa að lagasetningu. Þá geng ég auðvitað út frá því að lög eigi að vera skýr og stuttorð, eftir því sem við verður komið, og ekki um annað en það sem máli skiptir.

Ég kem þá að 13. brtt. og hún er um 34. gr. Þetta er greinin um fjáröflun í Byggingarsjóð verkamanna og er þess vegna á vissan hátt þýðingarmesta greinin varðandi Byggingarsjóð verkamanna. Með þessari grein er horfið frá þeirri skipan sem hefur verið fylgt og haldið alltaf þegar lögin um Byggingarsjóð verkamanna hafa verið endurskoðuð. Það er horfið frá þeirri fjáröflunaraðferð og skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem fylgt hefur verið. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að þau sveitarfélög, sem eru aðilar að byggingu verkamanna bústaða, ákveði þá fjárhæð sem til þess er lögð fram. Skal viðkomandi sveitarfélag greiða framlag sem er miðað við ákveðna upphæð fyrir hvern íbúa í sveitarfélaginu og ætla þá upphæð, sem þannig ákvarðast, til framkvæmda í verkamannabústaðabyggingum. Jafnframt er gert ráð fyrir að ríkið leggi jafnmikið á móti.

Nú er í frv. horfið frá hinni gömlu aðferð um það, hvernig þetta er ákveðið. Við gerum ekki till. um að hún verði tekin upp aftur, en við gerum till. um að fylgt verði þeirri meginstefnu, sem hefur verið rauði þráðurinn í framkvæmd þessarar löggjafar um verkamannabústaði frá upphafi, að fjármagnið, sem þarf til byggingar verkamannabústaða, komi allt frá ríki og viðkomandi sveitarfélagi, að frádreginni þeirri útborgun sem greidd er af þeim sem fær íbúðina. Okkar brtt. miðar því að því að ríkissjóður greiði 70% af því fé sem þarf til byggingar verkamannabústaða, en sveitarfélögin 20%. Við höldum okkur ekki við helmingaskiptaregluna eða að það sé jafnt frá ríki og sveitarfélagi. Við byggjum á 20% sem frv. leggur til að sveitarfélögin greiði. Ef haldið er við það þarf ríkið að greiða 70% til verkamannabústaða. Allt annað er hrein blekking og ljótur leikur gagnvart því fólki sem vill treysta á þessa löggjöf.

Gert er ráð fyrir í 13. brtt. okkar að hægt sé að afla fjár til Byggingarsjóðs verkamanna með lántökum, en það eru lántökur, sem hljóta að verða til þess að mæta þeirri þörf sem bygging leiguíbúða sveitarfélaga kallar á, og því er gert ráð fyrir þessu. Í frv. er látið líta svo út að hægt sé að fjármagna verkamannabústaðina með lántökum, taka lán á hinum almenna lánamarkaði með þeim lánskjörum, sem nú eru, og lána þetta fjármagn með 0.5% vöxtum og eins og frv. gerir ráð fyrir. Allir sjá að þetta er hrein blekking og þetta er ljót blekking. Þessi 34. gr. frv., eins og hún er sett upp, er svo ruglingsleg og illa hugsuð að ég efast um að hægt verði að framkvæma hana eins og hún er. Það mun þá koma í ljós hvernig það tekst. Þess vegna er þessi brtt. okkar, 13. brtt., ákaflega þýðingarmikil. Ég trúi því naumast öðru en henni verði gefinn gaumur. Ég held það væri hyggilegra að afgreiða þetta mál ekki eins og það liggur fyrir.

Ég kem þá að 24. brtt. Hún er við 48. gr. frv. og er um að niður falli þarna orðin „af hálfu tæknideildar Húsnæðismálastofnunar“. Það eru orð sem standa í þessari grein.

Eitt af því, sem við gerðum í félmn. d., eins og kom fram hjá hv. frsm., var að við leituðum álits ýmissa aðila og umsagna um þetta frv. Einn aðilinn, sem skilaði ítarlegu áliti eða umsögn, var stjórn verkamannabústaða í Reykjavík. Um þessa brtt. við 48. gr. frv. hefur stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík tjáð sig ákveðið og sagt að að sjálfsögðu eigi stjórn verkamannabústaða að gera upp byggingarkostnað og láta úttekt á íbúðum fara fram, en ekki tæknideild Húsnæðismálastofnunar. Brtt. okkar er í samræmi við þetta sjónarmið þeirra sem gleggst þekkja til þessara mála.

Ég kem þá að 25. brtt. Hún er við 50. gr. frv. Í 50. gr. frv. er m. a. ákvæði um hvað lánstími lána Byggingarsjóðs verkamanna á að vera langur. Segir í frv. að hann eigi að vera 32 ár. Ég vék að þessu við 1. umr. og lýsti mikilli undrun á þeirri afstöðu, sem mér hefur þótt nálgast óskammfeilni, að stytta lánstíma hjá Byggingarsjóði verkamanna frá því sem er. Hvað skyldu þeir hafa sagt sem voru árið 1929 að berjast fyrir þessum málum? Þá voru menn ekki að tala um 30 eða 40 ára lán, heldur 80–90 ára. En svo þurfum við að þola það á þessu herrans ári, þegar þetta kerfi er búið að starfa í 50 ár, að þá skuli vera lagt til að lánstími Byggingarsjóðs verkamanna lækki úr 42 árum í 32. Við, sem stöndum að brtt. á þskj. 509, viljum ekki hlíta þessu. Við trúum því raunar varla að það geti verið meiri hl. fyrir því að stytta þennan lánstíma. Við gerum ekki brtt. um að lengja þessi lán eins og brautryðjendur verkamannabústaða dreymdi um og töluðu um og ætluðu að gera. Við ætlum að vera svo hæversk að leggja til að það standi sem er í lögum í dag.

Ég kem þá að 26. brtt. Hún er við 54. gr. Hún er um að 2. mgr. falli niður. Það er af þeirri ástæðu að við teljum að þetta eigi ekki að setja í lög. Það segir t. d. í mgr. sem við leggjum nú til að fella skuli niður: „Umsókn skal berast Húsnæðismálastofnun eigi síðar en 1. ágúst árið áður en framkvæmdir skulu hafnar.“ Við teljum að slíkt eigi ekki að setja í lög, þetta sé reglugerðaratriði eða auglýsingaratriði eftir atvikum og það geti komið sér illa að lögbinda ákvæði sem þessi.

Þá er það 27. brtt. Hún er við 55. gr. Hún er um að greinin falli niður. Þarna er verið að tala um að húsnæðismálastjórn feli tæknideild Húsnæðismálastofnunar að yfirfara tillögur sveitarstjórnar. Þetta eru ekki ákvæði sem eiga heima í lögum. Ég held að menn hljóti að sjá það og ég held að við hljótum að sameinast um að laga þetta dálítið til. — Þetta er ekki af efnisástæðum.

Þá er það 28. brtt. Hún er við 56. gr. frv. Hún er um að greinin falli niður. Þetta eru hliðstæðar ástæður og ég hef áður sagt. Ég skal ekki fara nánar út í það. Þessi ákvæði eiga alls ekki heima í lögum og skipta engu máli.

Þá er það 29. brtt. Hún er við 57. gr. Það er um að fyrstu orðin í greininni séu felld niður. Þetta er ekki efnisbreyting. Ég vona að menn sjái að þetta er þó til bóta. Ég skal ekki ræða það frekar.

Þá er það 30. brtt. Hún er við 58. gr. frv. það er þýðingarmikil brtt. Þar er ákvæði um að vextir af lánum til byggingar leiguíbúða skuli vera 3.5%. Við gerum ráð fyrir og gerum till. um að vextir af almennum lánum úr Byggingarsjóði ríkisins séu 2%. Þykir okkur þá ekki hlýða að það séu verri kjör á þeim lánum sem eru veitt til að leysa hinar félagslegu þarfir sem leiguíbúðunum er ætlað. Ég vona að menn athugi þetta og viðurkenni þetta sjónarmið.

Ég kem þá að 31. brtt. Hún er um að 59. gr. falli niður. Þetta er reglugerðaratriði. Ég bið menn að líta á 59. gr. Ég er sannfærður um að þeir verða mér sammála. Ég þarf ekki að fjalla meira um það.

Þá er það 32. brtt. og hún er við 60. gr. Það er um að taka skýrt fram að það séu sveitarstjórnir sem ráðstafi þeim leiguíbúðum sem reistar eru á vegum sveitarstjórna. Það mátti, eins og orðalagið er, misskilja það svo að það væri stjórn verkamannabústaða sem ætti að gera slíkt. Virðist mér að þetta sé sjálfsögð brtt.

Ég kem þá að síðustu brtt. okkar á þskj. 509. Það er 33. brtt., við 67. gr. frv. Þetta er brtt. sem varðar tæknideildina. Um það mál mætti að sjálfsögðu ræða ítarlega, en ég skal ekki fara að gera það á þessu stigi. Menn hafa sjálfsagt mismunandi skoðanir á hlutverki og stöðu tæknideildar Húsnæðismálastofnunar. Sumir halda fram að það sé ákaflega þýðingarmikið að efla þessa deild sem mest vegna þess að við eigum að sjálfsögðu mikið undir því að tækninni sé beitt til hins ýtrasta varðandi byggingarmálin. Rannsókn í byggingarmálum og öll viðleitni til að tileinka sér það, sem nýtt er, og vinna að því, sem hentar íslenskum aðstæðum, er sjálfsögð. Ég hef samt lengi verið þeirrar skoðunar að það sé mikill misskilningur að tæknideildin geti haft mikla þýðingu í þessum efnum nema að hún sé margfalt öflugri, margfalt stærri og miklu meira fjármagni varið til hennar en nú er, en það væri ekki rétt að gera slíkt vegna þess að það eru ýmsar aðrar stofnanir í þjóðfélagi okkar, ríkisstofnanir, rannsóknastofnanir ríkisins og stofnanir á vegum iðnaðarins, sem vinna að þessum stóru og þýðingarmiklu verkefnum. Við eigum ekki að fara að koma upp margföldu kerfi í þessu efni. Við getum ekki gert það með neinum forsvaranlegum árangri. Og við eigum ekki að reyna að gera tilraun til þess. Hins vegar eigum við að hafa það skipulag á, að sem best nýtist það verk sem er unnið í rannsóknastofnunum byggingariðnaðarins, hvort sem það er á vegum ríkisins eða samtaka iðnaðarins, hvort sem það er á vegum ríkisins eða samtaka iðnaðarins. Með þetta í huga höfum við gert till. um verulegar breytingar á 67. gr. frv. Það er fljótast að lýsa þessu með því að lesa upp brtt. okkar, en hún er á þá leið að 67. gr. frv. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tæknideild skal starfa innan Húsnæðismálastofnunar.

Verkefni hennar eru þessi:

1. Að hafa á hendi eftirlit með framkvæmdum þeirra aðila, sem njóta lána úr veðlánakerfinu, eftir því sem þörf er á til þess að settum skilyrðum sé fullnægt.

2. Að vera ráðgjafi Húsnæðismálastofnunar og stjórnar hennar um tæknileg málefni og annast samskipti við opinbera aðila, sem vinna að rannsóknum og tilraunum á sviði húsnæðis- og byggingarmála.

3. Að gangast fyrir opinberri samkeppni um gerð uppdrátta að íbúðarhúsum og kynna bestu lausnir, sem fást úr slíkri samkeppni hverju sinni.

4. Að vera sveitarstjórnum og stjórnum verkamannabústaða, sem þess óska, til aðstoðar við undirbúning félagslegra íbúðabygginga.“

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir brtt. okkar, 35 að tölu, sem eru á þskj. 509. Þegar við vorum að vinna í þessum málum kom í huga okkar að það gæti verið ástæða til að gera fleiri brtt. og brtt. sem varða hin þýðingarmestu mál, en hér hefur verið gengið fram hjá. Ég nefni sem dæmi skyldusparnaðinn. Það eru mjög skiptar skoðanir um framkvæmd skyldusparnaðarins í ýmsum efnum, svo að ekki sé meira sagt, og það eru uppi ýmsar hugmyndir um hvernig á að bæta úr. Við erum ekki hér með ákveðnar till. í því efni, en mér hefði fundist að ekki hefði verið óskynsamlegt að koma með brtt. sem fæli í sér að því væri slegið föstu að skyldusparnaður skyldi vera og hverjir skyldu hlíta honum og hverjir gætu fengið undanþágu, en framkvæmdin að öðru leyti væri ákveðin með reglugerð. Þá gæfist tími til að athuga málin betur en gert hefur verið. En það var ekki samstaða um slíka till. og við sjálfstæðismenn sáum ekki ástæðu til að gera sérstaka till. sem hefði komið til greina að flytja.

Þessar brtt. okkar, sem ég hef hér lýst, eru ekki tæmandi um það sem við teljum að hefði mátt betur fara í frv. þessu. En ég er sannfærður um að frv. mundi batna mikið ef þær væru samþykktar.