14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (2624)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Örfá orð út af því sem fram hefur komið í ræðu hv. alþm. sem hafa fjallað um þetta frv. og brtt. við það, sem ég hef flutt ásamt öðrum þm. á þskj. 508.

Það kom fram hjá hv. 3. landsk. þm., Karli Steinari Guðnasyni, að hann teldi m. a. ástæðulaust að lengja lánstímann. Um þetta hafa verið töluvert miklar umr., bæði hér í d. og annars staðar. Í þjóðfélaginu almennt er mikið rætt um þann lánstíma sem eigi að gilda og sé eðlilegastur. Við framsóknarmenn höfum haldið því fram að lánstímann ætti að lengja, hann ætti að vera lengri en hann er, 26 ára lánstími á almennum lánum þyrfti að vera lengri til þess að greiðslubyrðin væri léttari. Jafnframt teljum við það rök með því að lánstíminn væri lengri að ekki er eðlilegt að lán til húsbygginga séu greidd niður, þegar við erum farin að lána 80% lán til húsbygginga séu þau greidd niður á 20 árum og í sumum tilfellum kannske á enn þá skemmri tíma. Öll bankalán eru til enn skemmri tíma. Þegar við byggjum húsnæði, sem á að standa í áratugi eða jafnvel aldir, er ekki óeðlilegt að lánin fylgi þeim fasteigum langan tíma. Þess vegna höfum við gert tillögur um að þessi lánstími yrði a. m. k. ekki styttri en hann er. Við höfum gert tillögur um, að breyting verði á frv. úr 21 ári í 26 ár, og við gerum till. um, að lánstími til bygginga verkamannabústaða sé ekki styttur, heldur sé hann látinn vera eins og hann er, 42 ár.

Hv. 3. landsk. þm. gerði nokkrar aths. líka við 22. brtt. okkar, sem mundi verða 25 gr. frv. ef till. okkar yrðu samþykktar. Hún hljóðar um að húsnæðismálastjórn sé heimilt að veita sveitarfélögunum lán úr Byggingarsjóði ríkisins til þess að endurbyggja heilsuspillandi húsnæði sem hagkvæmt er talið að endurnýja. Ég held að hann geri of mikið úr þessari útþenslu, sem hann kallar, þegar sveitarfélögum eru opnaðar leiðir inn í þetta húsnæðiskerfi meira en verið hefur. Það er rétt hjá honum, að opnað er meira fyrir sveitarfélög. Ég held samt að hann geri meira úr þeirri hættu en ástæða er til. Þarna á að framkvæma úttekt á húsnæði og gera kostnaðaráætlun um nauðsynlegar endurbætur og meta hvort þarna er skynsamleg framkvæmd. Það geta verið tiltölulega góð hús, sem þó séu einhverra hluta vegna, vegna ónógs viðhalds eða einhverra annarra ástæðna eða aðstæðna, orðin heilsuspillandi. Væri alls ekki skynsamlegt að þessi hús grotnuðu hreinlega niður eða yrðu rifin, heldur væri hagkvæmara að endurnýja þau og byggja þau upp. Þess vegna teljum við ekki óeðlilegt að þessi möguleiki sé fyrir hendi. — Ég get ekki samþykkt að sveitarfélögin verði samkeppnisaðili við einstaklinga á húsnæðismarkaðnum. Ég tel ekki líklegt að svo fari.

Það hefur verið mikið rætt, bæði af hv, þm. Karli Steinari og hv. 4. þm. Vestf., um fjármögnun þessa húsnæðiskerfis og rætt um að í það vantaði fjármagn. Við gerum till. um að hluti af launaskattinum sé markaður Byggingarsjóði verkamanna. Ég lýsti því yfir í framsögu minni áðan, að ég væri því sammála að við aukum verkefni Húsnæðismálastofnunarinnar. Hún fær stóraukin verkefni með þessu frv. Það er ljóst að við tökum það ekki í einu skrefi allt saman. Við þurfum aðlögunartíma. Og við verðum að treysta á að stjórnvöld sjái sér fært að útvega fjármagn til þessara verkefna, sem nauðsynlegt verður eftir því sem við höfum möguleika á að koma þeim til framkvæmda. En það er dálítið hlálegt stundum að heyra annars vegar talað um fjármagnsskort í einstakar framkvæmdir og hins vegar talað um skattaálögur, því að þá er eins og málflutningur þeirra hv. stjórnarandstæðinga fari ekki ævinlega alveg saman. Það er mjög óæskilegt að auka skattana, en hins vegar er líka oft og tíðum þegar þeir fjalla um ýmsar framkvæmdir, m. a. fjármögnun húsbyggingarmálanna, Byggingarsjóðs ríkisins, að vantar samt peninga og fjármagn. Einhvers staðar þarf að sjálfsögðu að taka það.

Þá ræddi hv. 3. landsk. þm. einnig um að við værum að lækka framlag sveitarfélaganna úr 20% í 10% af fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna. Það er svolítill stigsmunur á þessu líka. Ef við litum á þessa frv.-grein, sem er 34. gr. frv., segir þar, eins og það liggur fyrir, í c-lið:

„Með framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags sem skal nema 20% af byggingarkostnaði þeirra íbúða sem hafin verður bygging á í verkamannabústöðum í sveitarfélaginu.“

Í brtt. okkar er þessu breytt að því leytinu til að hér stendur:

„Með framlagi sveitarfélaga sem nemi 10% af því fjármagni sem Byggingarsjóður verkamanna lánar til verkamannabústaða í viðkomandi sveitarfélagi ár hvert.“

Þarna er nokkur skilsmunur á. Auk þess ætlumst við til þess, að þegar lækkað er framlag eða tillag sveitarfélaganna til verkamannabústaðasjóðsins er jafnframt gert ráð fyrir að sveitarfélögin taki á sig nokkra aukna ábyrgð með því að þau þurfi að fjármagna það sem hugsanlega vantar upp á framkvæmdirnar ef ekki tekst að koma framkvæmdunum undir þann staðal sem áætlað er. Við ætlumst til þess og þess er vænst, að þetta leiði til aukins aðhalds af hálfu sveitarfélagsins og meiri framkvæmdahraða við bygginguna og meiri nýtni og það verði ákveðnara stefnt að því að ekki verði farið fram úr þeim staðli sem íbúðastærðirnar og íbúðabyggingarnar gera ráð fyrir og eiga að vera.

Þá langar mig að lokum að líta yfir brtt. á þskj. 509, sem fluttar voru af Þorv. Garðari Kristjánssyni o. fl., og gera grein fyrir því, að sumar þessar brtt. eru orðréttar eins og okkar brtt. Sumt er nánast orðrétt og sumt alveg, eins og t. d. 3. brtt. Hún er orðrétt eins og gert er ráð fyrir í okkar brtt.

Í 11. brtt. hv. þm. í c-lið segir:

„Við 4. mgr. Síðasti málsliður orðist svo: Gjalddaga lána samkv. 8. tölul. ákveður húsnæðismálastjórn hverju sinni.“

Þarna er fellt niður úr frv. að þar stóð 8. og 9. tölul. Það er eðlilegt að 9. tölul. falli niður þar sem í 9. tölul. greinarinnar er átt við framkvæmdalán, sem hafa yfirleitt ekki neina gjalddaga, heldur eru greidd upp af endanlegum lánum Byggingarsjóðsins. Er þetta því rétt og eðlileg brtt. sem þarna er flutt.

14. brtt. er einnig eins og í okkar brtt.

Í 50 gr. er samhljóða breyting, að lánstíminn verði 42 ár í staðinn fyrir 32 ár, sem lagt er til í frv. Þá erum við einnig sammála um vaxtaprósentu því að fram kemur í 30. brtt. hv, þm. að vextir verði 2% í staðinn fyrir 3.5%.

Aðrar brtt., sem fluttar eru á þessu þskj., ganga í bága við þær hugmyndir, sem við höfum gert okkur, og þær brtt., sem við höfum lagt fram við frv., og sé ég mér ekki fært að styðja þær.