14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2654 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða mjög um það frv. sem hér er til umr., þó að sjálfsagt væri ástæða til þess. Ég tel að ýmsar þær brtt., sem borist hafa frá stuðningsliði ríkisstj., séu tæpast til bóta og sumar séu hrein spjöll. Það hefur komið glögglega fram í ræðu hv. þm. Karls Steinars ýmislegt varðandi þetta efni, en ég vil bæta við fáeinum atriðum eða ítreka fáein atriði án þess að fara nánar í einstakar brtt. allar saman.

Þar er fyrst til að taka að í 11. lið er sett sérstakt skerðingarákvæði eða heimild til húsnæðismálastjórnar til að hafna eða skerða lánveitingu til þeirra aðila sem eiga íbúð sem getur talist fullnægjandi að dómi húsnæðismálastjórnar. Ég held að ákaflega varasamt sé að setja inn ákvæði af þessu tagi, þarna hlyti ævinlega að vera um einhvers konar geðþóttaákvörðun að ræða. Að vísu var á ferðinni strangara orðalag á þessari grein fyrr, og má segja að þetta sé þó skárri útgáfa en áður var. En ég held að hún sé mjög varasöm vegna þess að ýmislegt getur komið upp hjá fólki: það flyst búferlum, það skilur og þar fram eftir götunum, og kannske er það ekki reiðubúið á þeim tímum, sem við lifum, að losa sig við íbúðir og eiga þar með vissu um rétt á nýju láni þegar svona stendur á.

Mér finnst líka að því er varðar t. d. 17. liðinn í till. stjórnarliða, þar sem gert er ráð fyrir að það verði að liggja fyrir samþykki sveitarstjórna og þar fram eftir götunum til þess að eiga möguleika á láni vegna endurnýjunar og endurbóta, að það sé óþarfi að búa til skriffinnsku af þessu tagi. Sveitarstjórnirnar hafa sitt vald í gegnum byggingarsamþykktir og leggja þar mat á slíkt. Það á ekki að þurfa að auka erfiði fólks með því að fjölga vottorðum sem menn þurfa að afla sér til að koma til greina í sambandi við lánsúthlutanir.

Þetta kemur enn fremur fram t. d. í þeim lið sem er nr. 41, þar sem er sérstaklega tiltekið að fólk, sem búi við erfiðar aðstæður, hafi orðið fyrir áföllum, skuli afla sér tvíefldra umsagna, bæði félagsmálastofnunar og sveitarstjórnar, um að það búi við nægilega bág kjör til að koma til greina. Mér finnst að þarna sé verið að auka erfiði fólks, sem á mjög erfitt fyrir, og það sé gert að óþörfu.

En það er annað sem ekki er síður ástæða til að gera að umtalsefni. Það kemur fram í 13., 15. og 17. lið að talað er um hlutfall af föstu láni til nýbygginga; í 13. lið, að lán samkv. því, sem þar er verið að fjalla um, skuli vera visst hlutfall af fullu láni til nýbygginga, í 15. lið, að það skuli nema sama hlutfalli af byggingarkostnaði staðalíbúðar og því sem til er vitnað undir lið 13., og í 17. lið, að það skuli vera 50% af byggingarláni út á staðalíbúð samkv. 35. gr. Nú er það dálítið aumingjalegt að tala bara um „visst“ hlutfall, en ekki tiltekið hlutfall, og má segja að 50% sé þá skárra en að hafa það alveg ótiltekið. En þetta leiðir hugann að því, sem er kannske kjarni þessa máls, nefnilega hlutfalli lána af byggingarkostnaðinum sjálfum.

Ef við hugleiðum hvað það er, sem er fyrst og fremst til smánar í þjóðfélagi okkar í sambandi við húsbyggingarmálin, þá er það að þau lán, sem menn eiga kost á til almennra íbúðarbygginga, eru ekki nema rétt rúmlega 20% af byggingarkostnaðinum. Mönnum er ætlað að standa undir a. m. k. 70–75% af byggingarkostnaðinum með einhverjum öðrum hætti. Og hver er sá háttur? Sá háttur er að reyna að skapa sér víxillán eða einhver önnur skammtímalán, sem yfirleitt eru til 2–3 eða í almesta lagi 4 ára. Í annan stað að ganga á vit ættingja og reyna að sníkja þar peninga. Í þriðja lagi að slíta sjálfum sér út fyrir aldur fram, eins og allt of algengt er. Þetta er til smánar hjá okkur, að við skulum ætlast til þess af húsbyggjendum að þeir afli 3/4 hluta af því, sem það kostar þá að eignast íbúð, með snöpum hjá bankastjóra, með snöpum hjá ættingjum, með því að slíta sér út og náttúrlega með skattsvikum, eins og ég þykist vita að öllum hér sé ljóst að húsbyggjendur hafa neyðst út í með einum eða öðrum hætti í sambandi við vinnuskipti og því um líkt, sem er alls ekki í samræmi við það sem ætlast er til samkv. anda skattalaganna. Þetta, að láta fólk slíta sér út bæði líkamlega og andlega með því að hlaupa á milli lánastofnana eins og bónbjargamenn, ef það ætlar að komast yfir húsnæði, er smánarbletturinn á þjóðfélagi okkar.

Þetta rifja ég upp vegna þess að hér hefur farið fram umr. um hvort lánstíminn eigi að vera 21 eða 26 ár, hvort vextirnir eigi að vera 2% eða 3.5%. Auðvitað hljómar það ágætlega að tala um lægri vexti, eins og 2%, og auðvitað hljómar það ágætlega að vera með 5 árum lengri lánstíma. Það væri ekki nema sjálfsagt að fara út í það ef það væri enginn fjármagnsskortur hjá okkur og ef lánskerfið væri þannig að við gætum lánað 75–80% af íbúðarverðinu, en ekki öfugt, eins og það er í reyndinni. Það er út frá þessum forsendum sem Magnús H. Magnússon fyrrv. félmrh. lagði ríka áherslu á að við þær breytingar, sem nú væru gerðar á þessu frv., væri þó a. m. k. stefnt til réttrar áttar í þeim efnum að hækka lánshlutfallið, vegna þess að það er það sem er í raun og sannleika verkefni númer eitt, það er það, sem er mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í þessu húsnæðislánakerfi, og það er eitt af okkar mikilvægustu félagslegu verkefnum ef við ætlum ekki að slíta út unga fólkinu í landinu og gera það útslitið líkamlega og sálarlega fyrir aldur fram.

Nú er það svo, að með því að lengja lánstímann frá þeim tillögum, sem Magnús H. Magnússon var með, og lækka vextina er auðvitað verið að skerða stórlega möguleikana til að hækka lánsfjárhlutfallið. Ég sagði að það væri rétt rúmlega 20%. Það liggur fyrir hér í opinberum gögnum. En með þessum hætti má gott heita ef það kæmist upp í 28% að 5 árum liðnum. Það er allt of lítið og það mundi ekkert vera að nálgast 50% árið 1990, eins og var þó útkoman úr því sem Magnús H. Magnússon var með. Það má heita gott ef það nálgast 40%.

Nú kann einhver að segja að þetta sé allt í lagi, það megi bara útvega aukið fé í þetta kerfi. En hvað eru það þá miklir peningar sem menn eru að skerða þetta útlánakerfi um? Hvað er það þá mikið aukalega sem þarf að bæta við kerfið bara fyrir þessa breytingu? Nú skulum við segja að við höfum það markmið að ganga lengra en fram gengur af þeim gögnum, sem Magnús H. Magnússon fyrrv. félmrh. lét saman taka, og við vildum bæta við einhverju fjármagni í þeim efnum, og það er sjálfsagt að stuðla að því. En hver er þá viðbótin sem við verðum að leggja á okkur bara fyrir þessa breytingu? Samkv. þeim töflum, sem fyrir liggja um þetta efni, er það á verðlagi ársins 1978 miðað við árið 1990 2.5 milljarðar kr. Það mundi á verðlagi 1980 vera einhvers staðar á bilinu 5–5.5 milljarðar kr. Bara þessi göfuga breyting um að lengja lánstímann í 26 ár og lækka vextina niður í 2% þýðir þarna að bæta þarf við milli 5 og 5.5 milljörðum til að standa í þeirri þróun sem sett var á blað og miðaðist við 50% eða tæp 50% árið 1990 og er alls ekki nóg.

Við getum tekið þessa 5–5.5 milljarða til samanburðar við það sem við erum að setja inn í þetta kerfi núna. Jú, framlagið til Byggingarsjóðs ríkisins á árinu 1980 á að vera 7.1 milljarðar. Það gæti verið að þegar maður sér það í hlutfalli við þessa tölu væri þarna einhver mismunur sem skipti máli. Ef við litum á lántökurnar árið 1979 voru þær 11.8 milljarðar kr. Ég er hér að tala um tölu sem er næstum því helmingurinn af því.

Ég held að það, sem skipti langmestu máli fyrir húsbyggjendur, sé að hækka þetta lánshlutfall, og þess vegna tel ég að það, sem Magnús H. Magnússon lagði til í þessum efnum, hafi verið í samræmi við það sem er í raun og sannleika mikilvægast í þessu kerfi. Hann var að leitast við að hækka lánshlutfallið. Með þessari breytingu, svo göfug sem hún getur talist, að fara upp í 26 ár og niður í 2% vexti, eru menn að draga þróttinn úr því að hægt sé að ná því markmiði sem mikilvægast er. Ég held þess vegna að þeir, sem hafa talað fyrir þessari breytingu, hafi misskilið í raun og sannleika hvað það er sem skiptir mestu máli og að þessar breytingar séu þess vegna, svo notuð séu töm orð hæstv. forsrh., algjör misskilningur.