14.05.1980
Neðri deild: 77. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2696 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

94. mál, sjómannalög

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði við 2. umr., að ég tel að samgn. þessarar d. hafi unnið mjög gott starf í þessu máli og skoðað það vandlega á stuttum tíma. Hins vegar, eins og ég sagði einnig, er málið ákaflega viðkvæmt og eins og mönnum hér er ljóst hafa komið fram við frv. ýmsar aths., ekki síst frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem getið var við 2. umr.

Ég vil því lýsa því hér yfir nú, að ég mun leggja á það áherslu við meðferð málsins í Ed., að samgn. þeirrar d. taki þær aths. til meðferðar og geri tilraun til að ná samkomulagi með útvegsmönnum og sjómönnum.

Ég legg á það ríka áherslu, að mál þetta fái afgreiðslu á þessu þingi, og leyfi mér að vona að þessi málsmeðferð geti sætt þá aðila sem kunna að vera á öndverðum meiði um einstök atriði þessa máls. Mér hefur heyrst á öllum að menn vilji að málið fái framgang, og ég vil því láta þetta koma fram að gefnu tilefni.