16.05.1980
Efri deild: 89. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2705 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

94. mál, sjómannalög

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka að mér er gefið tækifæri til að mæla fyrir þessu máli og koma því til nefndar. Lögð er á það mikil áhersla af fjölmörgum aðilum að það nái fram að ganga nú. Ég skal hins vegar verða mjög stuttorður, enda mikið sem fyrir liggur, og læt því nægja að stikla á stóru.

Frv. til breytinga á sjómannalögum er á þskj. 143, lagt fram í Nd. og var afgreitt frá Nd. til Ed. s. l. miðvikudag. Frv. þetta er liður í þeim félagsmálapakka sem margumræddur er og lofað var launþegum í des. og jan. 1978–1979. Sumum hefur þótt ganga nokkuð seint að efna þau loforð. Ég hygg þó, án þess að ég fari að rekja hinar ýmsu endurbætur sem gerðar hafa verið, að þar hafi töluverðu verið áorkað. Hitt er svo rétt, að þetta mál hefur tekið alllangan tíma, fyrst og fremst vegna þess að hér er um viðkvæmt mál að ræða og deilumál á milli útvegsmanna og sjómanna.

Með þessu máli er ætlunin að veita sjómönnum allmikil aukin réttindi í veikinda- og slysatilfellum og jafnframt að koma í veg fyrir það, sem því miður hefur tíðkast, að sjómenn hafa jafnvel verið afskráðir aftur í tímann og misst þannig af launum sínum, m. ö. o. að koma slíku í fastara horf.

Ég ætla út af fyrir sig ekki að rekja efni frv., — ég treysti því, að menn hafi þegar sett sig nokkuð inn í það, og vil stytta mál mitt, — en ég vil geta þess, að hv. samgn. Nd. hafði málið til meðferðar og gerði á því nokkrar breytingar.

Sjómenn voru ákaflega óánægðir með frv., eins og það var lagt fram, og töldu þar alls ekki mætt ýmsu því sem þeim hafði verið lofað. Samgn. gerði á frv. allmargar breytingar í átt við óskir sjómanna, þó ekki allar. Aftur á móti gerðist það við 3. umr. í Nd., að Landssamband ísl. útvegsmanna kom á framfæri ýmsum aths. við þær breytingar sem nefndin og deildin gerðu við 2. umr. Ég hét því við 3. umr. þar að þær aths. yrðu teknar til athugunar af hv. n. í Ed. sem fær þetta mál til meðferðar. Ég legg á það áherslu að svo verði gert og þá rætt bæði við útvegsmenn og sjómenn.

Ég vil í þessum örfáu orðum geta þess, að í Nd. var gerð sú breyting á að í 2. mgr. voru felld niður orðin sem hljóða svo, með leyfi forseta: „Laun er þó ekki skylt að greiða í hléum milli veiðitímabila, sem eru hefðbundin og þekkt fyrir fram.“ — Við þá breytingu hafa útvegsmenn gert aths. Þetta var fellt niður að ósk sjómanna. Komið hefur fram, að niðurfelling þessarar setningar getur leitt til þess að sjómenn verði ekki ráðnir nema fram að þeim tíma sem veiðitakmarkanir hefjast og verði þannig engin kjarabót fyrir sjómenn. Hins vegar vil ég láta það koma fram, að sjómenn segjast gera sér fulla grein fyrir þessu, en vilja heldur hafa þennan hátt á.

Í öðru lagi breytti Nd. svokallaðri staðgengisreglu þannig að sjómenn haldi fullum launum, hverjum sem þau eru greidd, í tvo mánuði, en í gildandi kjarasamningum halda sjómenn launum í einn mánuð, en yfirmenn í tvo mánuði. Hv. Nd. taldi rétt að þar byggju báðir við sömu kjör. M. a. var í framsöguræðu formanns n. vísað til þess, að slys eru tíðari á undirmönnum en yfirmönnum skipa og því ekki óeðlilegt að allir njóti þar sömu kjara. Undir þetta tek ég. En á hitt hefur verið bent, að þetta er breyting á kjarasamningum og var við 3. umr. lögð á það rík áhersla að það yrði skoðað að nýju. Ég kem því hér með á framfæri.

Sjómenn óskuðu eftir því að felld yrði niður setning sem hljóðar svo, með leyfi forseta, í upphaflegu frv.: „Sé skipverji í launalausu fríi, er hann veikist eða slasast, tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju.“ — Sjómenn vildu að hann kæmi strax inn á laun að nýju. Við þessu var ekki orðið í n. og ekki talið eðlilegt að maður, sem fer í launalaust frí, fái aftur laun fyrr en að þeim tíma liðnum er hann skyldi hefja störf að nýju. Ég nefni þetta sem dæmi um að ekki er orðið við öllum tilmælum sjómanna.

Fleiri aths. eru í bréfi Landssambands ísl. útvegsmanna sem n. mun að sjálfsögðu fá til meðferðar, og æt:a ég ekki að lengja umr. hér, þar sem tími er svo knappur, með því að fara nánar yfir það.

Ég vil segja það að lokum, að hér er að mínu mati um mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir sjómenn að ræða og réttlætismál og ég legg á það ríka áherslu að mál þetta nái fram að ganga. Ég legg að sjálfsögðu engan dóm á það hér, hvort breyta eigi einhverjum ákvæðum þessa frv. í meðferð d., það gerir að sjálfsögðu hv. d. En þá er ekki síður nauðsynlegt að það geti gerst fljótt svo að málið megi fara í gegnum eina umr. í Nd., þ. e. ef Ed. telur einhverjar breytingar nauðsynlegar.

Ég vil hins vegar segja það að lokum um slysa- og veikindatryggingar, ekki aðeins sjómanna, heldur landverkamanna einnig, að nauðsynlegt er að mínu mati að skoða nýjar leiðir. Ætla ég ekki að ræða það hér, en tel að þar eigi almannatryggingar að koma miklu meira inn í en verið hefur.

Herra forseti. Að þessu mæltu — stuttri framsöguræðu sem ég hefði gjarnan viljað hafa ítarlegri um mjög mikilvægt mál — vil ég leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.