16.05.1980
Efri deild: 90. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2708 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Í nál. hv. félmn. með frv. þessu er lagt til að frv. verði samþykkt. Fulltrúar Sjálfstfl. í n. gerðu fyrirvara um þessa afstöðu og áskildu sér rétt til að flytja brtt. við frv.

Við gerðum fyrirvara okkar vegna þess að við töldum að á frv. væru svo alvarlegir meinbugir að ekki væri hægt að samþykkja það nema á því yrðu gerðar veigamiklar breytingar. Til að freista þess, að svo mætti verða, bárum við fram 33 brtt. á þskj. 509. Í meðförum hv. d. hafa nú allar brtt. okkar verið felldar. — Það var víst ein, sem var um formsatriði, sem ekki hlaut þau örlög. — Jafnframt hefur mikill fjöldi brtt. frá stuðningsmönnum ríkisstj. verið samþykktur og hafa sumar þeirra stórlega spillt frv. Frv. er því í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir, með öllu óaðgengilegt fyrir okkur. Til þess liggja margar ástæður. Skal ég þó nú aðeins tilgreina þrjár þær helstu.

Í fyrsta lagi er enginn fjárhagslegur grundvöllur fyrir frv. Þegar frv. var lagt fram var samkv. grg. þess gert ráð fyrir að um 10 milljarða kr. á verðlagi ársins 1978 þyrfti í auknu fjármagni til að standa undir auknum þörfum íbúðalánakerfisins vegna aukinnar og nýrra verkefna sem frv. fæli í sér þegar nýmæli þess yrðu komin til framkvæmda. Í meðförum hafa íbúðalánakerfunum ekki verið fengnir neinir nýir tekjustofnar. Jafnframt hafa breytingarnar, sem nú hafa verið samþykktar, aukið á þörfina á meira fjármagni. Við sjálfstæðismenn viljum ekki vera þátttakendur í þessum leik. Við viljum ekki gefa húsbyggjendum í landinu falskar vonir um aukinn stuðning. Við viljum ekki stofna veðlánakerfunum í fyrirsjáanlegan vanda og ringulreið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Í öðru lagi erum við andvíg þeirri stefnumörkun, sem frv. kveður á um, að stefnt skuli að því að Byggingarsjóður verkamanna geti fjármagnað a. m. k. 1/3 hluta af árlegri íbúðaþörf landsmanna. Þvert á móti teljum við æskilegast að halda þeim þætti íbúðabygginga innan þeirra marka sem verið hefur. Hér koma þeir húsbyggjendur til sem verst eru settir fjárhagslega. Þeir þurfa mikillar aðstoðar við umfram aðra og sú aðstoð verður svo best veitt að hún sé takmörkuð við hina verst settu.

Þessi stefna okkar sjálfstæðismanna er byggð á þeirri forsendu að lán hins almenna veðlánakerfis, Byggingasjóðs ríkisins, séu með þeim lánskjörum að almenningur í landinu og launþegar almennt fái staðið undir af almennum launatekjum. Þess vegna leggjum við sjálfstæðismenn áherslu á að hin almennu íbúðalán séu sem hagstæðust, með sem lengstum lánstíma, með sem lægstum vöxtum og í sem hæstu hlutfalli af byggingarkostnaði. Við viljum efla Byggingarsjóð ríkisins með þessa stefnu að markmiði. Með þeim hætti verður helst styrkt framtak einstaklingsins, sem er grundvöllur þess Grettistaks sem lyft hefur verið með bættum híbýlakosti landsmanna á undanförnum áratugum.

Í þriðja lagi erum við andvíg því ákvæði, sem nú er komið inn í frv., að Alþýðusamband Íslands skuli tilnefna tvo menn í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins. Frá því að húsnæðismálastjórn kom til hefur hún alltaf verið kjörin af Alþingi. Það er sjálfsögð aðferð. Ekkert annað fær samrýmst lýðræðislegum venjum og réttarvitund þegar um er að ræða ríkisstofnun sem svo mjög varðar hag lands og þjóðar og hvern einstakan mann, hvar í stétt eða stöðu sem hann kann að vera. Engir aðilar eða félagasamtök í landinu eiga að breyta nokkru hér um, hversu góð og hversu voldug sem þau kunna að vera. Alþýðusamband Íslands getur enga sérstöðu haft í þessum efnum. Þvert á móti skapar aðild þess að húsnæðismálastjórn fordæmi. Hvers eiga þá aðrir aðilar vinnumarkaðarins að gjalda, svo sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasamband Íslands, Vinnumálasamband samvinnufélaganna, Stéttarsamband bænda? Hætt er við að þéttsetinn geti orðið bekkurinn í húsnæðismálastjórn. En ekkert slíkt kemur til greina. Þess vegna teljum við sjálfstæðismenn fjarstæðu að láta Alþýðusamband Íslands fá aðild að húsnæðismálastjórn.

Það leiðir af því, sem ég nú hef sagt, að við sjálfstæðismenn munum greiða atkv. gegn þessu frv. Það er leitt til þess að vita að ekki hefur náðst samstaða í þessu máli. (Gripið fram í: Í Sjálfstæðisfl.?) Okkur sjálfstæðismönnum er málið skylt. Við minnumst þess, að upphaf þessa máls er hjá ríkisstj. Ólafs Thors, þegar lögin um húsnæðismálastjórn voru fyrst sett árið 1955. Við endurskoðun þessarar löggjafar áður hafa sjálfstæðismenn haft forustu um þær veigamestu breytingar sem gerðar hafa verið og mótað hafa þróun þessara mála fram til þessa dags. Okkur er ekki heldur sama um framvindu húsnæðismálanna nú. Það er því með nokkrum ugg sem við lítum til þess sem nú vill verða. Við óttumst afleiðingarnar af lögfestingu þess frv. sem við nú ræðum. Við teljum að það brjóti niður það sem hefur verið byggt upp. Við teljum að það stöðvi þróun sem leitt hefur til framfara. Við teljum að það skapi vandamál sem komast hefði mátt hjá.

Það er raunalegt að horfa upp á ef fljótræðislegar og vanhugsaðar ákvarðanir gera nú mikil spjöll á góðu málefni. En þeir tímar munu koma að úr mun rætast. Þá verður tekið á ný til óspilltra málanna og bætt úr því sem aflaga kann að hafa farið. Þá verður sótt fram á ný í húsnæðismálunum. Þannig verður haldið á loft merki þeirra fjölmörgu manna sem unnið hafa að uppbyggingu íbúðarlánakerfanna.

Herra forseti. Má ég slá á persónulega strengi? Það vill svo til að ég þekki dálítið til þessa. Ég átti sæti í fyrstu húsnæðismálastjórninni og hvarf ekki af þeim vettvangi fyrr en árið 1970. Ég þekki því til þeirra manna, lífs og liðinna, manna úr öllum stjórnmálaflokkum, sem hafa mikið lagt af mörkum í þessum efnum. Nú vill svo til að í dag er haldið upp á 25 ára afmæli þeirrar stofnunar, sem frv. þetta fjallar um, og ég kem nú frá þeim fagnaði til þessa fundar. Ég veit að á þessum tímamótum óskum við öll Húsnæðismálastofnun ríkisins góðs gengis, þótt okkur greini á um með hverjum hætti best verði stuðlað að því.