17.05.1980
Neðri deild: 79. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2814 í B-deild Alþingistíðinda. (2790)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til umfjöllunar um nokkurt skeið frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1980. Frv. hefði mátt koma fram fyrr, en ég vil sérstaklega þakka meðnm. mínum fyrir gott samstarf í þessu máli, en þeir reyndu á allan hátt að greiða fyrir því að málinu yrði lokið á þeim stutta tíma sem n. hafði til umráða.

Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, sem væri ástæða til að hafa um nokkurt mál, en ég ætla, með tilliti til aðstæðna og þess, hvað menn hafa talað lengi dags um ýmis mál, að reyna að stytta mitt mál.

N. starfaði sameiginlega með fjh.- og viðskn. Ed. og var það gert til þess að málið hefði fengið sem besta umfjöllun af nm. beggja deilda áður en það kæmi þangað. Ég vænti þess, að nefndarstörf þar taki því mun skemmri tíma en ella hefði orðið.

Ég vil geta þess í upphafi, að það kemur fram í lögum nr. 13 frá 1979 að lánsfjárlög og fjárlög skuli afgreiða samhliða. Ég held að það hafi verið mjög slæmt að ekki reyndist unnt að þessu sinni að gera það. Viljum við í l. minni hl. fjh.- og viðskn. leggja á það ríka áherslu að svo verði gert héðan í frá, þótt það verði að skilja að að þessu sinni voru aðstæður mjög óvenjulegar. Ég vil einnig geta þess, að það þarf að skýra betur skil milli verkefna, sem eru á lánsfjáráætlun, og þeirra verkefna, sem eru á fjárlögum. Það er út af fyrir sig orðið nokkuð tilgangslaust markmið að vera að setja sér ákveðin mörk varðandi afkomu ríkissjóðs þegar verkefnum, sem ættu samkv. eðli máls að vera á fjárlögum, er skotið inn á lánsfjáráætlun. Með þessu missa menn meira og minna yfirsýn yfir það markmið sem greiðsluhallalaus ríkisbúskapur er annars. Þetta á ekki endilega við í sambandi við afgreiðslu þessarar lánsfjáráætlunar. Þessi skil hafa verið óskýr á undanförnum árum og þar þarf að skilja betur í milli, en það kemur náttúrlega minna að sök ef mál þessi eru til umfjöllunar samhliða.

Þeir aðilar, sem við ræddum við varðandi þetta mál, eins og fram kemur í nál. okkar, voru í fyrsta lagi aðilar frá lífeyrissjóðum: fulltrúar Sambands almennra lífeyrissjóða og Landssambands lífeyrissjóða. Þeir mótmæltu ákvæðum 3. gr. frv. um skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna, en áttu þá samhliða í viðræðum við fjmrn. um þau mál. Því máli lauk þannig, að það var ákveðið af aðilum máls að flytja brtt. sem við í 1. minni hl. flytjum og okkur barst í hendur eftir að þessi mál höfðu hlotið meðhöndlun fjmrn. og þeirra lífeyrissjóðamanna. Við undirritaðir nm. teljum að það sé nauðsynlegt að eiga sem best samstarf við lífeyrissjóðina um skuldabréfakaup, og ég hygg að svo sé með alla, að menn vilji hafa þarna gott samstarf sem byggist á samkomulagi og einnig skilningi lífeyrissjóðanna á nauðsyn þess að draga úr erlendum lántökum eftir því sem kostur er. Fulltrúar þeir, sem komu á okkar fund, lýstu því, að þeir væru fúsir til að gera hvað þeir gætu til að stuðla að þeim markmiðum sem sett eru fram í lánsfjáráætlun um innlenda fjáröflun. Með tilliti til þessa og þess, sem ég áður sagði um þær viðræður sem fóru fram milli lífeyrissjóðanna og fjmrn., leggjum við til að það verði í þessum efnum óbreyttar reglur frá fyrra ári, eins og fram kemur í brtt. á þskj. 535, að því undanskildu að verðtryggð skuldabréfakaup frá sjóðfélögum lífeyrissjóðanna eru ekki talin rúmast innan hinnar svokölluðu 40% reglu sem mun hafa verið sett 1977. Þá var þessi 40% regla sett, en síðan hefur ráðstöfun innan þess ramma verið þrengd nokkuð.

Í öðru lagi komu aðilar frá Byggingarsjóði ríkisins á okkar fund. Kom fram í máli þeirra að ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins er 22.3 milljarðar á árinu 1980. Við leggjum til að það verði gerð breyting á 18. gr., er snertir Byggingarsjóð ríkisins. Þar er fyrst og fremst um leiðréttingu að ræða, eins og fram kemur í okkar nál., og sé ég ekki ástæðu til að rekja það frekar.

Í þriðja lagi komu aðilar frá Byggingarsjóði verkamanna á okkar fund og lýstu fulltrúar frá þeim sjóði áhyggjum varðandi hvernig skilja bæri 19. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir að framlag ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna sé 432.5 millj. Það er rétt að geta þess, að á árinu 1979 fékk þessi sjóður 390 millj. kr. aukaframlag, en í ársbyrjun 1980 var framlag ríkisins til sjóðsins 595 millj. á móti framlagi sveitarfélaganna á árinu 1979. Við viljum taka það skýrt fram, eins og fram kemur í nál., að framlagið sem um getur í þessu frv., þ. e. 432.5 millj., er framlag vegna ársins 1980 og hvenær það framlag verður greitt er að sjálfsögðu samningsatriði aðila, eins og ávallt hefur verið bæði varðandi Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. En aðalatriðið er að það liggi ljóst fyrir á móti hvaða framlagi sveitarfélögin eru að greiða á árinu 1980.

Þá komu fulltrúar Erfðafjársjóðs eða réttara sagt fulltrúar Endurhæfingarráðs á okkar fund, en þeir hefðu sent n. bréf um málefni sín. Við fengum ítarlegar upplýsingar um málefni Endurhæfingarráðs, hvernig það hefur ráðstafað því fjármagni sem það hefur fengið á undanförnum árum. Þrátt fyrir að alltaf megi betur gera í góðum málum kemur þar glöggt fram að það hefur haft stöðugt meira fjármagn til ráðstöfunar til þeirra ágætu mála sem það annast.

Það kemur fram í þessu frv. að gert er ráð fyrir að framlag til Endurhæfingarráðs eða Erfðafjársjóðs verði 327 millj. 300 þús., en sú upphæð er þannig fengin, að á s. l. sumri var við undirbúning fjárlaga, í ráðherratíð Tómasar Árnasonar, gert ráð fyrir að tekjur af erfðafjárskatti yrðu 385 millj. Þetta framlag til Erfðafjársjóðs var síðan skert um 15% frá þeirri upphæð eða lækkað í 323 millj. og 300 þús.

Við undirbúning fjárlaga í vetur kom ný áætlun um tekjur Erfðafjársjóðs, um að tekjur hans yrðu 700 millj. kr. Var það byggt á einföldum prósentureikningi ofan á tekjur ársins 1979 sem taldar hafa verið óvenjumiklar vegna þess að mikið átak var gert í innheimtumálum sjóðsins, svo sem ráðuneytisstjóri fjmrn. skýrði okkur frá. Því miður verður að segja að það er mjög ólíklegt að sú áætlunartala fjárlaganna fái staðist. Það er út af fyrir sig mjög slæmt að fjárlög skuli byggja á þessari tölu sem lítil von eða engin er til að muni standast. En við teljum í okkar nál., að þótt framlagið hækki frá fyrra ári um 81.7% megi alls ekki skerða þessi framlög umfram önnur lögákveðin framlög vegna þeirra miklu viðfangsefna er hér bíða. En fulltrúar Endurhæfingarráðs lögðu einmitt á það ríka áherslu, bæði í viðtölum við okkur og einnig í bréfi til okkar, að tekjur þeirra væru ekki skertar umfram annarra samkv. þeirri stefnumörkun er fram kemur í fjárlagafrv. og fjárlögum.

Síðan segjum við: „Óvissan er mikil um tekjur af erfðafjárskatti.“ Ég vil í því sambandi geta þess, að innheimta fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins er aðeins 61.5 millj. Við undirritaðir nm. teljum að taka beri mál Erfðafjársjóðs upp í haust, þegar ljósara er hverjar tekjurnar verða af erfðafjárskatti, og taka framlagið til endurskoðunar með tilliti til þess og þeirra sjónarmiða sem áður hafa komið fram í þessu nál., og vil ég vitna til þess. Með hvaða hætti þetta verður gert skal ég ekki segja neitt um hér. Það má bæði gera með sérstökum lögum eða með aukafjárveitingu, ef tekjur sjóðsins reynast þess eðlis að svigrúm verði eitthvert til þess.

Auk þess komu fulltrúar frá fjmrn. og fjárlaga- og hagsýslustofnuninni og skýrðu ýmis atriði þessa frv. fyrir okkur nm. Þeir fóru þess á leit við n. að flytja brtt., vegna þess að það eru nokkur fjárframlög eða lántökur sem samþ. voru samkv. fjárlögum sem gert er ráð fyrir að lækki nokkuð eftir endanlega afgreiðslu lánsfjáráætlunar, samtals um 2612 millj., og létu þeir okkur í té yfirlit yfir þessa lækkun frá fjárlögum. Talið var nauðsynlegt að þetta yrði staðfest í lögum og er flutt um það brtt. á þskj. 535,3 sem hljóðar þannig:

„Fjmrh. er heimilt að lækka áformuð lánsfjármögnuð útgjöld fyrirtækja og stofnana í B-hluta fjárlaga um 2612 millj. á árinu 1980.“

Einnig bárust n. ýmis erindi eða komu fram margvísleg ummæli op óskir um að viða væri lítið fjármagn til ráðstöfunar. Ég vil geta þess, að mér barst í hendur bréf frá lítilli hitaveitu, Hitaveitu Svalbarðsstrandar, sem taldi sig þurfa 20 millj. til að hefja framkvæmdir. Ég vænti þess, að það verði litið með velvilja á þetta litla mál. Við töldum okkur að vísu ekki fært að víkka þann ramma sem frv. til lánsfjárlaga byggir á, en ég vænti þess, að vinsamlega verði tekið á málefnum þessarar litlu hitaveitu ef svigrúm er til þess innan ramma lánsfjárlaganna. — Þetta vildi ég sérstaklega taka fram.

Í sambandi við málið að öðru leyti er ljóst að það er hið mikilvægasta. Það gerir kleift að hefja ýmsar mjög mikilvægar framkvæmdir í landinu, þótt því sé ekki að neita að mikið af þeim framkvæmdum hafi þegar farið fram og séu þegar komnar í gang þannig að hér sé í mörgum tilfellum um staðfestingu að ræða á þeim lántökum og þeim framkvæmdum. En ég vil einnig taka það fram, eins og fram kemur í okkar nál., að málið er mikilvægt af ýmsum efnahagslegum ástæðum og varðar því mjög miklu að vel sé á haldið. Tökum við fram ákveðna þætti í tveimur liðum í því sambandi, sem ég kem að síðar.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að það er ekki minna um vert, hvernig lánsfjáráætlun og þær heimildir, sem Alþ. gefur hér, eru notaðar, en að veita þessar heimildir. Ég vil í því sambandi minna á framkvæmd lánsfjáráætlunar á s. l. ári, en þar var upphaflega gert ráð fyrir 15.7 milljarða lántöku samkv. upplýsingum ríkisendurskoðunar, en frávik urðu 6.7 milljarðar, þar af innlend lán 2.9 og erlendar lántökur 3.8 Nú er það langt liðið á árið að menn ættu að sjá betur fyrir hvernig þessi mál öll standa.

Í þessari lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir aukinni sölu á verðtryggðum skuldabréfum til innlánsstofnana. Það er gert ráð fyrir að ríkissjóður selji eða gangist fyrir útgáfu spariskírteina ríkissjóðs. Því til viðbótar kemur til ráðstöfunar innheimtufé spariskírteinalána, samtals 13.7 milljarðar. Þá er gert ráð fyrir að gert verði nýtt samkomulag við viðskiptabankana um framlag eða lán til Framkvæmdasjóðs. Það var svo, að lengst af ráðstöfuðu viðskiptabankarnir 10% af innlánsaukningu til Framkvæmdasjóðs, en síðustu tvö árin hefur þetta hlutfall verið 5% og 4%. Nú er leitað samkomulagsvið viðskiptabanka og sparisjóði um að hlutfall þetta verði hækkað í 7%. Er áætlað að verðbréfakaup samkv. þessu geti numið 6.7 milljörðum. Þá er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir kaupi skuldabréf til að þjóna þeim framkvæmdum, sem fram koma í lánsfjáráætlun, upp á 21.5 milljarða af 50 milljarða ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna.

Undirritaðir nm. eru þeirrar skoðunar, að halda verði erlendum lántökum innan þeirra marka er fram koma í frv., og ekki megi stofna til frekari erlendra lána. Í þessu sambandi viljum við vísa til meðfylgjandi áætlunar um greiðslubyrði langra erlendra lána á árinu 1981, en þar er gert ráð fyrir að áætluð greiðslubyrði sem hlutfall af útflutningstekjum sé um 18%. Hitt er svo annað mál, að það gefur kannske betri mynd að miða löng erlend lán samtals við verga þjóðarframleiðslu, en löng erlend lán í árslok 1979 voru 35% af vergri þjóðarframleiðslu. Það hefur orðið veruleg hækkun á vöxtum og fjármagnskostnaði á erlendum fjármagnsmörkuðum og einnig hefur lánstími verið styttur. Slíkar ráðstafanir og ákvarðanir, eða þróun á erlendum peningamörkuðum, hafa því orðið til þess að greiðslubyrði þyngist sem því nemur.

Hér kemur fram í áliti Seðlabankans, að ef miðað væri hins vegar við vaxtakjör á árinu 1979 mundi greiðslubyrði á árinu 1981 vera rétt innan við 17% af útflutningstekjum eða eins og segir í nýjustu Hagtölum mánaðarins, frá maí 1980: „Í ár er hins vegar gert ráð fyrir að greiðslubyrðin hækki í 16–17%, bæði vegna vaxandi skulda og versnandi vaxtakjara.“ — Þetta rímar ekki alveg saman og hafa þessar tölur því miður verið allmikið á reiki á undanförnum mánuðum vegna breyttra aðstæðna á erlendum fjármagnsmörkuðum. En vonandi verður þess skemmst að bíða að nokkur festa verði í þessum tölum. En eins og ég segi er allt eins gott að miða við heildarskuldir í þessu sambandi sem hlutfall af vergum þjóðartekjum.

Það er því alveg ljóst að framkvæmd þessarar lánsfjáráætlunar er mjög háð sparifjármyndun í landinu og sparnaði. Við viljum þess vegna leggja sérstaka áherslu á þennan þátt mála, ef á að tryggja farsæla framkvæmd lánsfjáráætlunar. Ef þess er ekki gætt er fyrirsjáanlegt að nægilegt fjármagn verði ekki fyrir hendi til að standa við framkvæmdaáform og þess vegna er einnig mikilvægt að allir sjóðir og allir aðilar, sem fá fjármagn til ráðstöfunar samkv. þessari lánsfjáráætlun, fari með gát. Það er út af fyrir sig alls ekki fullvíst að þeir fái allt það fjármagn sem í áætluninni er gert ráð fyrir, nema áform standist með innlendan sparnað, þannig að ég vil ráðleggja viðkomandi sjóðum, ef ég á að ráða þeim heilt, að ráðstafa sínu fé með bærilegri gætni.

Það mætti margt segja um þróun sparnaðar í landinu og sparifjármyndun og heildarfjárfestingu. Heildarfjárfestingin á s. l. ári lækkaði um tæplega 2%, en í lánsfjáráætlun var stefnt að því að lækkunin yrði 7%. Það hefur hins vegar verið veruleg lækkun á fjárfestingu frá árinu 1975, en þá komst fjárfestingin hæst í 33% af vergum þjóðartekjum, en fór niður í 25.3% á s. l. ári. Það er út af fyrir sig matsatriði á hverjum tíma, hversu mikil fjárfestingin skuli vera og í hvað miklar framkvæmdir skuli ráðist. Hitt er svo annað mál, að það liggur fyrir að á þessum árum, frá því að fjárfestingin var 33%, hefur myndast svigrúm til að bæta stöðuna út á við, lækka viðskiptahalla okkar og auka einkaneyslu í þjóðfélaginu.

Ég vil geta þess, að í þessari lánsfjáráætlun, sem hér er lögð til grundvallar, er gert ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um 1.5%, samneysla aukist um 2% og fjármunamyndun aukist um 6.8%. Ef einkaneysla á að dragast saman um 1.5% á árinu 1980 byggist það fyrst og fremst á því, að sparifjármyndun verði með sæmilegu móti. Ef einkaneysla á að dragast saman á annan hátt hlýtur það að gerast með rýrnun kaupmáttar. Þannig er algert lykilatriði varðandi þessa fjárfestingar- og lánsfjáráætlun að sparifjármyndun verði með bærilegum hætti. Þar þarf að snúa verulega til hins betra ef vel á að fara í þessum efnum. Því miður hefur þróunin fyrstu þrjá mánuði árisins verið okkur fremur óhagstæð og mikil ástæða til að hafa áhyggjur af sparnaði landsmanna. En á s. l. ári var sparnaðurinn samtals 24.8% af þjóðarframleiðslu eða lítið eitt minni en heildarfjárfesting í landinu, sem verður að teljast sæmilega viðunandi. Það er gert ráð fyrir í þessari þjóðhagsspá að viðskiptahalli verði um 16 milljarðar, og ef ráðist verður í frekari erlend lán en hér er gert ráð fyrir hlýtur það að koma fram í auknum viðskiptahalla.

Það er oft sagt að það sé ekkert mál að auka erlendar lántökur ef þeim fjármunum sé vel varið til framkvæmda sem skili okkur gjaldeyristekjum eða spari okkur gjaldeyri. Þetta er ekki alveg rétt vegna þess að höfuðatriðið er náttúrlega að raða framkvæmdunum í forgangsröð og leggja mesta áherslu á það sem skilar okkur tekjum til þess að við getum byggt upp aðra þætti í þjóðfélagi okkar og þjóðlífi. Það er ekki rétt að hægt sé að leggja í mjög verulegar erlendar lántökur í þessu sambandi. Það er miklu frekar að raða málaflokkunum í rétta forgangsröð, því að vissulega eru takmörk fyrir því, í hvað er hægt að ráðast í sambandi við þessa málaflokka, hversu vel sem við viljum í þessum efnum.

Herra forseti. Ég gat þess í upphafi máls míns, að ég mundi leitast við að vera stuttorður, og ég ætla að leitast við að standa við þann ásetning minn. En ég vildi aðeins undirstrika það sem fram kemur í lok nál. okkar:

„Mikilvægt er að þess sé gætt í hvívetna að fjármagni því, sem ráðstafað er samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sé vel varið. Í því sambandi má geta þess, að ef spenna verður á vinnumarkaði er hætt við að tilboð verði hærri en kostnaðaráætlanir. Fari hagstæðasta tilboð í verk í heild — eða einstaka verkhluta — fram úr þeim kostnaðaráætlunum, sem fjárfestingar- og lánsfjáráætlun miðast við, er nauðsynlegt að endurmeta heimildir áður en ráðist er í viðkomandi verk.“

Með þessu erum við ekki að segja að það eigi endilega að stöðva þær framkvæmdir sem ráðist er í. Við erum aðeins að leggja áherslu á að hér er sniðinn tiltölulega þröngur rammi og innan hans verða menn að gera allt

það sem ætlunin er að ráðast i. Mér þykir eðlilegt, að með þessu sé fylgst eftir því sem kostur er, og vil í því sambandi vísa til 13. gr. laga nr. 13 frá 10. apríl 1979. En þar segir m. a.:

„Fjárlaga- og hagsýslustofnun skal annast hagsýslustarfsemi fyrir ríkisbúskapinn í því skyni að auka á hagkvæmni og ráðdeild í ríkisbúskapnum og í meðferð opinberra fjármuna.“

Mér þykir sérstök ástæða til að leggja áherslu á þetta hlutverk fjárlaga- og hagsýslustofnunar í þessu sambandi. Við treystum því, að hún reyni sem best að fylgjast með framkvæmd mála og þeim ríkisábyrgðum sem veittar eru samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Með því erum við á engan hátt að gera lítið úr þeim málum sem hér er um að tefla. En hins vegar er það svo mikilvægt mál að vel sé farið með þessa fjármuni og þess sé gætt í hvívetna að vel sé staðið að málum, að við hljótum sem nm. í fjh.- og viðskn. að leggja á það brýna áherslu að svo verði gert, þótt í sjálfu sér höfum við ekki ástæðu til að ætla að svo verði ekki, en viljum undirstrika þennan vilja okkar.

Með tilliti til þess, sem segir í þessu nál. sem mér hefur orðið tíðrætt um og ég hef oft vitnað til, leggjum við til að frv. verði samþ. með þeim þremur breyt. sem fram koma á þskj. 535, en undir þetta nál. rita ég, hv. þm. Ingólfur Guðnason og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson.