19.05.1980
Sameinað þing: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2814)

235. mál, meðferð dómsmála

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég tel samkv. venju rétt að láta örfá orð fylgja skýrslu þeirri um meðferð dómsmála sem lögð var á borð hv. alþm. fyrir skömmu. Skýrsla þessi, sem hér liggur frammi, tekur aðeins til einkamála og sakamála. Hún tekur hins vegar ekki til skipta, fógetagerða og uppboðsmála. Þá tekur hún ekki til meðferðar mála fyrir Hæstarétti.

Með bréfi, dags. 30. jan. s. l., óskaði dómsmrn. eftir upplýsingum um þessa málaflokka sem kynnu að vera til meðferðar hjá dómstólum landsins. Spurt var um í fyrsta lagi einkamál, sem þingfest hefðu verið fyrir 1. jan. 1978 og ólokið var 1. jan. 1980, og í öðru lagi um sakamál, sem ákært hafði verið í fyrir 1. jan. 1979 og ólokið var 1. jan. 1980. Mál eru talin upp eftir umdæmum, fyrst einkamál, og er þar getið þingfestingardags, númers máls og aðila, og síðan sakamál, og er þar getið dagsetningar ákæru, auðkennis máls og tegundar brots. Skýrslan byggir á upplýsingum frá viðkomandi embættum.

Á síðari árum hefur færst í vöxt að starfsmenn dómsmrn. hafa farið í eftirlitsferðir með embættum landsins. Hefur þetta veitt embættunum aukið aðhald við afgreiðslu mála og er nú að því stefnt að slíkar eftirlitsferðir verði farnar til hvers embættis a. m. k. annað hvert ár og í sum embætti árlega.

Þá á skýrsla sem þessi, sem lögð er fyrir Alþingi, sinn þátt í auknu aðhaldi. Ber þessi skýrsla og þess merki, sé hún borin saman við fyrri skýrslur, að óloknum málum virðist fækka. Tilgangur með skýrslu sem þessari er fyrst og fremst að kanna hvort einhvers staðar eigi sér stað óeðlilegur dráttur á afgreiðslu mála, auk þess aðhalds sem hún veitir og áður er getið. Rétt þykir að geta hér nokkurra mála.

Hjá embætti bæjarfógetans í Vestmannaeyjum eru til meðferðar 8 sakamál frá árinu 1972 og eldri. Skýringin á drætti þessara mála er sú, að mikil röskun varð á starfsemi embættisins í kjölfar eldgossins í Heimaey 1973, og munu a. m. k. sum þessara mála hafa glatast þá. Þá er elsta einkamálið frá árinu 1969 við embætti yfirborgardómarans í Reykjavík, þingfest 4. des. 1969. Í því máli gekk dómur 13. des. 1971, en með dómi Hæstaréttar 12. nóv. 1973 var málinu vísað til héraðsdómara að nýju. Eftir var að leita úrskurðar matsnefndar sbr. lög nr. 11 frá 1973, og gekk úrskurður nefndarinnar, 1. maí 1976 og var málinu þá frestað til frekari gagnaöflunar. Munnlegur málflutningur fór fram 30. nóv. 1979 og var málinu þá enn frestað til frekari gagnaöflunar. Dómur var síðan kveðinn upp 21. mars s. l.

Ekki þykir ástæða til að fjölyrða frekar um einstök mál, en yfirleitt má segja að gangur þeirra hafi verið með eðlilegum hætti. Má segja, að meðferð mála fyrir dómstólum hér á landi sé á réttri braut ef litið er til þess tíma sem meðferðin tekur, því að heldur virðist meðferðartíminn styttast en lengjast.