20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2930 í B-deild Alþingistíðinda. (2901)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og allir þm. hafa orðið varir við hefur ríkt nokkurt upplausnarástand á Alþingi á undanförnum dögum. Ástæðan er ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna annars vegar og Sjálfstfl. hins vegar um afgreiðslu tiltekins þingmáls. Alþfl. hefur ekki verið aðili að þeirri deilu. Afstaða okkar þm. Alþfl. hefur verið sú og er sú, að við erum reiðubúnir til þess og vorum reiðubúnir til þess að standa að samkomulagi um þinglausnir í dag og vorum jafnframt reiðubúnir til að standa að afgreiðslu þeirra mála sem hæstv. ríkisstj. óskaði eftir afgreiðslu á. Við höfum jafnframt tjáð ríkisstj., að ef hún teldi nauðsynlegt og samkomulag gæti orðið um að fresta þinglausnum væri þingflokkur Alþfl. reiðubúinn til slíks samkomulags. Þannig höfum við þm. Alþfl. staðið utan við deilur sem verið hafa á þinginu undanfarna daga, þó að við höfum að sjálfsögðu ekki komist hjá því frekar en aðrir alþm. að stjórnleysið á þingstörfunum hér upp á síðkastið hafi bitnað á þm. Alþfl. eins og þm. annarra flokka. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér nú hljóðs til að ræða þinghaldið og beina ákveðnum spurningum til hæstv. forsrh. er því ekki þessi deila um afgreiðslu tiltekins máls hér á þingi, heldur þær nýju aðstæður sem við horfumst í augu við eftir yfirlýsingar tveggja hæstv. ráðh. í útvarpsumr. í gær.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á undanförnum dögum hafa verið flugufregnir á ferðinni, m. a. í blöðum, þar sem spáð er að hæstv. ríkisstj. sé að ráðgera ýmsar aðgerðir í vísitölumálum fyrir 1. júní n. k. Ljóst er að verðbólgan í valdatíð hæstv. ríkisstj. hefur orðið talsvert miklu meiri en spáð var að hún yrði miðað við að menn hefðust ekki að. Ríkisstj. ætlaði sér að hafast að og lækka verðbólguna frá því sem spáð hafði verið, en niðurstaðan er sú, að ekki aðeins hefur ríkisstj. ekkert orðið ágengt, heldur hefur verðbólgan vaxið meir en spáð var að hún mundi vaxa í upphafi valdaferils hæstv. ríkisstj.

Lausafregnir í blöðum hafa fjallað um að í ríkisstj. hafi menn rætt um þrjár leiðir til að taka á þessum málum: Í fyrsta lagi að fresta vísitölubótum á laun sem greiðast eiga 1. júní. Í öðru lagi að hækka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum, þó svo að ekki hafi verið sérstaklega séð fyrir fé til þess í nýlega samþykktum fjárlögum. Og í þriðja lagi að hugsanlegt væri að ríkisstj. íhugaði að breyta sjálfum vísitölugrundvellinum, vísitöluútreikningunum, til að draga úr þeirri kauphækkun sem annars ætti að verða 1. júní n. k. til að bæta verkalýðsfélögunum og verkafólki upp þær hækkanir sem orðið hafa á valdatíð ríkisstj. Ég verð að segja að eftir að hafa hlustað á tvo hæstv. ráðh. í gær finnst mér ástæða til að ætla að þessar fregnir séu meira en flugufregnir. Ég vil í þessu sambandi vitna til orða þessara hæstv. ráðh. og þá fyrst til orða hæstv. menntmrh., Ingvars Gíslasonar.

Eftir að hann hafði rætt um markmið ríkisstj. í efnahagsmálum, m. a. þá stefnu hennar að sjá varanlegan árangur í niðurfærslu verðbólgu árið 1982, sagði hæstv. ráðh. orðrétt, með leyfi forseta:

„Til þess að það megi takast verður þó strax að hefjast handa um að feta sig niður á við í verðlags- og kaupgjaldsstiganum, enda er verðbólgan í eðli sínu alltaf víxlverkun verðlags og kaupgjalds.“

Ráðh. sagði einnig:

„Nú blasa við á næsta leiti, þ. e. 1. júní, miklar vísitöluhækkanir og því er ekki að leyna að ef þessar hækkanir koma fram, e. t. v. 11–12% samkv. verðbótavísitölu, mun örðugt fyrir ríkisstj. að standa við fyrirheit sín um niðurfærslu almenns verðlags sem lið í því að koma verðbólgu smám saman niður á viðráðanlegt stig. Þess vegna verður að finna leið til þess að milda áhrif vísitöluhækkananna 1. júní.“ — Til þess að milda áhrif vísitöluhækkananna 1. júní, sagði hæstv. ráðh. Þetta þýðir á mæltu máli: Til þess að draga úr þeim verðbótagreiðslum sem launþegar í landinu eiga að fá 1. júní n. k. til að bæta þeim upp þær verðhækkanir sem orðið hafa á ferli hæstv. ríkisstj. Og hæstv. ráðh. bætir við og segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Segja má að þetta sé nú brýnasta viðfangsefnið eins og sakir standa.“ — Það sé brýnasta viðfangsefnið eins og sakir standa að milda áhrif vísitöluhækkananna 1. júní, m. ö. o. að lækka launabætur sem launþegar í landinu eiga þá væntanlega að fá.

Hæstv. ráðh. sagði einnig orðrétt, með leyfi forseta: „Því er gjarnan haldið fram, að tilslökun launþega, bænda og sjómanna frá forskriftum kerfisins þýði kjararýrnun fyrir hlutaðeigandi stéttir sem þær hafa ekki efni á að veita, og satt mun það að útreikningar af einföldustu gerð og einhliða viðmiðun styður slíka skoðun. Miðað við þá óhjákvæmilegu víxlverkun verðlags og kaupgjalds sem verðbólgan er, þá verður ekki hjá því komist að víkja af vegi vanans og rétttrúarstefnunar í kauplags- og verðlagsmálum. Séð í því ljósi gerir launþeginn, bóndinn eða sjómaðurinn miklu meira en að hafa efni á að hliðra til í kerfinu. Sannleikurinn er sá, að hann hefur ekki efni á að gera það ekki.“

Þetta voru orð hæstv. menntmrh. í útvarpsumr. í gær. Þar leiðir hann rök að því að eigin mati, að íslenskt launafólk hafi ekki efni á öðru en að hliðra til í kerfinu fyrir 1. júní, m. ö. o. að afsala sér verðbótum sem launafólk á að fá lögum samkvæmt sakir mikilla verðlagshækkana sem orðið hafa í valdatíð hæstv. ríkisstj.

Hæstv. sjútvrh. og formaður Framsfl. kvað enn fastar að orði. Hann sagði í útvarpsumr. í gærkvöld, með leyfi hæstv. forseta, eftir að hafa talað um vandann sem við væri að fást í efnahagsmálum nú, orðrétt:

„Við framsóknarmenn viljum mæta þessum vanda með því að fella niður eða fresta a. m. k. tveimur til þremur vísitölustigum. Þetta má gera með auknum niðurgreiðslum í samræmi við stjórnarsáttmálann og með því að dreifa hækkun húsaleiguvísitölu yfir fleiri ársfjórðunga, sem ætti að vera unnt, ekki síst ef miklar félagslegar umbætur eru einhvers metnar.“

Síðan segir hæstv. ráðh.: „Að sjálfsögðu verður þó ekkert slíkt gert gegn vilja launþega, bænda og sjómanna“.

Hitt er alveg ljóst, sem af þessum orðum má marka, að hér lýsir formaður Framsfl. því yfir, að framsóknarmenn vilji mæta þessum vanda í efnahagsmálum með því að fella niður eða fresta a. m. k. 2–3 vísitölustigum sem koma eiga til greiðslu á kaup fólksins í landinu 1. júní n. k. Þessar breytingar er ekki hægt að gera varðandi vísitölugreiðslur til launfólks nema með lögum. Launafólk hefur nú ákveðinn lögverndaðan rétt til að fá verðlagsbætur greiddar á laun. Menn geta deilt um hvort þær verðlagsbætur eru réttlátar eða ekki, hvort það kerfi, sem þessar verðlagsbætur eru greiddar eftir, er rétt og satt eða hvort því megi breyta. En hitt er staðreynd, að samkv. þessum lögum verður framkvæmd á greiðslu verðlagsbóta til launþega 1. júní n. k. ekki breytt. Þær verðlagsbætur verða hvorki lækkaðar né verður þeim frestað né verða þær greiddar niður nema með lagabreytingu. Ef til niðurgreiðslna hefði átt að grípa hefðu þær niðurgreiðslur átt að vera komnar fram fyrir 1. maí s. l. Að það skuli ekki hafa verið gert krefst þess að lögum verði breytt ef nota á niðurgreiðslur í þessu sambandi, sem ekkert fé er raunar til fyrir. Ef aðrar leiðir á að velja verður einnig að breyta lögum.

Nú er hæstv. ríkisstj. að leita eftir samkomulagi við flokka þingsins um að ljúka þinghaldi á allra næstu dögum, en nú eru 11 dagar þangað til l. júní rennur upp. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, áður en lengra er haldið, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. skýri betur þessi afdráttarlausu ummæli sem féllu frá tveimur ráðh. í útvarpsumræðum í gær, svo að menn viti hvað raunverulega stendur til. Ég held að nauðsynlegt sé að leggja spurningar fyrir hæstv. forsrh. og fá þeim afdráttarlaust svarað áður en lengra er haldið:

Í fyrsta lagi: Er ætlun ríkisstj. að gera með lagabreytingum aðgerðir til að festa, lækka eða greiða niður vísitölubætur sem fólkið í landinu á að fá 1. júní n. k.?

Í öðru lagi: Fæ ég ekki yfirlýsingu frá hæstv. forsrh. um að engin ákvörðun verði tekin um þinglausnir fyrr en fyrir liggur hvort hæstv. ríkisstj. hefur slíkar fyrirætlanir uppi eða ekki?

Alveg laust við allt efni þessa máls held ég að það sé öllum alþm. og öllum þeim, sem virða starfshætti löggjafarstofnunar, ljóst, að ekki nær nokkurri átt, það er hreint siðleysi, að láta þinglausnir fara fram t. d. einhvern tíma milli 20. og 28. dags maímánaðar ef ríkisstj. ætlar sér, eftir að þing er farið heim, þá 2–5 daga sem þá lifa af mánuðinum, að setja brbl. um svo viðkvæmt málefni. Ef lagabreyting er í aðsigi hvað varðar vísitölumál fyrir 1. júní er það sanngirniskrafa, þá er það þingræðiskrafa að við fáum að vita það nú og slík mál verði ekki afgreidd með bráðabirgðalagasetningu 2–3 síðustu daga maímánaðar, ef vitað er að undirbúningur að slíkri löggjöf kann þegar að vera hafinn og hæstv. ríkisstj. er að ræða slíkar aðgerðir.