20.05.1980
Neðri deild: 82. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2916)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil segja í sambandi við það ákvæði til bráðabirgða sem hér hefur verið samþykkt, svo að það sé enginn misskilningur í því sambandi, að í n. var sú skoðun uppi að algjörlega óþarft væri að setja slíka heimild í lögin, allar slíkar heimildir væru fyrir hendi.

Í fyrsta lagi greiðir ríkissjóður framlag á fjarlögum til Rafmagnsveitna ríkisins, 1 milljarð. Það framlag má hækka ef menn finna einhvers staðar peninga, sérstaklega ef þeir eru einhvers staðar afgangs, og ríkisstj. hefur allar heimildir til þess.

Í öðru lagi er heimild í 7. gr. frv. til að greiða sérstakt framlag til varmaveitna og rafveitna. Er gert ráð fyrir 240 millj. og það má einnig hækka. Hér eru því allar heimildir fyrir hendi.

Þetta er vandamál sem við viðurkenndum að þyrfti að taka á, en við teljum að ekki þurfi neina sérstaka viðbótarheimild. Það er út af fyrir sig saklaust, þó að ein heimildin enn bætist við, ef hæstv. ríkisstj. finnur einhvers staðar peninga til framkvæmdar málsins. Ég sé því ekkert því til fyrirstöðu að hún hafi þarna þrefaldar heimildir. En ég vildi taka þetta fram, þannig að ekki væri misskilningur varðandi afstöðu n. til málsins.