21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2978 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. lauk ræðu sinni hér með því að undirstrika það, að ekki væri ágreiningur um þetta mál, þ. e. það væri ekki ágreiningur um að það eigi að gera átak í því að jafna betur hitunarkostnað en hefur verið. Ég hef líka gengið út frá því, að það væri ekki ágreiningur um þetta. Um þetta höfum við verið að tala allan tímann. Þegar við lögðum fram frv. okkar, sem ég og hæstv. ráðh. stöndum að og ég hef hér áður í umr. gert að umræðuefni, þá lögðum við áherslu á að ástandið væri svo slæmt að það yrði að gera verulegt átak í þessum efnum. Við héldum því fram, að þær búsifjar, sem verðhækkun olíunnar hefur valdið því fólki sem býr á olíuhitunarsvæðunum, væru svo miklar að jafna mætti við áföll vegna náttúruhamfara eða aðra óáran sem sjálfsagt þætti. að hið opinbera bætti úr þegar í stað. Við lögðum áherslu á það, að aðgerðaleysi í þessum efnum væri í hróplegri mótsögn við anda þeirrar samhjálpar og skilnings sem þjóðin væri vön að sýna þeim sem í nauðum væru staddir. Þetta var það sjónarmið sem við vorum að túlka. Og til þess að mæta þessum vanda lögðum við fram frv. okkar hér snemma á þinginu.

Þegar talað er um að það sé samstaða um þetta mál, þá hef ég alltaf viljað leyfa mér að vona að það væri samstaða um að það þyrfti að taka það jafnalvarlegum tökum og þessi skoðun, sem ég hef hér minnt á, gerir ráð fyrir. Þetta þýðir það, að það var nauðsynlegt — og það máttum við allir vita — að auka stórlega það fé sem þyrfti að ganga til niðurgreiðslu olíu. En því miður hefur þetta ekki verið haft í huga. Hæstv. viðskrh. minnti á það, sem við vitum allir, að það er ekki gert ráð fyrir nema 4 milljörðum kr. í þessar þarfir á þessu ári. Í grg. með frv. því til fjárlaga, sem núv. hæstv. viðskrh. lagði fram, var gert ráð fyrir því, að til þessara þarfa þyrfti á þessu ári 3.6 milljarða kr. Þá var miðað við að ástandið væri óbreytt, olíustyrkurinn væri samkv. sömu reglum og giltu á síðasta ári, 3.6 milljarðar. En við vorum fyrr á þinginu að hugsa um miklu stærri upphæðir í þessu efni. Það var tómt mál að tala um einhverjar umtalsverðar umbætur á þessu sviði nema varið væri miklu meira fé til þess. Eftir allar þessar umr. og allt þetta samhljóða tal um að það yrði að gera stórt átak í þessum málum kemur það sem við stöndum núna frammi fyrir, að það á að auka þetta framlag aðeins um 400 millj. kr. Þetta er hið alvarlega atriði.

Hv. 11. landsk. þm. sagði í upphafi sinnar ræðu, að það væri nú eins og raunar hefði alltaf verið, að aðalatriðið væri fjármögnun, þ. e. að fá fjármagn til þessa. Ég skil ósköp vel það sem hæstv. viðskrh. sagði í ræðu sinni áðan, að það væri erfitt um vik, úr því sem komið væri, að gera mikið umtalsvert í þessu efni fram yfir það sem gert hefur verið. Það sjáum við allir að hlýtur að vera erfitt. Þó sagði hæstv. ráðh. að það ætti að nota heimildir 7. gr. þessa frv., og er ánægjulegt að vita það, en skammt nær það. Ég vék að þessum heimildum í minni fyrri ræðu og skal ekki fara að tíunda það hér. En ég spyr nú: Ef á að nota þessar heimildir, hvers vegna í ósköpunum eru þá þessar aðgerðir settar í heimildarform og breytt um frá því sem er í gildandi lögum, að það skuli greiða niður verð olíu í þeim tilvikum sem þessar heimildir ná til? Hvers vegna? spyr ég.

Hæstv. ráðh. er mér sammála í því eins og mörgu öðru, hversu nauðsynlegt er að stuðla að því að hitaveitum verði komið upp í þeim byggðarlögum, á þeim þéttbýlisstöðum í landinu þar sem ekki er jarðvarmi fyrir hendi. — Í frv. okkar beggja og félaga okkar, sem við lögðum áður fram, var þessi þörf undirstrikuð sérstaklega með því, að í því frv. er gert ráð fyrir að olía, sem notuð er sem orkugjafi í slíkum hitaveitum, sé greidd niður hliðstætt því sem er um aðra olíu til upphitunar húsa. Ákvæði um þetta er ekki að finna í þessu frv. Það er náttúrlega óskaplega mikill ágalli, vegna þess að ég held að við hljótum að vera sammála um það, að eitt af því, sem er mikilvægast í þessum málum nú, er að gera mögulegt að koma upp þessum hitaveitum einmitt á þeim stöðum sem eru ekki svo vel settir að það sé jarðvarmi fyrir hendi, a. m. k. ekki enn sem komið er. Og við sjáum afleiðingarnar af því að hafa ekki þessi sjónarmið í heiðri.

Hæstv. ráðh. vék aðeins í þessu sambandi að Vestfjörðum. Ég aðeins impraði á því máli í minni fyrri ræðu, þó algjörlega óbeint og áreitnislaust, og ég ætla ekki að fara að ræða þau mál hér. En við sjáum hvað andkannalega það kemur út þegar menn hafa ekki hugfast hve mikilvægar þessar þarfir eru.

Af því að Vestfirðir hafa verið nefndir, þá er þess að geta, að þar var farið fram á fjármagn til þess að koma upp fjarvarmaveitu eða hitaveitu með olíu eða öðrum orkugjöfum en jarðvarma í þremur stöðum sem hæstv. ráðh. minnti á. Það var veitt í þessu skyni eða gert ráð fyrir 500 millj. kr. En til þriggja staða á Austfjörðum: Hornafjarðar, Seyðisfjarðar og Egilsstaða — það voru líka þrír staðir þar sem þurftu á þessu að halda — eru veittar 1 800 millj. Ég hef ekki fengið skýringu á þessu. Mér finnst þetta ákaflega hliðstætt, nema að því leyti að það er nálægt helmingi fleira fólk á þessum stöðum á Vestfjörðum samanlagt heldur en er á Austfjarðastöðunum samanlagt. Ég ætla ekki a3 fara að metast á um þetta vegna þess að Austfjarðaframkvæmdirnar eru sjálfsagðar og ég er alveg með þeim. En þá ætti það ekki síður að hafa verið þjóðhagslega mikilvægt að aðstoða Vestfirðinga á hliðstæðan hátt og Austfirðinga á að aðstoða í þessu efni á þessu ári.

En hvers vegna er ég að minnast á þetta? Ég hefði ekki minnst á þetta nema af því að hæstv. ráðh. kom inn á þetta mál í ræðu sinni áðan. En ég er að minnast á þetta vegna þess að þetta er dæmi um það, hve það er mikil skammsýni frá þjóðhagslegu sjónarmiði að leggja sig ekki meira fram um að styðja þessar framkvæmdir heldur en hæstv. núv. ríkisstj. gerir. Það tjóar ekki í þessu efni að segja að það vanti peninga, vegna þess að ef okkur er alvara með það að einhver sérstök mál hafi forgang, þá er svo ekki nema við framkvæmum það og ef með þarf með því að skera niður önnur útgjöld. Annars er ekkert mark á því takandi þegar við erum að tala um að sérstök mál eigi að hafa forgang.

Ég hef hér vikið að nokkrum atriðum að gefnu tilefni í ræðu hæstv. viðskrh. Ég hef ekki verið stórorður eða með beinar ádeilur á einn eða neinn. Ég hef viljað ræða þessi mál í þeim anda að það gæti þrátt fyrir allt verið möguleiki á því, að samstaða næðist um að lagfæra þetta frv. Og mikið færi nú vel á því, að það tækist í þessari deild þegar við höfum fengið það svo ófullkomið úr Nd. En ef okkur á að takast að gera þetta, þá verðum við að gera okkur grein fyrir því, að það þarf að verja meira fjármagni til þessa, umtalsvert hærri upphæð en var á síðasta ári. Þó að núna sé gert ráð fyrir að það fari 400 millj. kr. meira fjármagn til þessara hluta á þessu ári en á síðasta ári, þá leyfi ég mér að efast um að það sé nema að forminu til, það verði ekki gert meira raunverulega heldur en þurfti að gera samkv. þeim reglum sem nú gilda.

Við bíðum og sjáum til hverju fram vindur í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar. Ég vil leyfa mér að vona í lengstu lög, miðað við forsögu þessa máls, sögu þessa máls á þessu þingi og það ágæta frv. sem við hæstv. viðskrh. lögðum fram fyrr á þinginu ásamt félögum okkar. Þegar allt þetta er skoðað hlýtur maður að gera sér vonir um að nú verði eitthvað gert.