22.05.1980
Neðri deild: 84. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3048 í B-deild Alþingistíðinda. (2984)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson, formaður fjh.- og viðskn. Nd., hefur svarað fsp. sem hér hafa komið um ný iðnaðarverkefni, og ég tel að ekki þurfi þar neinu við að bæta.

En varðandi fsp. hv. þm. Péturs Sigurðssonar um Atvinnuleysistryggingasjóð, sem hér bar á góma í dag og ég hélt að hefði verið svarað endanlega þá, en vegna þess að hann ítrekar þetta mál nú, þá þykir mér rétt að gera nánari grein fyrir málinu en ég gerði í dag. Sú grg. er þá einfaldlega á þann veg, að eins og ég tók fram í dag var skuld ríkisins við Atvinnuleysistryggingasjóð í árslok 1978 1 milljarður 74 millj. og skuld ríkissjóðs við Atvinnuleysistryggingasjóð í árslok 19791 milljarður 47 millj. Ef síðan er litið á greiðslustreymi milli ríkissjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs á fyrstu fjórum mánuðum ársins er það eins og hér segir:

Skuld í árslok 1979 greidd upp 1 milljarður 47 millj. Framlag ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi ársins 1980 559 millj. Iðgjöld atvinnurekenda, sbr. fjárlög, á fyrstu fjórum mánuðum 372 millj. Eftirlaun aldraðra, þau hin nýrri eftirlaun, eins og þau eru kölluð hér til styttingar, 242 millj. Eftirlaun aldraðra, þau hin eldri, eins og þau eru hér kölluð, 92 millj. Samanlagt 2 milljarðar 312 millj. Til frádráttar verður þá skuld sem myndast hefur síðan, 1 milljarður 74 millj. Eins og ég sagði hér í dag, þegar allt er tekið með í reikninginn, hvort heldur er framlag ríkissjóðs eða iðgjöld sem innheimt eru frá atvinnurekendum, þá er skuldaaukningin frá seinustu áramótum úr 1047 millj. í 1074, nettó 27 milljónir. Þetta geta menn auðvitað kallað gífurlega skuldasöfnun, en ég kalla það tilviljun.