22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3062 í B-deild Alþingistíðinda. (3011)

138. mál, tilraunaveiðar með dragnót

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil einnig þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðh. fyrir svör varðandi þetta mál. Ég kveð mér aðeins hljóðs vegna þess að um þetta mál var fjallað í fyrra í sjútvn. Ed. og þaðan var málið afgreitt til ríkisstj. með ákveðnu fororði sem mér virðist nú að Hafrannsóknastofnun hafi ekki uppfyllt að öllu leyti.

Ástæðan fyrir því, að þessi háttur var á hafður í Ed., var fyrst og fremst sú, að í því höfuðvígi fjandmanna dragnótarinnar á Íslandi yfirleitt, sem Ed. hefur verið og þó fyrst og fremst dragnótaveiða í Faxaflóa, gerðu menn sér eigi að síður grein fyrir því, að enn væri málið svo viðkvæmt að það væri pólitískt hættulegt hérna við flóann að samþykkja frv., sem Ólafur Björnsson flutti hér og sætti ámæli fyrir af því að hann er sjálfur fiskverkandi. Hitt var þó mála sannast, að Ólafur féllst á allar uppástungur nm. um varúðarráðstafanir í þessu skyni, m. a. að notaður yrði 170 mm möskvi, að allur bolfiskur yrði upptækur ger umfram 15% í afla úr hverjum róðri sem félli til.

Niðurstaðan varð sú, að óskað var eftir því af hálfu sjútvn. Ed., að tilraununum hér í Faxaflóa yrði haldið áfram með þeim skilyrðum, sem samstaða hafði náðst um í sjútvn. Ed., og kveðið á um ósk á þá lund, að reynd yrði kolaveiði með öðrum veiðarfærum en dragnótinni til þess að gengið yrði úr skugga um hvort hægt yrði að ná þessum afla með veiðarfærum sem íslenska þjóðin tortryggði ekki af slíkum ofsa sem dragnótina.

Ég vil aðeins minna á í sambandi við fyrirheit hæstv. sjútvrh. um að taka nú þetta mál upp að nýju næsta haust, ef niðurstöður af veiðitilraunum í sumar yrðu álíka meinlausar og í fyrra, að hafin var rétt ein undirskriftasöfnun hérna á Reykjavíkursvæðinu á móti dragnótinni einmitt í fyrra og það var með ólíkindum hversu margir skrifuðu undir mótmæli gegn dragnót á bensínstöðvum og bílaþvottaplönum og biðstofum bankanna hér í Reykjavík. Sjálfur sá ég undirskriftaplagg þar sem breytt hafði verið hausnum, sem undirritaður var, á þá lund, að mótmælt væri dragnótaveiðum í Faxaflóa og mælt með friðun Heiðmerkur, og sá listi hafði verið útfylltur til hlítar.

En ég vil vara við því að fara ógætilega aftur í haust gagnvart því fólki, sem trúir á illsku dragnótarinnar, og óska þess, að því verði beint til Hafrannsóknastofnunar að hún framkvæmi þessa tilraun í líkingu við það sem beðið var um af hálfu Ed. í fyrra þegar fjallað var um málið.