22.05.1980
Efri deild: 102. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3091 í B-deild Alþingistíðinda. (3060)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að þakka hæstv. iðnrh. þá yfirlýsingu sem hann hefur hér gefið varðandi vandamál Hitaveitu Siglufjarðar og Rafmagnsveitu Siglufjarðar. Ég efast ekki um að hann muni framfylgja þeim orðum sem hann hér lét falla um að þessi málefni yrðu tekin til alveg sérstakrar skoðunar. Þarna er um alveg sérstætt vandamál að tefla, þar sem báðar þessar stofnanir bæjarins eru í miklum fjárhagsvanda, og ég fæ ekki séð að Siglufjörður megni að rísa undir þessu alveg næstu árin nema með einhvers konar hjálp frá ríkisins hálfu, a. m. k. að dýrum og erfiðum og stuttum lánum verði breytt þannig að bæjarfélagið fái undir þeim risið. Hvort tveggja eru þetta mjög góðar framkvæmdir, vil ég halda fram,og verða mikil lyftistöng Siglufirði í framtíðinni, en þessi tímabundnu vandamál eru fyrir hendi, eins og ráðh. upplýsti að sér væri fullkunnugt um. Hann sagði að hann hefði í hyggju að taka þau vandamál til alveg sérstakrar skoðunar og leysa það mál kannske bæði á grundvelli þeirra laga, sem hér verða væntanlega samþykkt, og eins með öðrum hætti. Ég er honum þakklátur fyrir það og jafnframt fyrir að hann skyldi geta sérstaklega um vanda Hitaveitu Blönduóss.