09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

23. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil fagna því, að hér er fram komið frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Frv. um sveitina hefur verið lagt fram tvisvar áður hér á Alþ., en ekki hlotið afgreiðslu. Ég vil jafnframt vekja athygli á og árétta það sem hæstv. menntmrh. sagði, að það er mikil nauðsyn að afgreiða frv. á þessu þingi, þar sem framtíð Sinfóníuhljómsveitarinnar er ella í nokkurri óvissu, e.t.v. meiri óvissu nú en oft áður, eins og ég skal greina nokkru nánar frá.

Um Sinfóníuhljómsveitina eru engin lög, en kostnaðarskipting við rekstur sveitarinnar nú byggist á óformlegu samkomulagi sem gert var á sínum tíma á milli ríkis, borgarsjóðs og Ríkisútvarps og greiðir ríkissjóður nú 50.6%, borgarsjóður 21.4% og Ríkisútvarp 28%. Það eru engir samningar um þessa kostnaðarskiptingu, og því er hér nánast um munnlegt samkomulag að ræða, en á sínum tíma þegar hljómsveitin átti í verulegum erfiðleikum, gerðist Reykjavíkurborg aðili að hljómsveitinni og stuðlaði þar með að framtíð hennar. En í borgarstjórn Reykjavíkur hefur undanfarin ár verið vaxandi óánægja með þessa kostnaðarskiptingu. Ég held að enginn ágreiningur hafi verið um það í borgarstjórn, að óeðlilegt væri að eitt sveitarfélag hér á höfuðborgarsvæðinu greiddi jafnríflegan hluta af rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar og raun ber vitni um. Það þarf ekki annað en fara á sinfóníutónleika til þess að sjá að íbúar Seltjarnarness, Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar kunna ekki síður að meta störf hljómsveitarinnar en Reykvíkingar, og því er óeðlilegt að Reykjavík ein sé rekstraraðili. Hitt kann að valda meiri ágreiningi í borgarstjórn, hversu langt skuli ganga til að tryggja eðlilega starfsemi sveitarinnar. Á undanförnum árum hafa verið fluttar ýmsar till. í borgarstjórn, sem ganga mismunandi langt, allt frá því að takmarka mun meir en nú er útgjöld borgarinnar til sveitarinnar og að því marki að fella með öllu niður framlög borgarsjóðs. En hitt get ég fullyrt, að enginn í borgarstjórn mælir þó núverandi fyrirkomulagi bót.

Annað, sem valdið hefur verulegri óánægju, eru þeir miklu bakreikningar sem ávallt hafa borist. Fjárframlög í fjárhagsáætlun borgarinnar hafa verið miðuð við fjárlög, en þær tölur hafa ávallt reynst mjög óraunhæfar og í uppgjöri við ríkissjóð hafa því komið fram ári seinna stórir bakreikningar sem borgarsjóður hefur þurft að greiða.

Allar þessar umr. í borgarstjórn undanfarin ár leiddu til þess, að á s.l. vetri, eða nánar til tekið 12. jan. 1979, var menntmrn. ritað bréf þar sem fram kemur að Reykjavíkurborg vilji ekki lengur una því, að hún greiði eitt sveitarfélaga til hljómsveitarinnar. „Hefur því verið ákveðið að miða framlög til hljómsveitarinnar á árinu 1979 við þær kostnaðarreglur, sem gilt hefðu, ef áðurnefnt lagafrv. hefði náð fram að ganga,“ eins og segir orðrétt í bréfinu, þ.e. í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 1979, og í þeim till., sem nú liggja fyrir fyrir árið 1980, er ekki gert ráð fyrir hærra framlagi til sveitarinnar en verið hefði ef frv., sem lagt var fram á Alþ. í maí s.l. og á Alþ. þar áður, hefði náð fram að ganga. Af þessu má sjá, að núverandi grundvöllur hljómsveitarinnar er mjög farinn að riðlast. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að afgreiða málið á þessu þingi þannig að Sinfóníuhljómsveitin fái lög og þar með eðlilegan grundvöll til að standa á.

Ég vil gera eina aths. við frv. eins og það liggur fyrir. Í 3. gr. er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg sé greiðsluaðili framlags þeirra sveitarfélaga sem eigi að greiða til hljómsveitarinnar, en framlagið skiptist síðan í hlutfalli við íbúatölu þeirra. Þetta er óeðlilegt ákvæði. Það er óeðlilegt að Reykjavik, þó stærst sé þessara sveitarfélaga, innheimti gjaldið hjá öðrum og skili því í ríkissjóð. Hitt mun eðlilegra, að þessi sveitarfélög greiði hvert fyrir sig sinn hlut beint í ríkissjóð, enda hefur ríkið í sambandi við uppgjör milli sveitarfélaga, t.d. í gegnum Jöfnunarsjóð, öll tök á því að ná þessum greiðslum inn.

Ég hef bent á að framtíð Sinfóníuhljómsveitarinnar er í nokkurri hættu, ef frv. eins og þetta verður ekki samþ. hér á hv. Alþ., en það er mín skoðun, að framtíð þessarar sveitar megi ekki stofna í hættu. Sinfóníuhljómsveit Íslands myndar grundvöll að tónlistarlífi í landinu. Hljómsveitin er svo snar þáttur í því, að hér sé lifað tónmenningarlífi, að legðist hún niður, þá hyrfi fleira með sem menn sjá ekki í fljótu bragði. Þess vegna verður að ganga í það af fullri alvöru að setja hljómsveitinni lög og tryggja framtíð hennar.