28.05.1980
Efri deild: 104. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3152 í B-deild Alþingistíðinda. (3099)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Frsm. 3. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mun hvorki fjölyrða um einstaka þætti í þessu frv. til lánsfjárlaga né heldur einstaka þætti í lánsfjáráætluninni. Lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun er að sjálfsögðu ætlað að sýna stefnu ríkisstj. í fjárfestingarmálum, í peningamálum og að því er varðar þá lánsfjármarkaðinn. Fyrirliggjandi lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga einkennast að sjálfsögðu af fáeinum meginatriðum, nefnilega verulegri aukningu heildarfjárfestingar, mjög verulegri aukningu erlendra skulda, sérstakri hækkun á fjárfestingu hins opinbera, en stöðnun í fjármunamyndun og uppbyggingu hjá atvinnuvegunum. Um eiginlega peningamálastjórn, sem er þó ekki síðri þáttur í þessum málum, verður hins vegar lítið ráðið af þessum gögnum annað en að ætlunin sé að mjólka bankakerfið og lífeyrissjóði til að standa undir almennum opinberum umsvifum í fjárfestingum.

Að því er varðar peningamál og lánsfjármarkaðinn sé ég ástæðu til að fara um það nokkrum orðum.

Það er áreiðanlega svo, að fátt er nauðsynlegra íslensku efnahagslífi en styrk og sanngjörn peningamálastjórn og aukning í innlendum sparnaði. Þetta er nauðsynlegt til að ná jafnvægi í efnahagslífinu og hamla gegn verðbólgu. Einn mikilvægasti þáttur slíkrar peningamálastjórnar er auðvitað jákvæð raunávöxtun og verðtrygging sparifjár. Ég held að það sé vafalaust, að þau spor, sem stigin voru á s. l. ári í þessa átt, lofuðu góðu. Það er hins vegar hörmulegt að horfa upp á flótta ríkisstj. frá verðtryggingu sparifjár. Það hefur líka haft þau áhrif, að almennur sparnaður hefur stórminnkað og fé streymir nú út úr bönkunum, eins og hv. þm. Lárus Jónsson gerði að umtalsefni áðan. Þrátt fyrir góð aflabrögð og miklar gjaldeyristekjur er þetta auðvitað mikið áhyggjuefni, en bein afleiðing af þeim ákvörðunum sem ríkisstj. tók í sambandi við vextina hinn 1. mars. Með þessu háttalagi hefur ríkisstj. jafnframt prettað sparifjáreigendur.

Það er kaldhæðnislegt, að einmitt við þessar aðstæður, sem einkennast af fjárflótta úr bankakerfinu, skuli ríkisstj. ætla sér samkv, lánsfjáráætlun sinni að draga til sín í opinber umsvif 20.4 milljarða kr. út úr bankakerfinu, en það er 124% aukning frá fyrra ári. Það er augljóst, að afleiðingin af þessari stefnu við minnkandi sparnað og þar með minnkandi útlánagetu bankakerfisins verður sú, að útlán til almennings, sem þarf á fyrirgreiðslu að halda vegna stundarvanda, vegna íbúðakaupa og húsbygginga ellegar til að standa undir skattaálögum ríkisstj., munu minnka. Staðreyndin er nefnilega sú, að þegar að herðir í þessum efnum eru það ekki fyrst og fremst stórfyrirtækin, olíufélögin, heildsalarnir eða SÍS, sem hert er að, heldur er það almenningur, sem stendur þó ekki undir nema u. þ. b. 20–25% af útlánunum í kerfinu. Það er að þeim sem fyrst og fremst er þrengt.

Ég get dregið stefnu ríkisstj. í peningamálum saman í þrjú meginatriði:

1) Svik við sparifjáreigendur með því að hverfa frá lögmarkaðri stefnu.

2) Þurraustur bankakerfisins í umsvif ríkisins.

3) Að þessu tvennu samanteknu: Niðurskurð í lánsfjármöguleikum alþýðu til að greiða úr stundarvanda í lífskjarabaráttunni við rýrnandi kjör, m. a. vegna skattastefnu ríkisstj.

Alþfl. hefur lagt ríka áherslu á jákvæða raunvaxtastefnu og verðtryggingu sparifjár, verið frumkvöðull þessarar stefnu og oft eini talsmaður hennar. Ríkisstj. Alþfl. hækkaði innlánsvexti um 4% 1. des. s. l. jafnframt því sem gróði bankanna var þá skorinn niður um 1.5 prósentustig til hags fyrir sparifjáreigendur. Á þessum aðfangadegi kosninga hafði enginn hinna flokkanna neina stefnu í vaxtamálum og fulltrúar hinna flokkanna í bankaráði Seðlabankans guldu hver um sig sína afsökun fyrir stefnuleysi og meðmælum með algeru aðgerðaleysi í vaxtamálum á þessum aðfangadegi kosninga. En jafnframt ákvörðun ríkisstj. Alþfl. um vaxtahækkun 1. des. s. l. var svo gerð atrenna að fjórum öðrum þáttum peningamálastjórnar sem Alþfl. telur ófrávíkjanlega þætti raunhæfrar raunvaxtastefnu, en hefur ekki verið sinnt sem skyldi, hvorki fyrir þennan tíma né síðar.

Í fyrsta lagi er viðskiptabönkunum gert að kynna almenningi hverra lánskjara hann ætti kost. Þá voru birtar nokkrar auglýsingar frá bönkunum um þetta efni, en síðan ný ríkisstj. tók við völdum hafa þær ekki sést. Það er alkunna, að almenningur hefur of litla hugmynd um þessi atriði, og væri því ástæða til að leggja sérstaka upplýsingaskyldu á bankana varðandi þau lánakjör sem eru fyrir hendi.

Í öðru lagi var því beint til bankanna að gera sérstakt átak til að lengja lánstíma hjá lántakendum og létta þannig greiðslubyrði þeirra. Augljóslega er slík lenging lánanna og jöfnun greiðslubyrði forsenda þess, að alþýðuheimili, sem þurfa á lánum að halda, geti risið undir þeirri vaxtahækkun sem raunvaxtastefnan og verðtrygging fjárskuldbindinga felur í sér við ríkjandi aðstæður. Viðskrh. úr röðum Alþb. og Framsfl. virðast þó ekki hafa skynjað þessa hlið málsins, a. m, k. verður ekki annað séð af aðgerða- og áhugaleysi þeirra á þessu sviði.

Í þriðja lagi beitti ríkisstj. sér fyrir því til að tryggja hag útflutningsatvinnuveganna, að hlutfall þeirra lána, sem viðskiptabankarnir bæta við endurkaup og lána út á útflutningsafurðir, yrði rýmkað um sem svarar 2% af endurkaupalánunum og jafnframt að þau fylgi jafnan uppfærðu andvirði endurkaupalánanna.

Fjórði þátturinn var sá, að því var beint til Seðlabankans að koma því í kring með sérstakri könnun, að innlánsstofnanir greiði viðskiptavinum sínum vexti af minnistæðum mánaðarlega. Með þessu móti væri komið til móts við sparifjáreigendur í þeirri verðbólgu, sem nú geisar, þannig að þeim væri raunveruleg peningaeign tiltæk á hverjum tíma, en vaxtahluti hennar ekki frystur til eins árs eins og nú tíðkast. Ekki hefur heldur um þetta mál heyrst hósti né stuna frá núv. ríkisstj. fram að þessu.

Ríkisstj. Alþfl. fylgdi þessum málum eftir með bréfum til Seðlabanka Íslands, og með bréfum til viðskiptabankanna og ítrekaði þetta sérstaklega hinn 8. janúar, þegar okkur þótti fullseint ganga að koma fram þeim breytingum sem við höfum lagt ríka áherslu á. Þó er mér kunnugt um að fyrir utan þá kynningu á lánskjörum, sem átti sér stað, átti sér stað nokkur lenging á lánum hjá viðskiptabönkum, svo ekki var þetta til einskis gert. En miklu betur þarf að þessu að vinna og á þessu að taka.

Með því að halda á málum með þessum hætti tel ég að ríkisstj. Alþfl. hafi unnið að því að koma jöfnum höndum til móts við hag sparifjáreigenda og þarfir lántakenda um jöfnun greiðslubyrði og þannig unnið að því að koma á skipulegri verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og renna þannig stoðum undir aukinn innlendan sparnað. Þessi leið er hin eina mögulega til að efla innlendan lánsfjármarkað og koma á heilbrigðu peningamálakerfi. Núv. ríkisstj. hefur hins vegar fylgt öndverðri stefnu. Af því hefur hlotist tjón sem erfitt verður að bæta því að trausti sparifjáreigenda og stefnu og aðgerðum hins opinbera hefur verið spillt. Það sýnir sig í fjárflóttanum úr bankakerfinu. Slíkt traust sparifjáreigenda verður torvelt að endurheimta, jafnvel þó menn hafi áhuga á að fikra sig að nýju inn á þá braut sem út af var horfið. Áform ríkisstj. um innlenda lánsfjáröflun úr bankakerfinu til opinberra umsvifa fá á hinn boginn trauðla staðist nema á kostnað lánafyrirgreiðslu til almennings í þessu landi.

Víkjum þá að hinni hlið þessara mála, fjárfestingarstefnunni. Samkvæmt áætlunum ríkisstj. á heildarfjárfesting í landinu að aukast úr 25.3% af vergri þjóðarframleiðu á s. l. ári í 26.6%. Þessa aukningu má að sjálfsögðu vega á móti ráðstöfunarfé heimilanna. Ef fjárfestingu hefði verið haldið sem óbreyttum hluta af þjóðartekjum milli ára hefði verið unnt að auka ráðstöfunarfé heimilanna um 16 milljarða miðað við þann viðskiptajöfnuð sem ríkisstj. miðar við í áætlunum sínum og sættir sig við, þ. e. þann viðskiptahalla upp á 16 milljarða sem þar er að sjá. (Gripið fram í: Verðbólgan.) Aukning fjárfestinga mun reyndar hafa verðbólguhvetjandi áhrif þrátt fyrir allt hjal um niðurtalningu verðbólgu. Með þessum hætti vinnur ríkisstj. þannig gegn því í reynd sem hún boðar í orði, eins og reyndar á fleiri sviðum. Alþfl. telur að setja verði heildarumsvifum í þjóðfélaginu fastákveðin hæfileg mörk ef takast eigi að ná jafnvægi í efnahagsmálum. Fjárlög og lánsfjáráætlun ríkisstj. samrýmast ekki skynsamlegu aðhaldi í þessum efnum. Aðhaldstal ríkisstj. beinist því greinilega að öllum öðrum en henni sjálfri. Hún ætlar sér sífellt meira í eigin hlut, en krefst aðhalds af öðrum. Þess aðhalds getur hún ekki vænst af öðrum meðan hún stundar óhefta aðdrætti til sín í sköttum, í verðlagi á opinberri þjónustu og í lánsfjáráætlun.

Umsvif þau, sem birtast í lánsfjáráætlun ríkisstj., einkennast í fyrsta lagi af svo miklum heildarumsvifum að þau munu auka á verðbólguþrýsting á sama tíma og ríkisstj. boðar hið gagnstæða í orði. Í öðru lagi einkennast þau af sérdrægni ríkis~tj. til handa sem ómerkir auðvitað tal ríkisstj. og ríkisstjórnarflokkanna um almennt aðhald til að draga úr verðbólgu. Og í þriðja lagi einkennist hún af tilflutningi á fé í fjárfestingu, sem annars gæti nýst til að bæta kjör heimilanna, miðað við þann halla á viðskiptum við útlönd sem ríkisstj. sættir sig við.

Innan ramma heildarumsvifa fjárfestingar er það meginverkefni ríkisstj. að marka stefnu að því er varðar fjárfestingu í hinum ýmsu þáttum þjóðarbúskaparins. Í þeim efnum á það við að velja og hafna, því að öllum óskum og löngunum verður ekki fullnægt. Í þessu vali birtist þá hvers konar uppbyggingu eigi að leggja sérstaka áherslu á. Rangt val fjárfestingar rýrir lífskjörin. Nærtæk dæmi um slíkar ríkisstjórnarákvarðanir eru til um fjárfestingu sem reynst hefur baggi á þjóðinni. Það dugir auðvitað að nefna Kröfluævintýrið í því sambandi þótt vel mætti rekja fleiri dæmi.

Alþfl. hefur lagt megináherslu á að fjárfestingarval væri vel undirbúið og líklegt til að skila góðum arði sem runnið gæti til að bæta kjör launafólks. Í samræmi við þetta hefur Alþfl. bent á fáeinar grundvallarstaðreyndir sem marka verði fjárfestingarstefnuna. Þær eru þessar:

1) Að framleiðsla landbúnaðarafurða umfram innanlandsþarfir er þjóðhagslega óhagkvæm og rýrir því lífskjörin og stefnir í reynd kjörum og afkomu bænda í óvissu.

2) Þá er fiskiskipastóllinn of stór miðað við afrakstursgetu fiskstofna. Stækkun skipastólsins mun rýra afkomu sjómanna, útgerðar og þjóðarinnar allrar.

3) Þá er fiskvinnslan vanvædd tæknilega séð. Í tæknilegum framförum í fiskvinnslunni felst einhver arðvænlegasti vaxtarbroddur íslensks efnahagslífs og þar með lífskjarabóta fyrir Íslendinga. Þar á ofan ríður mikið á því til að tryggja markaði okkar, að við Íslendingar séum í fararbroddi annarra þjóða í verkun fisks, tæknilega, gæðalega og kostnaðarlega. Við eigum því mikið undir því að framfarir séu í fiskvinnslunni.

4) Íslenskur iðnaður er vanþróaður. Framleiðni er þar minni en í iðnaði í grannlöndum okkar. Uppbygging hans og skipuleg framleiðniaukning ætti því að skila ríkulegum ávexti.

Þessi fjögur atriði verða að vera meginatriði fjárfestingarstefnu ef á að ná raunhæfum árangri í endurreisn efnahagslífsins og skapa þannig grundvöll að lífskjarabótum. Áform ríkisstj., eins og þau birtast í lánsfjáráætlun og ákvörðunum hennar, samrýmast ekki þessum markmiðum.

Í fyrsta lagi gerir ríkisstj. ráð fyrir því samkv. lánsfjáráætlun sinni, að fjárfesting í landbúnaði verði 14.8 milljarðar kr. Slík fjárfesting í framleiðsluaukningu mun engum þjóðhagslegum arði skila, heldur einnig verða til að auka enn á vandann í greininni og rýra afkomu okkar allra.

Í annan stað fela nýlegar ákvarðanir ríkisstj. í sér að enn verði fiskiskipastóllinn aukinn með fiskiskipainnflutningi, sem hafði þó áður verið stöðvaður. Um þetta atriði er lánsfjáráætlun reyndar óraunhæf því að hún sýnir ekki þessa stefnubreytingu ríkisstj. Engu að síður er ljóst að stefna ríkisstj. í þessu efni er til óheilla. Aukning skipastólsins samkv. stefnuákvörðun ríkisstj. mun bitna á afkomu sjómanna og útgerðar og okkar allra í reynd, því að sífellt minna kemur í hvern hlut í fiskveiðunum þegar skipastóllinn vex, en tilkostnaður veiðanna eykst á hinn bóginn.

Ég sagði að stefnuákvörðun ríkisstj. í þessum efnum kæmi ekki fram í lánsfjáráætluninni eins og hún birtist. Er auðvelt að ganga úr skugga um það, því að einungis er gert ráð fyrir að þrjú skip verði flutt inn, þ. e. tvö frá Portúgal og eitt á Norðfirði. Mér vitanlega hefur eitt skip þegar bæst við í þessum efnum, sem kom til Hafnarfjarðar, og fyrir einu til viðbótar hefur verið veitt leyfi á Ísafirði. Og eftir lausasögum, sem ég heyrði í dag, hefur reyndar verið líka veitt leyfi fyrir því, að það skip, sem þá ætti að fara út, færi ekki úr landi. Þar yrði líka um innflutning að ræða. Ég er því kominn upp í 5–6 skip, en ekki 3 eins og gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun ríkisstj. — Annars er það furðulegasta við þetta mál, að menn skuli með öðru orðinu boða eflingu innlends skipasmíðaiðnaðar, en á hinn boginn standa fyrir innflutningi sem getur ekki gert nema stækka skipastólinn og rýra kjörin og bitna á íslenskum skipasmíðaiðnaði.

Það er reyndar svo varðandi skipasmíðaiðnaðinn, sem hv. þm. Lárus Jónsson og hæstv. iðnrh. gerðu að umtalsefni áðan, að þar er ekki heldur sérlega vel fyrir séð. Það er gert ráð fyrir 3000 millj. í erlendum lántökum, en það er þegar búið að lofa 3.5 milljörðum í Fiskveiðasjóði, þannig að þar vantar líka hálfan milljarð upp á. Og hvað eiga svo skipasmíðastöðvarnar að gera fyrir þessa 3.5 milljarða? Jú, það er hálfur milljarður vegna viðgerðaverkefna og síðan eru lán veitt út á fjögur skip: eitt hjá Stálvík, eitt hjá Þorgeir og Ellert, eitt á Akureyri og eitt hjá Marsellíusi Bernharðssyni. Ætli þetta nægi innlendum skipasmíðaiðnaði? Smábátar gera menn ráð fyrir að verði unnið fyrir 1.1 milljarð. Ég get ekki séð betur en að hérna vanti 2–3 milljarða til þess að innlendur skipasmíðaiðnaður hafi þau verkefni sem hafa verið talin nauðsynleg til þess að hann gæti gengið snurðulaust. Þessu vil ég sérstaklega vekja athygli á.

Þriðja atriðið að því er varðar áform ríkisstj., sem ég vil gera að umtalsefni og tengist þeim meginmarkmiðum sem ég var að geta um áðan, varðar fiskvinnsluna. Á s. l. ári tókst að auka fjárfestingu í fiskvinnslunni um 20%, eins og menn geta séð af þeim gögnum sem fylgja lánsfjáráætlun. Þessi fjárfesting var ekki síst í tæknilegum endurbótum. Þannig tókst á s. l. ári að marka nýja braut í þessum efnum, og þetta er í fyrsta skipti í langa hríð sem fjárfesting í fiskvinnslunni kemst upp fyrir fjárfestingu í verslunar- og skrifstofuhúsnæði, ef ég man rétt, svo furðulegt sem það má heita. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er meginatriði til að styrkja stöðu þjóðarbúsins að áfram verði haldið á þeirri framfarabraut sem hafin var í fyrra. En samkv. áformum ríkisstj. er þó öld snúin, því að ríkisstj. ætlar fjárfestingu í fiskiðnaði að standa í stað þrátt fyrir öll fyrirheitin um framleiðniaukningu í fiskiðnaði. Sannast hér enn að sitthvað eru orð og efndir hjá núv. ríkisstj.

Það var fróðlegt að heyra það áðan hjá hæstv. iðnrh., að honum sýndist að það ætti að verja 4.6 milljörðum í fjárfestingu í fiskvinnslunni úr Fiskveiðasjóði. Í sjútvrn. hafði farið fram sérstök athugun á því, hver væri sú lágmarksfjárhæð sem kæmi til álita til að sinna brýnustu verkefnum í þessum efnum. Maður hefði haldið að sú ríkisstj., sem sérstaklega legði fyrir sig að boða framleiðniaukningu, færi frekar yfir lágmarkið en undir. Það lágmark var 7.5 milljarðar. Hér talaði iðnrh. um það sem stórt afrek að 4.6 milljarðar færu í fjárfestingu í fiskvinnslunni á vegum Fiskveiðasjóðs. Sannleikurinn í málinu er hins vegar sá, að þær skuldbindingar, sem hafa verið gerðar, munu ekki gera Fiskveiðasjóði kleift að lána þessa 4.6 milljarða á þessu ári sem iðnrh. gerði að umtalsefni. Það má gott heita ef það slefar í 4 milljörðum, miðað við stöðuna eins og hún er núna. En þá er líka eftir að leysa þau atriði í sambandi við skipasmíðaiðnaðinn sem ég gerði að umtalsefni áðan. Venjulegast hefur það bitnað á fiskvinnslunni. Hún hefur verið látin vera útundan.

Fjórða atriðið, sem ég vil gera að umtalsefni, er það, að ekki er sjáanlegt neitt átak til framleiðniaukningar í íslenskum iðnaði samkv. áformum ríkisstj. eins og þau birtast í lánsfjáráætlun. Almennum iðnaði er ekki ætlað að auka fjárfestingu sína um nema 3%. Þannig verður ekki séð að ætlunin sé að efla iðnaðinn neitt sérstaklega, hvað sem líður öllu tali um framleiðniaukningu í iðnaðinum sem við höfum hér fengið að hlusta á af vörum ýmissa talsmanna stjórnarflokkanna aftur og aftur.

Það er þannig sama hvert þessara fjögurra atriða maður tekur til viðmiðunar, það verður ekki séð að stefna ríkisstj. sé til framfara. Það er veruleg fjárfesting í landbúnaði. Fjárfesting í framleiðsluaukningu í þeirri grein mun ekki skila þjóðhagslegum arði. Það hafa verið teknar ákvarðanir um að auka fiskiskipastólinn. Það mun verða til að draga úr lífskjörum hér á landi. Í þriðja lagi hefur verið ákveðið að velja stöðnun í fjárfestingu í fiskvinnslunni í stað þeirrar framfarabrautar sem komið var inn á. Og það er ekki sjáanlegt neitt átak í framleiðniaukningu í iðnaði.

Af þessu ætti að vera ljóst að stefna ríkisstj. er í grundvallaratriðum röng. Alþfl. telur að meginstefnubreyting þurfi að eiga sér stað, bæði í fjárfestingarmálum og peningamálum, til þess að hér náist raunhæfur árangur. Þeirri breytingu verður ekki náð fram með breytingum á lánsfjárlögunum einum. Þess vegna sjá þm. Alþfl. ekki ástæðu til þess á þessari stundu og eftir þá umfjöllun, sem málið hefur fengið í Nd., að flytja brtt. við frv. til lánsfjárlaga. En því miður verður það að segjast, að sú stefna, sem birtist í þeim gögnum sem fyrir okkur eru lögð í lánsfjáráætlun og í frv. til lánsfjárlaga, stefnir ekki til heilla. Það verður ekki séð að það hafi verið vikið inn á þá framfarabraut sem aðeins örlaði þó fyrir á fyrra ári. Þvert á móti er það stöðnun og þá einkum og sér í lagi í uppbyggingu atvinnuveganna sem vekur ugg í sambandi við þau áform sem ríkisstj. hefur nú uppi.