28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3194 í B-deild Alþingistíðinda. (3124)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Vegna fjarveru hæstv. sjútvrh. skal ég leitast við að svara þessari fsp.

Ég vil geta þess og taka það fram, að það er vilji hæstv. sjútvrh., Steingríms Hermannssonar, að þetta mál verði leyst í samræmi við það samkomulag sem hér hefur verið vakið máls á af hv. fyrirspyrjanda. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst yfir því, að þetta mál verði leyst með löggjöf ef þörf krefur. Eins og nú stendur á þarf e. t. v. að koma til útgáfu brbl. Þá geri ég að sjálfsögðu ráð fyrir að lögin verði þannig úr garði gerð að efni þeirra gildi frá 1. júní n. k. til að fullnægja því samkomulagi sem um er að ræða.

En ég hlýt að taka það fram, að til þess að lög verði sett um þetta efni þurfa þau undirbúnings með. Sá undirbúningur hefur verið í gangi og hann er í gangi hjá Aflatryggingasjóði. En ég vil upplýsa að þessi undirbúningur hefur tafist af nokkuð óvenjulegum ástæðum, að því er mér er tjáð af hálfu forráðamanna Aflatryggingasjóðs. Fyrst og fremst er ástæðan sú, að starfsmaður sjóðsins, sá starfsmaður sem fjallaði um þetta mál, lést fyrir nokkru, á þeim tíma þegar hann var að fjalla um þetta mál eða meðan á því verki hans stóð. — Ég mun reyna að sjá til þess í forföllum hæstv. sjútvrh., að þessum undirbúningi verði hraðað sem mest má verða. En ég vil endurtaka að það er vilji sjútvrh. að málið verði leyst í samræmi við umrætt samkomulag og þá þannig að það geti tekið gildi frá 1. júní n. k.