29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3239 í B-deild Alþingistíðinda. (3223)

206. mál, mál Skúla Pálssonar á Laxalóni

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hefja mikla umr. um þetta mál. Ég er þó þeirrar skoðunar, að í brtt. þeirri, sem hér kemur frá fjvn., sem ég mun fella mig við, sé orðalag sem raunverulega færir þingið í sömu spor og það stóð í 23. maí 1979. Það hefur tillaga komið fram og skýrsla frá nefndinni sem fjallaði um þetta mál og kjörin var af þinginu. Það hefur verið samþ. þáltill., var gert 23. maí 1979, um að leysa þetta mál. Ég hef ekki orðið var við það, með fullri virðingu fyrir fjvn., að hún hafi þurft að fara dómstólaleiðina þegar ákvarðaðar hafa verið bætur til ýmissa þjóðfélagshópa. Ég vil þess vegna vara við því, að sú leið verði valin að setja þetta mál í gerðardóm. En það, sem léttir mér gönguna í þennan stól og umr. um þetta mál, er það, að hæstv. forsrh. hefur tjáð mér að honum sé mikið áhugamál að leysa þetta viðkvæmnismál sem hér hefur verið á þingi í langan tíma og hlotið ítarlega meðferð þó svo að nú komi í ljós að fjöldinn allur af þm. kannist sáralítið við það. (Gripið fram í: Má treysta á það?) Ég ætla að leyfa mér að treysta á það. Lengi má manninn reyna. (Gripið fram í: Já, það er víst.)

Ég ætla sem sagt ekki að orðlengja um þetta mál. Ég fagna því, að það er komið í höfn, og ég treysti því, að menn eins og hæstv. landbrh., hæstv. forsrh. og fleiri góðir menn í ríkisstj. beiti sér fyrir því, að þetta mál fái þann framgang sem ég tel tvímælalaust að það eigi skilið að fá. Þá gæti farið svo, að þetta blessaða Alþingi, sem nú er að fara heim, eigi eftir að sitja uppi með örlítið brot af heiðri fyrir það þó að hafa komið þessu máli í gegn.