17.12.1979
Efri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

4. mál, ferðagjaldeyrir

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er 4. mál þessarar hv. d. á þskj. 4, er frv. til laga um álag á ferðagjaldeyri, en samkv. 17. gr. brbl. um kjaramál frá því í sept. 1978, sbr. 13. gr. laga nr. 121 frá 1978, var lagt 10% gjald á andvirði erlends gjaldeyris sem gjaldeyrisbankarnir selja til greiðslu á dvalarkostnaði erlendis. Ákvæði þetta á að falla úr gildi nú um áramótin.

Í fjárlagafrv. fyrir 1980, sem nú liggur fyrir þinginu, er gert ráð fyrir 6breyttri innheimtu gjalds á ferðalög til útlanda frá því sem verið hefur á árinu 1979. Ég vil líka taka það fram, að í fjárlagafrv. fyrrv. ríkisstj., sem lagt var fram á Alþingi í haust, var einnig gert ráð fyrir óbreyttri innheimtu þessa gjalds. Eins og áður segir eru gildandi ákvæði tímabundin og falla úr gildi nú um áramót sé ekkert að gert, og er því nauðsynlegt að framlengja gildistíð þeirra ef tekjuáætlun fjárlaganna á að standast. Af þessum sökum er flutt frv. það sem hér liggur fyrir.

Samkvæmt frv. verður gjaldið óbreytt frá því sem verið hefur og er ætlað að gilda til ársloka 1980. Á yfirstandandi ári, árinu 1979, er áætlað að gjaldið skili um 1450 millj. kr. í ríkissjóð, en í fjárlagafrv. fyrir árið 1980 er gert ráð fyrir að tekjur af gjaldinu geti orðið um 1600 millj. kr.

Að lokinni 1. umr. um frv. þetta legg ég svo til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn., og legg áherslu á að nauðsynlegt er að fá þetta mál afgreitt á þeim fáu dögum sem Alþingi mun starfa nú fyrir áramótin.