10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

Umræður utan dagskrár

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég tek til máls utan dagskrár, eru þær upplýsingar sem hæstv. fjmrh. hefur látið frá sér fara í fjölmiðlum um stöðu ríkissjóðs um s.l. áramót. Ég er ekki að draga í efa að hæstv. ráðh. hafi þá eftir bestu vitund skýrt satt og rétt frá, heldur vil ég leyfa mér að gera aths. við það, að á sama tíma og greiðslustaða ríkissjóðs er sögð svo hagstæð, að 6 milljarða innistæða sé í Seðlabankanum um áramótin, eru vangreiddar gjaldfallnar skuldir ríkissjóðs við sveitarfélögin vegna lögbundinna greiðslna í skólarekstri a.m.k. yfir 200 millj. auk endurgreiðslna á launum tónlistarskólakennara um 52 millj.

Komið hafa fram aths. frá sveitarfélögum og fræðslustjórum vegna þessa máls og ætti engan að undra, sem til þekkir og veit að sveitarfélögin hafa takmarkaða tekjustofna og ekki aðgang að sjóðum til að sækja fjármagn í þegar greiðslur, sem þau eiga kröfur á og hefðu átt að berast undir venjulegum kringumstæðum úr ríkissjóði fyrir áramót, eru ekki inntar af hendi. Ég vil leyfa mér að benda á að samskipti ríkis og sveitarfélaga í skólamálum eru vandmeðfarin og viðkvæm og ekki hvað síst varðandi fjármálin, enda eru þau einn stærsti málaflokkurinn í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þó hefur færst til betri vegar í þeim samskiptum eftir að grunnskólalögin voru sett 1974, en með þeim var sýnd vitleitni til meiri valddreifingar með því að færa heim í héruð ýmis mál, sem menntmrn. fjallaði áður eitt um, og þá fyrst og fremst með stofnun embætta fræðslustjóranna, sem samkv. lögunum eru embættismenn ríkisins og heyra beint undir ráðuneytisstjóra menntmrn., en eru þó staðsettir í hinum ýmsu fræðsluumdæmum. Fræðslustjórarnir úrskurða um greiðsluþátttöku ríkissjóðs innan ramma laga og reglugerða og gera menntmrn. grein fyrir niðurstöðum. Að undanförnu hafa staðfestar greiðslubeiðnir þeirra orðið fyrir óvenjulegum töfum á leiðinni til fjmrn. Fæst væntanlega skýring á því hver ástæðan er. En sé hún sú, að verið sé að salta reikninga vegna þess að fjárveiting sé uppurin, bar að gera ráðstafanir til að ríkissjóður gæti staðið við lögbundnar skuldbindingar sínar í stað þess að velta byrðinni yfir á sveitarfélögin með því að taka sér vaxtalaust lán hjá þeim og valda þeim erfiðleikum vegna vanskila.

Það hefur verið ágæt regla undanfarin ár um fyrirkomulag á greiðslum úr ríkissjóði, þannig að staðfest greiðslubeiðni frá fræðslustjóra hefur ekki þurft að tefjast í kerfinu nema 8–13 daga, eftir því á hvaða vikudegi hún barst inn. Þannig hafa sveitarfélögin getað miðað greiðsluáætlanir sínar við þessa reglu þar til nú í des., að allt hefur farið úr böndunum og staðfestar greiðslubeiðnir allar götur frá því í nóvemberlok fengust ekki greiddar fyrir áramót. Ég hef í höndunum tölur frá nokkrum fræðsluumdæmum máli mínu til staðfestingar, og vil ég leyfa mér að lesa þær, með leyfi hæstv. forseta:

Í Reykjanesumdæmi er heildarskuld ríkissjóðs 31. des. 1979 við sveitarfélögin, og þá er ég eingöngu að tala um kvótagreiðslur og akstur vegna skólabarna, samtals rúmar 64 millj. kr. Þar af voru innsendar staðfestar greiðslubeiðnir 10. des. eða fyrr upp á rúmar 49 millj. Í Vesturlandsumdæmi var heildarskuldin 31. des. rúmar 48 millj. og þar af voru innsendar staðfestar greiðslubeiðnir 10. des. eða fyrr upp á rúmar 24 millj. Í Norðurlandsumdæmi vestra var skuldin rúm 21 millj. og innsend fyrir 3. des. Í Norðurlandsumdæmi eystra var innsend greiðslubeiðni fyrir 7. des. upp á tæpar 92 millj. Því miður hefur mér ekki unnist tími til að afla upplýsinga frá hinum fjórum fræðsluumdæmunum og bendi á að hér er aðeins um helming fræðsluumdæmanna að ræða. Af þessum greiðslubeiðnum, sem ég nú hef nefnt, hefðu a.m.k. 186 millj. átt að greiðast fyrir áramót. Þarna vil ég einnig benda á að ef með væru teknar allar aðrar skuldir ríkissjóðs við sveitarfélögin mætti sjálfsagt bæta 1 milljarði við þær 200 millj. sem ég nefndi. Að auki bætast svo við tónlistarskólarnir með sínar 52 millj.

Herra forseti. Ég vil ítreka að gerðar verði ráðstafanir til að koma þessum málum í sómasamlegt horf, þannig að ríkissjóður gangi á undan með góðu fordæmi og standi við skuldbindingar, sem hann hefur sett sig í með lagaboðum og reglugerðum, og geri ekki starfsmönnum sínum heima í héruðum og sveitarfélögunum erfiðara fyrir en ástæða er til.