14.01.1980
Efri deild: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér hafa nú verið haldnar tvær mjög ítarlegar ræður um það frv. sem hér liggur fyrir, óvenju ítarlegar. Það er eðlilegt þegar litið er á það, að það eru fá mál sem í raun eru þýðingarmeiri en einmitt húsnæðismálin. Eðli þeirra er slíkt og það er hvarvetna þar sem fjallað er um þessi mál á hliðstæðan hátt og við gerum hér í þessu þjóðfélagi. Vert er líka að hafa í huga að svo þýðingarmikil sem þessi mál eru annars staðar og svo mikill þáttur sem húsakosturinn er í lífi hinna einstöku þjóða, þá er þessi þáttur af eðlilegum orsökum hvergi meiri en hér hjá okkur á okkar norðlægu slóðum, þar sem mjög mikils er um vert að húsakosturinn sé sem bestur.

Sú löggjöf, sem við byggjum nú á í húsnæðismálunum, er tvíþætt. Annars vegar er það sem lýtur að hinu almenna veðlánakerfi eða Byggingarsjóði ríkisins og hitt sem veit að verkamannabústöðum. Og frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar að sjálfsögðu um báðar þessar hliðar. En það er ekki í fyrsta sinn sem þessi löggjöf kemur til endurskoðunar hér á Alþingi.

Stofninn að þessum lögum hvað varðar almenna veðlánakerfið eða Byggingarsjóð ríkisins er frá árinu 1955. Síðan hefur þessari löggjöf oft verið breytt. Oft hefur verið um minni háttar endurskoðun eða breytingar að ræða, en nokkrum sinnum hefur verið um ítarlega og gagngerða endurskoðun á þessari löggjöf að ræða.

Hinn þáttur húsnæðislöggjafarinnar, sem veit að verkamannabústöðunum, byggist á stofni frá árinu 1929, svo sem kunnugt er. Og það er eins með þau lagaákvæði, sem varða verkamannabústaðina, og þau sem varða hið almenna veðlánakerfi. Það, sem viðvíkur verkamannabústöðunum, hefur verið endurskoðað alloft. Stundum hefur verið um minni háttar breytingar að ræða, en í aðra tíð hefur verið um verulega skipulagsbreytingu að ræða, eins og t.d. árið 1970: Byggingarfélögin, sem voru aðilar að þessu kerfi, voru þá lögð niður og tekin var upp hlutdeild sveitarfélaga í þeirra stað.

En þegar þessi endurskoðun hefur farið fram, sérstaklega þegar menn hafa viljað gera gagngerðar breytingar og vanda það verk, hver hefur þá verið meginvandinn? Í hverju hefur meginvandinn verið fólginn og í hverju hefur það verið fólgið, þegar stærstu skref hafa verið stigin fram á við í þessum málum? Meginvandinn hefur verið að afla aukins fjármagns í þágu húsnæðismálanna. Það hefur verið meginvandinn frá fyrstu tíð og það hefur líka verið aðalatriði, því að ekkert hefur verið hægt að sækja fram á þessu sviði nema með auknu fjármagni. Auðvitað skiptir skipulag lánamálanna miklu máli, þó að það skipulag varði ekki beinlínis fjármagnsöflunina, en þau mál öll eru samt bæði ekki eins þýðingarmikil og að afta fjármagnsins og það er miklu auðveldara að leysa þau mál. Þess vegna hlýtur öll athygli við endurskoðun húsnæðislöggjafarinnar fyrst og fremst að beinast að fjáröfluninni. Og þá spyrjum við: Hvað gerir þetta frv., sem hér liggur fyrir, í því efni?

Ég sagði að reynt hefði verið að leggja áherslu á það að afla lánakerfinu meira fjármagns þegar löggjöfin hefði verið endurskoðuð. Þetta var ekki stórt í sniðunum, í upphafi, ef við athugum lögin frá 1955, sem viðkemur almenna veðlánakerfinu. En samt sem áður þótti mönnum ekki hæfa að leggja fram frv. á Alþ. um stofnun þess kerfis nema gera ákveðnar, beinar till. um fjáröflun, sjá fyrir fjáröflun til þess að kerfið gæti starfað og hægt væri að sinna þeim verkefnum sem gert var ráð fyrir að það ætti að annast. Síðan hefur verið haldið áfram á sömu braut. Síðan er t.d. tekin upp fjáröflun til kerfisins með skyldusparnaði — það var ekki í upphafi — og það hafði að sjálfsögðu mikla þýðingu fyrir hið almenna veðlánakerfi strax og hefur enn í dag. Svo líða ár og þá er haldið áfram að þreifa sig áfram og reyna að finna úrræði til þess að fjármagna kerfið. Þá er tekinn launaskatturinn. Og svona mætti halda áfram og nefna fleira, þó að skyldusparnaðurinn og launaskatturinn séu langþýðingarmestu atriðin í þessu efni.

Hvað gerir nú þetta frv., sem hér liggur fyrir, í þessu efni? Hvað gerir það til þess að efla annaðhvort þá tekjustofna, sem fyrir eru, eða koma með nýja tekjustofna til þess að mæta fjárþörf lánakerfisins? Það ótrúlega skeður. Það er ekki eitt einasta atriði um þetta mál í frv. sjálfu —ekkert. Þess vegna er hæpið að tala um þetta — þessa endurskoðun sem hér er lögð fram í formi þessa frv. — sem meiri háttar endurskoðun á þessu kerfi. Það hefur alltaf farið saman, að það hefur verið stigið eitthvert verulegt spor fram á við í fjáröflunarmálunum þegar um veigamikla endurskoðun hefur verið að ræða.

Nú er það augljóst mál, að þörf hefði verið á ráðstöfunum til þess að auka ráðstöfunarfé almenna veðlánakerfisins, þó að verkefni þess hefðu verið eins og þau eru í dag samkv. gildandi lögum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að það hefur gengið mjög, svo að ekki sé sagt meira, í brösum að hækka lán almenna veðlánakerfisins, hækka hlutfall lána borið saman við byggingarkostnað. Auðvitað er það grundvallaratriði fyrir þýðingu veðlánakerfis, eins og almenna veðlánakerfið er, að íbúðarlánin séu meginhluti af byggingarkostnaðinum. Þetta höfðu menn í huga strax þegar lögin voru sett 1955. Þá voru menn að tala um að það væri nauðsynlegt, að þau lán, sem kerfið lánaði, næmu 2/3 af byggingarkostnaði. Þá var reiknað með að kostnaðarverð íbúðar væri 150 þús. og að lán kerfisins, almenna veðlánakerfisins, þyrfti að vera 100 þús. kr. En það var farið af stað þannig að lánin voru ekki nema 70 þús. Það var langt frá því að náð væri því marki sem talað var um í upphafi. Það voru að vísu ýmsir sem efuðust um að það næðist þó að lánið hefði verið 100 þús., vegna þess að byggingarkostnaðurinn hefði verið meiri en reiknað var með í þessum útreikningum. Þessi lán námu þó örugglega í upphafi um 30% af byggingarkostnaði. En menn voru óánægðir með það og viðleitnin að endurskoðun laganna, beindist mjög að því að auka þetta hlutfall. Fyrir 10 árum var þetta hlutfall komið í 40–50%. Smám saman hafði þokast áfram, en síðan hefur sigið á ógæfuhlið. Og það er gert ráð fyrir því í þessu frv. og í þeim fskj. og útreikningum og í grg. með því, eins og fram kom í ræðu hæstv. félmrh., að lánin nemi núna um 30% af byggingarkostnaði. Þó ekki væri annað en að ná því, sem búið var að ná í þessu efni fyrir 10 árum, þá hefði greinilega þurft aukið fjármagn. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu. Ég skal ekki fjölyrða um hér hvers vegna hefur miðað svona seint áfram. Það verður að segja það eins og er, að á þessu tímabili hefur verið talsvert að því gert að útvíkka hlutverk Byggingarsjóðsins eða almenna veðlánakerfisins, taka upp nýja lánaflokka, sem enginn hefur efast um að væru hinir gagnlegustu. En þess hefur bara ekki jafnframt verið gætt að afla nýs fjármagns til að standa undir þessum aðgerðum. Þess vegna hefur ekki miðað áfram, heldur jafnvel aftur á bak í almennum lánum til nýbygginga.

Með þessu frv. er verkefni lánakerfisins verulega aukið. Það eru teknir upp nýir lánaflokkar, t.d. sérstök viðbótarlán til einstaklinga með sérþarfir, lán til orkusparandi breytinga á húsnæði, lán til tækninýjunga í byggingariðnaði, svo að eitthvað sé nefnt. Það hefur enginn á móti því að sinna þessum verkefnum. En það er ekki gert ráð fyrir neinu auknu fjármagni til að mæta þessu. Hér er svo í þessu frv. gert ráð fyrir að hækka hin almennu íbúðarlán, sem nú eru um 30% af byggingarkostnaði, upp í 80%. Það hefur enginn á móti þessu, þetta er alveg sjálfsagt, og hefði mátt setja þessa tölu á blað miklu fyrr. Það mætti setja hana 90% núna, ef það kostar ekkert annað en setja töluna á blað. En í þessu frv. er ekki gert neitt annað, vegna þess að það er ekki till. um neitt aukið fjármagn til íbúðalánakerfisins. Það er þetta sem er hið alvarlega við þetta mál.

Og hvað er þá fjármagnið, sem hér er um að ræða, mikið? Hvað eykst fjármagnsþörfin, fjármagnsþörf veðlánakerfisins eða beggja, almenna veðlánakerfisins og verkamannabústaða, við þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frv.? Við höfum upplýsingar um þetta í grg. Á bls. 35, töflu 10, er að finna upplýsingar um þetta efni. Þetta aukna fjármagn, sem þörf er á umfram þá tekjustofna sem fyrir eru, nemur á árinu 1980 2.4 milljörðum kr. og er komið árið 1990 upp í 10 milljarða kr. á því ári. Þessar tölur eru allar miðaðar við verðlag ársins 1978, ég bið menn að hafa það í huga. Samkv. þessari töflu, sem ég hér vitna í, vantar strax á árinu 1981 um 1/4 af fjármagnsþörf kerfisins og brátt skortir 1/3 af nauðsynlegu fjármagni hvert ár. Og þetta eru engar smáupphæðir, eins og fram hefur komið í því sem ég vitnaði til. Það er engin till. um það, hvernig á að mæta þessari fjárþörf.

Það er höfuðgalli á þessu frv. að sjálfsögðu.

Í grg. með frv. má sjá, og það kom líka fram í ræðu hæstv. ráðh., að í frv. eru ekki gerðar ákveðnar till. um hvernig afla skuli þess fjár sem hér þarf að.koma til. Þetta er svona orðað í grg. með frv., að þó megi setja fram nokkrar ábendingar. Og hverjar eru ábendingarnar? Það er gert ráð fyrir því, að helmings þess viðbótarfjármagns, sem til þarf, sé aflað með framlögum úr ríkissjóði. En það eru engar hugmyndir um að hafa markaðan tekjustofn eða neitt slíkt, aðeins að það skuli koma sem framlag úr ríkissjóði eða frá hinu opinbera. Önnur ábendingin er sú, að helmingur fjárins komi með lántökum — það er minnst á lífeyrissjóði í því sambandi. Það er ákaflega eðlilegt að minnast á lífeyrissjóðina. Það er alveg rétt, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh. og kemur fram í grg. með frv., að ef tekst að hækka lán Byggingarsjóðsins upp í 80% af byggingarkostnaði, þá losnar um mikið fjármagn hjá lífeyrissjóðunum sem nú er varið til byggingarlána af þeirra hálfu. Það má því segja að það sé verðugt viðfangsefni að beina þessu fjármagni í eina átt, eða eins og það var nefnt af hæstv. ráðh., í heildstæðan farveg. Ég er alveg sammála þessu. En hvernig á að gera þetta? Það er það sem er vandinn í þessu máli. Og stefnumótun er ekki fólgin í því að benda á lífeyrissjóðina. Hún er fólgin í því að benda á leið til þess að framkvæma þetta. Það er ekkert um það í þessu frv. — ekkert. En þetta má að sjálfsögðu framkvæma með því að lögbjóða að fé lífeyrissjóðanna gangi til þessara þarfa. Það er hægt að framkvæma þetta með samkomulagi eða samningum við lífeyrissjóðina. Og það á að vera möguleiki að framkvæma þetta með því að koma á fót frjálsum verðbréfamarkaði og beina þessu fjármagni með þeim hætti í heildstæðan farveg, eins og það var orðað. Ég held að það þurfi að taka þessi mál til gaumgæfilegrar athugunar og stefnumótun þurfi að vera fólgin í því að benda á leiðir í þessu efni, en það er skipulagsmál. En ég segi: Ef til eru leiðir í þessu efni — sem ég vil ekki efast um — hvers vegna þá að láta það taka 10 ár, eins og frv. gerir ráð fyrir, að hækka lánin úr 30% af byggingarkostnaði upp í 80%? Það þykir mér allt of seinfarið í þessum efnum.

Það er ekki skemmtilegt að þurfa í þessum umr. að leggja svo mikla áherslu á það eins og ég hef gert, að frv. er vitagagnslaust í því efni sem mestu varðar, varðandi fjáröflun til kerfisins. En við verðum að gera okkur grein fyrir því, að svo er. Maður hefur næstum á tilfinningunni, að vegna þess að ekkert er gert í þessu efni, þá sé í þessu frv. lögð of mikil áhersla á ávöxtun lánasjóðanna. Samt, eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh., er talað um annars vegar að tryggja ávöxtun sjóðanna og útlánagetu, en hins vegar að greiðslugetu almenna lántakans verði ekki ofboðið. Mér virðist ekki gæta hins rétta jafnvægis í þessum efnum samkv. því frv. sem hér liggur fyrir. Hvað mikil og góð sem ávöxtun sjóðanna yrði, þá næði sú aðferð skammt til þess að mæta þeirri fjárvöntun sem um er að ræða og ég hef áður gert grein fyrir.

Grundvallaratriðið í þessu efni er það, hvernig lánskjörin á íbúðalánunum eiga að vera, við hvað á að miða. Ég hef gengið út frá því, að lánskjörin þyrftu að vera slík, að almenningur í landinu gæti staðið undir þeim með almennum launatekjum. Þegar þetta frv. er athugað efast maður um að þessa sjónarmiðs sé nægilega gætt. Að vísu segir í grg. með frv. á bls. 36, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og áður hefur verið bent á er þó í frv. lagt til, að raunvextir útlána verði lækkaðir frá því sem áður gilti, enda verður að telja, að þau kjör hafi verið of hörð og greiðslubyrði í þyngsta lagi.“

Ég er sammála því sem hér segir, að kjörin hafi verið of hörð og greiðslubyrði í þyngsta lagi og það sé rétt stefna að bæta hér úr með því að bæta lánakjörin. En mér sýnist að í frv. sé farin öfug leið. Það er mjög alvarlegt, að svo sé.

Árið 1978 var greiðslubyrði af lánum Byggingarsjóðs ríkisins þyngri en af flestum öðrum fjárfestingarsjóðalánum. Þetta verður ráðið af grg. frv., töflu 1 á bls. 19. Og af umsögn um þessa töflu verður þetta beinlínis ráðið. Í töflu 4, sem er á bls. 23, er samanburður á greiðslubyrði hjá Byggingarsjóði ríkisins með kjörum samkv. frv. annars vegar og greiðslubyrði samkv. lánskjörum 1978 hins vegar. Ef menn líta á þessa töflu, þá kemur í ljós að fyrstu sjö árin er greiðslubyrðin minni samkv. ákvæðum frv., en síðan er hún þyngri. Það, sem ég er að segja núna, fer saman við það sem hv. 11. þm. Reykv. sagði áðan, að kjörin væru lakari. En hann gerði af meðfæddum góðvilja tilraun til þess að bæta úr þessu gagnvart hæstv. ráðh. með því að segja — (Gripið fram í: Af alkunnri sanngirni.) já, af alkunnri sanngirni — með því að segja að kjörin væru lakari fyrstu árin, en þetta kæmi til góða síðar. En þetta er þveröfugt. Það er fyrstu sjö árin sem útkoman er betri með nýja kerfinu, en síðan er hún lakari. Alvarlegt er nú þetta. Hlýtur það ekki að vera dálitið einkennilegt, að það sé hægt að bæta útlánakjörin á sama tíma og lánstíminn er styttur? Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að stytta lánstímann úr 26 árum niður í 21 ár hjá almenna veðlánakerfinu. Ég verð að segja það, að ég varð ekki lítið undrandi þegar ég las þetta. Ég hef oft bæði hugsað og talað um endurskoðun á þessari löggjöf og ég hef aldrei heyrt á það minnst fyrr, að leiðin til bóta í þessu efni væri að stytta lánstímann. Menn hafa alltaf sagt sem svo: Hvað getum við lengt lánstímann? Hvernig fáum við aukið fjármagn til þess að standa undir því? Hér er farin öfug leið.

Þetta var um almenna veðlánakerfið eða Byggingarsjóð ríkisins. Og ég verð að segja það, að ég er ekki heldur ánægður með það sem viðkemur verkamannabústaðakerfinu í þessu efni. Það var stolt þess kerfis frá upphafi, að lánin þar voru til miklu lengri tíma en í nokkru öðru lánakerfi. Nú á að stytta þennan lánstíma. Að vísu eru vextirnir lækkaðir úr 2%, sem nú er, niður í 1/2%, og lánin eru hækkuð úr 80% upp í 90% af byggingarkostnaði. Þetta er til bóta. En ég hef talið að ekki megi þó vera minna en hér er að gert.

Til skýringar því, hvað er að ske varðandi Byggingarsjóð verkamanna, væri freistandi að líta enn þá einu sinni í grg., að þessu sinni á bls. 29. Þar er tafla varðandi greiðslubyrði lána. Þar kemur í ljós, að greiðslubyrðin er léttari á næstu tveim árum en þyngri þar á eftir, þegar miðað er við ákveðna lánsupphæð, en þegar miðað er við aðra lánsupphæð, þá er greiðslubyrðin léttari á fyrstu fjórum árunum samkv. nýja kerfinu, en svo þyngri á eftir heldur en samkv. gildandi lögum. Ég held að það þurfi að taka þetta til gagngerðrar athugunar. Það verður að vera tryggt, að greiðslubyrði af lánum verkamannabústaða verði léttari og að mínu viti verulega léttari en hún er í dag.

Þá kem ég að leiguíbúðunum í þessu sambandi. Hver eru kjörin á leiguíbúðunum í dag? Það eru 2% vextir, lánið til 33 ára og 80% lánshlutfall. En hvað eiga lánin að vera samkv. þessu frv.? Vextirnir eiga að hækka úr 2% upp í 3.5%, lánstíminn á að lækka úr 33 árum í 15 ár og lánshlutfallið á að lækka úr 80% í 70%. Þetta kalla ég ekki að sé í framfaraátt, heldur þvert á móti. Og ég vil leggja áherslu á þýðingu leiguíbúðanna. Það hefur grundvallarþýðingu, að þeim þætti málanna séu gerð skil ekki síður en ýmsum öðrum þáttum.

Það væri freistandi að ræða miklu nánar um einstaka þætti þessara mála. Ég hef lokið að ræða um það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að væri þýðingarmest, en það er fjáröflunin til kerfisins. Og náskylt því er ávöxtun sjóðanna og lánskjörin. En auðvitað er fjöldamargt annað varðandi skipulagið sem væri ástæða til að ræða hér um.

Hv. 11. þm. Reykv. ræddi nokkuð þá skiptingu, sem frv. gerir ráð fyrir milli félagslegra íbúðabygginga og annarra íbúðabyggingu. Lagði hann mikið upp úr þessari skiptingu og taldi það vera mikið framfaraspor og auka hlut félagslega þáttarins. Ég er ekki viss um að ég geti skrifað undir þessi sjónarmið. Það er einfaldlega vegna þess, að ég tek það alvarlega þegar ég segi að lánskjör almenna veðlánakerfisins eigi að vera þannig, að almenningur í landinu geti staðið undir þeim með almennum launatekjum. En við þurfum að gera sérstakar ráðstafanir þeim til aðstoðar, sem ekki geta þetta. Það er á því sviði sem hinar félagslegu aðgerðir eiga að koma til hjálpar. Og það er með þetta eins og er í mörgum efnum varðandi félagslegar aðgerðir, að mestu varðar að gera nógu vel við þá sem raunverulega eru hjálpar og aðstoðar þurfi. Og eftir því sem það er minni hópur, eftir því getum við raunverulega gert betur. Það er meinsemd í okkar þjóðfélagi, sem allt of oft skýtur upp kollinum, að þegar verið er að fást við aðgerðir til hjálpar þeim sem raunverulega eru hjálpar og aðstoðar þurfi, þá verða menn svo góðhjartaðir að þeir vilja helst láta alla aðra eða sem flesta hafa sams konar aðstoð. Það er vegna þessa, sem okkur gengur svo hörmulega illa að aðstoða raunverulega þá sem eru aðstoðar þurfi.

Í þessu frv. er talað um einhverja samstarfsnefnd, sem rétt sé að koma á fót varðandi félagslegar íbúðarhúsabyggingar. Og í þessari samstarfsnefnd, hverjir eiga að vera þar? Fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands og frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Er það nú eðlilegt að fulltrúar embættismannanna í hinu íslenska þjóðfélagi eigi að hafa sérstaka aðild að félagslegum aðgerðum í íbúðarbyggingum? Ef hálaunamennirnir í Alþýðusambandi Íslands — (SU: Þeir eru flestir láglaunamenn í BSRB.) Já, hv. þm. segir það. Ég greiddi samt atkv. á móti því, að þeir fengju verkfallsrétt, m.a. vegna þess að ríkið ætti að sjá sóma sinn í því að launa embættismenn sína þannig að þeir þyrftu ekki á slíkum rétti að halda. En ef menn vilja endilega hafa þarna samstarfsnefnd, sem ég held að hafi nú ekki mikla þýðingu, hvernig væri þá rétt að skipa hana? Mér finnst sjálfsagt að þar ætti þá að vera fulltrúi hinna lægst launuðu og það ætti að vera fulltrúi frá Verkamannasambandi Íslands. Það er miklu eðlilegra. Og ég er ekki heldur á móti því, að það kæmi fulltrúi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga — það er ekki heldur gert ráð fyrir því í þessu frv. - vegna þess hve þáttur sveitarfélaganna í hinum félagslegu aðgerðum hlýtur að verða mikill og á að vera mikill.

Hv. 11. þm. Reykv. minntist á báknið sem orðið er í framkvæmd húsnæðismálanna, og honum fannst þar of langt gengið að efla það með þessu frv. Ég er honum sammála um það, að ekki sé ástæða til þess að gera forstjóra og þrjá framkvæmdastjóra út af örkinni til þess að stjórna þessum málum. En þetta er þó kannske ekki aðalatriði, vegna þess að þetta er ásýnd stofnunarinnar frekar en eðli. Spurningin er sú, hvort hægt er að minnka umsvif sjálfrar stofnunarinnar og þá þannig að allt almenna veðlánakerfið verði tekið undan stofnuninni og falið umsjá bankakerfisins í landinu. Og spurningin er sú, hvort einnig megi leggja niður tæknideild stofnunarinnar. Gert er þá ráð fyrir að hinar ýmsu stofnanir í þjóðfélaginu, sem ríkið stendur undir beint og óbeint og fjalla um byggingarmál og iðnað í landinu, vinni þau störf sem tæknideildinni eru ætluð. Nú er ég ekki að gera þetta hér að till. minni, en að gefnu tilefni minnist ég á þetta og hafði raunar dottið þetta í hug áður en hv. 11. þm. Reykv. minntist á þetta vandamál sem báknið er. Ég vil nú biðja hann að beina með mér þeim tilmælum til hæstv. ráðh., að hann athugi þetta. Og ég spyr hæstv. ráðh. að því, hvort þetta mál hafi verið athugað og hvort rétt væri að koma á skipulagsbreytingu í þessa átt.

Það er ýmislegt í þessu frv. varðandi skipulagsmál og einstaka þætti sem ég get tekið undir. Ég tel t.d. varðandi Byggingarsjóð ríkisins að rétt sé að leggja niður veðlánakerfið samkv. 5. gr. núgildandi laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem varðar fjáröflun til veðlánakerfisins gegnum veðdeild Landsbanka Íslands. Ég tel líka að þær breyttu útlánareglur, sem settar eru fram í 12. gr. frv., séu til bóta. Ég tel það einnig rétt, sem fram kemur í frv. varðandi Byggingarsjóð verkamanna, að færa allar félagslegar aðgerðir saman undir Byggingarsjóð verkamanna eða þá deild, að þar verði ekki einungis fjallað um hin beinu lán til verkamannabústaða, heldur og leiguíbúðirnar. En mér finnst koma til athugunar að taka einn lánaflokk til viðbótar og gera honum það hátt undir höfði, og þá á ég við lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði.

Ég hefði gjarnan viljað minnast á fleiri atriði, en ég skal nú mjög stytta mál mitt og kem ekki inn á ýmislegt sem ég hafði ættað mér að gera. Mér finnst ákvæði frv. um tekju- og eignamörk þeirra, sem geta notið lána úr Byggingarsjóði verkamanna, vera vafasöm og þurfa endurskoðunar við og tel þau vera jafnvel afturför frá því sem nú er í lögum. Hins vegar virðist mér þær kvaðir og takmarkanir, sem eðli málsins samkv. þarf að setja á eignarréttinn hjá þeim sem njóta fyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði verkamanna, ekki vera aðfinnsluverðar og þar sé skynsamlega á haldið í þessu frv.

Þá er komið að því að ég ljúki máli mínu. Meginatriði í því, sem ég hef verið að segja, er það fyrst og fremst, að frv. þetta er meingallað og nær engum tilgangi nema bætt sé úr með því að útvega lánakerfinu aukið fjármagn. Lánskjörin virðast síst betri, sennilega lakari heldur en í núgildandi lögum, og það er til hins verra. Frv. er góðra gjalda vert að ýmsu leyti. Og ég hef ekkert á móti því, að athugað sé fjárstreymi íbúðalánakerfisins og það sé framreiknað. Þetta fylgir í þessum skjölum. En hæstv. ráðh. bað okkur að hafa nokkurn fyrirvara á þessum útreikningum, og við nánari yfirlestur hygg ég að það sé alveg rétt sem ráðh. hefur bent okkur á í því efni.

Hæstv. ráðh. sagði, að þetta frv. væri árangur af stefnumörkun fyrrv. ríkisstj., vinstri stjórnarinnar. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo, að það hefði verið hið besta samkomulag um þetta í þeim herbúðum. Og þá geta menn nú ímyndað sér hvernig þetta gengur fyrir sig þegar samkomulagið er slæmt, eftir að hafa heyrt ræðu hv. 11. þm. Reykv. um þetta frv. (Gripið fram í: Frv. var aldrei lagt fyrir síðustu ríkisstj.) Þetta er annað en hæstv. ráðh. sagði eða annað en mér skildist að hann meinti.

Hæstv. ráðh. talaði um að æskilegt væri, að það væri samvinna milli flokka um þetta efni, og mæltist til þess, að Sjálfstfl. tæki þátt í þeirri samvinnu. Hann sagðist hafa orðið var við það í kosningabaráttunni fyrir síðustu alþingiskosningar, að Sjálfstfl. hefði ekki verið ósamþykkur ýmsu sem fram kemur í þessu frv. Það er ágætt, að hæstv. ráðh. varð var við þetta í kosningabaráttunni. Það mátti ekki seinna vera, því að ég stóð í þeirri meiningu að hæstv. ráðh. hefði verið kunnugt um allítarlegar — eða mjög ítarlegar í sumum greinum — tillögur sem fyrir lágu í hans rn. þegar fyrirrennari hans í ráðherrastól, Gunnar Thoroddsen, fór þaðan. Það var árangurinn af starfi nefndar sem sá ráðh. hafði skipað. Nú er mér ekki grunlaust um — þó að hæstv. ráðh. hafi ekki gert sér grein fyrir þessu fyrr en í kosningabaráttunni — að ýmislegt í þessu frv., sem til bóta gæti horft, væri einmitt það sem í þessum tillögum stóð.

Auðvitað munum við í Sjálfstfl, gera það sem í okkar valdi stendur til þess að afgreiðsla þessa frv. verði sem best. En það er algert aðalatriði í þessu máli, að við finnum leiðir til þess að efla fjárhag veðlánakerfisins, til þess að við getum gert það sem við erum sammála um að gera. Það er vandi okkar, og við skulum vona að við finnum ráð til þess að leysa þann vanda. Það mun ekki standa á Sjálfstfl. í því efni. En Sjálfstfl, gefur nú eins og jafnan lítið fyrir það að standa að einhverjum aðgerðum sem svo kynnu að vera ekki neitt annað en sýndarmennskan ein.