21.01.1980
Neðri deild: 21. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

39. mál, óverðtryggður útflutningur búvara

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Mig langar til að leggja örfá orð í belg í sambandi við þá umr. sem fram fer.

Í fyrsta lagi vil ég upplýsa í sambandi við það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það er rétt að með lögum nr. 32 frá 1979 gengu í gildi ákvæði um forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum þar sem gert er ráð fyrir að nokkuð verði gengið til móts við sveitafólk til þess að auðvelda því að taka orlof, sem margt af því hefur farið á mis við. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir nokkurri byrjun á þeirri þjónustu. Er lagt til í fjárlagafrv. að veittar verði í því skyni 32.5 millj. kr. Hins vegar er hér aðeins um að ræða fyrstu skrefin í mjög dýrri og kostnaðarsamri framkvæmd. Talið er að til þess að lögin geti að fullu komið til framkvæmda þurfi um 60 starfsmenn í afleysingaþjónustu og aðeins launakostnaður starfsmanna þessara muni vera um 600 millj. kr., þ.e. laun og launatengd gjöld. Einhver kostnaður yrði sennilega einnig við samræmingu á þjónustu þessari, skrifstofukostnaður o.fl., þannig að ef lögin yrðu að fullu tekin til framkvæmda mundi það sennilega kosta eitthvað á milli 700 og 800 millj. kr. Þó að hér sé um stórt og mikilsvert verkefni að ræða skyldu menn gera sér fulla grein fyrir að kostnaðurinn er mjög mikill fyrir ríkissjóð. Menn þurfa a.m.k. að hugleiða vandlega að hve miklu leyti væri rétt að aðrir aðilar en ríkissjóður tækju þátt í kostnaðinum við þetta sjálfsagða mál.

Ég skal fúslega viðurkenna það, enda hefur sjaldnast staðið á okkur Alþfl.-mönnum, að við mikinn vanda sé að etja í landbúnaði. Vandinn er tvíþættur. Hann stafar í senn af góðæri í þeim skilningi þess orðs að um mikla framleiðslu hafi verið að ræða og eins af harðæri, þ.e. vegna óblíðs veðurfars. Hvort tveggja skapar örðugleika sem mönnum eru kunnir og verður að taka á með mjög líkum hætti, þ.e. að útvega fé til þess að tekjuskerðing bænda verði sem minnst.

Sá vandi, sem stafar af því að framleiðslan í landbúnaði hefur orðið langt umfram þarfir þjóðarinnar og langt umfram það sem hægt er að selja til útflutnings miðað við þær útflutningsbætur sem lög leyfa hæstar, er líklega nálægt 6 milljörðum kr. Hér er lagt til að takast með ákveðnum hætti á við u.þ.b. helminginn af því vandamáli, sem er um 3 milljarðar kr., með þeim hætti að ríkissjóður greiði 3 milljarða á fyrsta fjórðungi ársins 1980 í formi útflutningsbóta fram yfir það sem lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins mæla fyrir um að gert skuli.

Ég vil taka fram í þessu sambandi að vandinn er ekki að útflutningsbætur skorti. Útflutningsbætur eru greiddar að fullu eins og lög leyfa. Vandinn er að framleiðslan hefur farið það langt fram úr þeim þörfum, sem innanlandsmarkaðurinn leggur henni á herðar, að útflutningsbætur að fullu samkv. gildandi lögum nægja ekki til að tryggja framleiðendum rétt verð fyrir alla framleiðsluna. Þarna er því ekki um að ræða skort á útflutningsbötum, heldur tekst ekki að selja á innanlandsmarkaði þá framleiðslu, sem unnin er á vettvangi landbúnaðarins, og í öðru lagi að þær útflutningsbætur, sem lög leyfa, nægja ekki til að hægt sé að tryggja fullt verð fyrir þann útflutning sem þarf að fara fram.

Þá má auðvitað taka á þessu vandamáli með tvennum hætti: Annars vegar með því að hækka útflutningsbótaviðmiðunina úr 10% í 12–15%, ef menn telja það rétt. Hin aðferðin er að reyna að ná einhvern veginn utan um það vandamál, sem þarna er um að ræða, í þeirri von að sjá fyrir endann á þeim vanda fyrir þjóðina í heild og bændastéttina einkum og sér í lagi að framleitt skuli meira af landbúnaðarafurðum á Íslandi en ~jóðin getur með góðu móti sjálf notað eða selt öðrum. Út af fyrir sig kæmi mjög vel til mála að skoða einhverja tímabundna umframaðstoð í því sambandi, en þá yrðu menn að sjá fyrir endann á vandamálinu. Hvað ætla menn að standa lengi að slíkri umframfjárútvegun? Hver á að greiða hana? Hvenær er líklegt að því máli verði lokið o.s.frv.? Hins vegar ætla ég að benda mönnum á að þó svo að frv., sem hér er til umr., yrði samþ. er vandinn alls ekki leystur, vegna þess að þegar er auðsjáanlegt að á árinu 1980 mun a.m.k. jafnhá fjárhæð bætast við sem ætti eftir að sjá fyrir. Um árið 1981 getur að sjálfsögðu enginn sagt á þessu stigi málsins. Þannig held ég að mjög nauðsynlegt sé að menn reyni að takast á við vandann í heild og gera sér ljóst að meginatriði málsins er að miða landbúnaðarframleiðsluna við þarfir þjóðarinnar sjálfrar og eðlilegan útflutning og eðlilega verndun fyrir þær framleiðslusveiflur sem ávallt geta orðið milli ára. En það er a.m.k. mjög varhugavert að takast á við þann vanda, sem hér við blasir, með því að ætla sér að leysa fjárhagsvanda manna aðeins frá ári til árs án þess að reyna að horfa á hvernig eigi að takast á við sjálft vandamálið, sem er ekki aðeins fólgið í tímabundnum skorti á fjármunum, eins og hér er verið að ræða um, heldur fyrst og fremst því, að framleiðslan í sumum búgreinunum er 40% eða jafnvel 50% umfram þarfir þjóðarinnar sjálfrar.

Ég vil vekja athygli á að nýlega hefur Þjóðhagsstofnun gefið umsögn, en hún gefur umsagnir um ansi marga hluti nú orðið, um einmitt þá tillögu að leysa vandamál bænda með tímabundinni hækkun á útflutningsbótum. Varar hún mjög við því að slík hækkun sé fjármögnuð með lántöku. Munu þeir þm.a.m.k., sem hafa séð nýjustu umsagnir Þjóðhagsstofnunar um tillögur flokkanna í stjórnarmyndunarviðræðum, fljótt reka augun í að þar kemst Þjóðhagsstofnun að þeirri niðurstöðu að a.m.k. sé mjög vafasamt að fjármagna slíkar greiðslur, sem hún segir að séu rekstrarstyrkir, með t.d. erlendri lántöku.

Hitt er alveg ljóst, að það er ekki aðeins að menn þurfi að ná tökum á því vandamáli, sem hér er um að ræða, þannig að sú lausn, sem menn ræða nú um og ég held að sé almennur vilji í þinginu að styðja, sé aðeins tímabundin björgun sem því miður sé fyrirsjáanlegt að muni draga dilk á eftir sér þau ár sem á eftir koma, — í raun sé verið að hækka hámarkið úr 10% í kannske 12 eða 15%. Kjarni málsins er fyrst og fremst að sé slíkt gert verði það liður í einhverri heildarlausn þar sem takmarkið sé að koma framleiðslu landbúnaðarafurða í eðlilegra horf.

Þetta var það sem ég vildi koma að og ber að skoða sem innlegg í þess umr. frekar en afstöðu til þessa frv. sem hér er til umr.