22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

216. mál, Hafísnefnd

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég er aðili að þessari fsp. með hv. þm. nafna mínum Valgeirssyni. Ég get að vísu ekki tekið undir það, að ég hafi heyrt það í mínu kjördæmi að hafísnefnd hafi sætt ámæli fyrir starfsleysi allt frá vordögum. Ég þykist hafa orðið var við það, að menn hafi verið harla ánægðir tiltölulega með störf nefndarinnar svo lengi sem hún starfaði. Aftur á móti var það alveg ljóst mál, að hafísnefnd sjálf taldi sig ekki hafa lokið störfum fyrr en hún hefði skilað lokaskýrslu sinni til ríkisstj. á sínum tíma, svo sem boðað var. Ég kannast ekki heldur við að nefndin hafi starfað frá 24. júlí til þess tíma er hún fékk sitt lausnarbréf, og ákvarðanir, sem teknar hafa verið, eða störf, sem unnin hafa verið í nafni hafísnefndar á þeim tíma, eru mér ekki kunn. Það er einnig ljóst, að nefndin átti störfum ólokið, m.a. því að láta afmunstra sig af fúsum og frjálsum vilja og eigin rammleik í lokin, og betur hefði nú hæstv. ráðh. haft samband við hafísnefnd sem slíka undir lokin áður en lausnarbréfið var skrifað.

Ég tel að ummæli fyrrv. forsrh. varðandi það prívat og persónulega álit hans, að nú hefði nefndin lokið störfum, komi þessu máli raunar ekkert við. A.m.k. var það, sem hafísnefnd setti sér sjálf fyrir og ríkisstj. hafði raunar samþykkt að hún ætti að leysa af hendi, ekki komið til skila. Að öðru leyti þakka ég vingjarnleg ummæli hæstv. ráðh. í garð nefndarinnar, en get ekki tekið til mín persónulega a.m.k. þakklæti fyrir þau nefndarstörf sem unnin voru á vegum hafísnefndar eftir 24. júlí.